Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:56:20 (6105)

2004-04-05 20:56:20# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, HBl
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Halldór Blöndal:

Frú forseti. Ég vil láta í ljós ánægju með að mál þetta skuli loksins í höfn, getum við sagt. Eins og við vitum hafa þessi mál verið í endurskoðun í meira en áratug. Ástæðan fyrir því að farið var að hreyfa við hinu gamla kerfi var fyrst og fremst sú að Samkeppnisstofnun taldi það ekki samrýmast samkeppnislögum. Samkeppnisráð taldi svo og það er ástæðan fyrir því að hægt er að finna einstök dæmi um að þungskattur hafi hækkað ótrúlega mikið miðað við fasta verðbólgu. Ástæðulaust er þó að tína til slík dæmi því að þau eiga sér eðlilegar skýringar. Enn fremur taldi samkeppnisráð það kerfi sem við höfum búið við stangast á við fyrirmæli samkeppnislaga þannig að þessi breyting er nauðsynleg.

Auðvitað fylgir því verulegur kostnaður að þurfa að vera með tvöfalt kerfi eins og hér er og litaða olíu. Það er auðvitað stórt skref að stíga. Á hinn bóginn er þróunin ekki komin á það stig enn að seldir séu dísilbílar með innbyggðum mælum þegar þeir eru nýir eins og mun verða innan nokkurra ára, kannski fimm ára. Það mundi gera það mögulegt að hafa samband við mælana hvenær sem er í gegnum síma og taka upp kerfi sem byggist á notkun eða kílómetragjaldi, verði það talið rétt síðar meir. Við munum sjá hver þróunin verður innan Evrópusambandsins að því leyti og annars staðar. Óhætt er að segja að þá verði farin sú leið sem menn telja hagkvæmasta með hliðsjón af því að reyna að haga gjaldskrá þannig að hún dragi úr mengun.

Hv. 8. þm. Norðvest. vék að því áðan að það ætti með einhverjum hætti að reyna að stuðla að því að þungaflutningar flyttust á sjóinn. Það eru ekki nema tvær aðferðir til þess. Önnur er sú að greiða slíka þungaflutninga niður og hin er sú að hækka álögur á vöruflutningabíla. Þriðja leiðin er ekki til í þeim efnum. Menn hafa ekki treyst sér til að auka svo álögur á vöruflutningum á landi að það stuðli beinlínis til sjóflutninga og á hinn bóginn hef ég ekki séð neinar útfærðar tillögur um hvernig menn hugsi sér niðurgreiðslu á sjóflutningum. Auðvitað er þetta spurning um kostnað og hagkvæmni en kannski stöndum við frammi fyrir því að strandsiglingar leggist í stórum og grófum dráttum niður ef nýir aðilar sem eignast Eimskipafélag Íslands telja ekki forsendur fyrir því að halda strandsiglingum áfram.

[21:00]

Það mun auðvitað hafa mjög miklar afleiðingar í för með sér og er óhjákvæmilegt af þeim sökum fyrir okkur að velta mjög alvarlega fyrir okkur styttingu leiða sem er kjarni málsins í þeirri umræðu sem upp hefur komið um að lækka flutningskostnað og draga úr álögum umferðarinnar á verð vörunnar, hvort sem við tölum um hráefni þegar það er komið á áfangastað eða fullunna vöru þegar hún er komin til neytandans.

Ég er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé fyrir okkur að huga alvarlega að því hvernig við getum beitt fleiri aðferðum en hingað til hafa yfirleitt verið til þess að standa undir vegagerð. Á sínum tíma var Keflavíkurvegur réttlættur með því að menn skyldu greiða vegskatt af þeim vegi. Við munum hvernig það endaði. Innheimtuskúrinn var sprengdur í loft upp. Nú greiða menn nokkurt veggjald fyrir að fara Hvalfjarðargöngin. Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt. Það voru forsendur fyrir göngunum á sínum tíma og mjög ýtt á okkur að gera það. Ég man að ég spurði að því á þeim tíma hvort þeim þætti það ekki betri kostur, íbúum Vesturlands, að hafa veginn pínulítið innar, losna við göngin og losna við veggjaldið en ekki máttu menn heyra það nefnt á þeim tíma. En hitt liggur ljóst fyrir að minni hyggju að þess verður ekki langt að bíða að veggjald komi á fleiri vegi.

Ég hef ásamt ýmsum öðrum þingmönnum lagt fram till. til þál. um að athuga hvort rétt sé að leggja veg norður Stórasand og þá er gert ráð fyrir að veggjöld standi undir þeim kostnaði sem því fylgir að leggja veginn um sandinn. Með sama hætti hefur verið talað um að reyna að flýta göngum í gegnum Vaðlaheiði með því að þau skuli að hálfu, eitthvað í þá áttina, greidd með veggjöldum. En þegar við tölum um fjáröflun til vegagerðar á þessum nótum og viljum að mark sé tekið á okkur megum við ekki hlaupa til eftir á og segja: Nei, nú er framkvæmdin unnin og nú viljum við ekki lengur borga veggjaldið. Við viljum sleppa við það eftir á. Það er ekki góð aðferð vegna þess að það dregur úr trúverðugleikanum á því að menn meini það sem þeir segja þegar þeir tala um að flýta framkvæmdum eða koma þeim í verk á þessum forsendum. Menn eiga þess vegna að tala gætilega þegar þeir reyna að skjóta sér undan, en hitt hefur líka komið fram að það er sennilega auðgert að lækka megi eitthvað veggjaldið án þess að ég hafi séð þá reikninga. En ég segi líka að sá tími er að koma að nauðsynlegt er að tvöfalda göngin undir Hvalfjörð og ég er þeirrar skoðunar að þá verði að standa undir hinum nýju göngum með veggjöldum eins og gert er með þau göng sem nú eru. Ég sagði þetta raunar á þeim degi sem göngin voru vígð.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt sé að fara endurgreiðsluleiðir eða eitthvað þvílíkt. Það er þrautrætt mál og ég hygg að enginn vegur sé að finna haldgóða leið til þess. Í mínum huga er kjarni málsins sá að hér hefur fundist leið sem mér sýnist vera mikil sátt um í þinginu í raun og veru og við getum ekki farið þá leið að mæla með því að mælar séu settir í alla bíla vegna þess að það er of dýrt, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, og þvílíkar vangaveltur geta ekki komið upp nema nýir bílar komi með mælunum. Þetta er því nauðsynleg breyting á réttum tíma og ég efast ekki um að henni verður vel tekið.