Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:44:55 (6115)

2004-04-05 21:44:55# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:44]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Jafnframt felur frv. í sér breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald og lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

Eins og flestir vita var hinu nýja fæðingarorlofskerfi m.a. ætlað að jafna betur stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði samhliða því að gefa þeim tækifæri til þess að skipta með sér umönnun barna sinna. Mikilvægt er að réttur foreldra til fæðingarorlofs sé jafn og að báðir foreldrar sjái sér fært að nýta rétt sinn. Á það einkum við í ljósi þess að talið er að jafn réttur til fæðingarorlofs sé einn af lykilþáttum þess að dregið verði úr kynbundnum launamun sem því miður er enn til staðar í nokkrum mæli á okkar vinnumarkaði.

[21:45]

Þegar á heildina er litið verður ekki annað séð en að lögin hafi skilað nokkrum árangri í samræmi við markmiðin og að almenn sátt ríki um efni laganna innan samfélagsins. Þegar horft var til reynslunnar af framkvæmd laganna þótti ekki fært að leggja til grundvallarbreytingar á kerfinu sjálfu, enda markmið þess skýr. Ótímabært þótti að leggja til breytingu á fyrirkomulagi laganna er varðar skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra þar sem treysta þarf betur í sessi það viðhorf að það þyki ekki tiltökumál að feður taki sér fæðingarorlof.

Vert er að hafa í huga, hæstv. forseti, að það eru aðeins þrjú ár liðin frá því að einungis 30% karla tóku sér fæðingarorlof. Eftir gildistöku laganna árið 2001 hefur þetta hlutfall farið í rúm 80%, enda þótt misjafnt sé í hve langan tíma feður eru í fæðingarorlofi. Kerfið hefur þó reynst kostnaðarsamt og sýna fjárhagsáætlanir Fæðingarorlofssjóðs að sjóðurinn muni ekki standa undir skuldbindingum sínum að óbreyttu. Megintilgangur þessa frv. er að renna styrkari stoðum undir fæðingarorlofskerfið, treysta stöðu þess og koma böndum á greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Með frv. þessu eru lagðar til breytingar á lögunum sem miða annars vegar að því að draga úr útstreymi úr Fæðingarorlofssjóði og hins vegar að því að auka tekjur hans.

Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með ákveðnum hluta almenns tryggingagjalds. Þegar sjóðnum var komið á fór fram tilfærsla milli atvinnutryggingagjaldsins og almenna hluta tryggingagjaldsins þannig að 0,85% af gjaldstofni runnu til Fæðingarorlofssjóðs í stað Atvinnuleysistryggingasjóðs áður. Sú tilfærsla hefur ekki haft áhrif á getu Atvinnuleysistryggingasjóðs til að greiða atvinnuleysisbætur á þeim tíma er liðið hefur frá gildistöku laganna.

Í þeim tilgangi að auka tekjur Fæðingarorlofssjóðs eru lagðar til breytingar á lögum um tryggingagjald er fela m.a. í sér enn frekari tilfærslu milli atvinnutryggingagjaldsins og almenna gjaldsins frá því sem gert var með lögum ársins 2000. Gert er ráð fyrir að almenni hlutinn verði hækkaður úr 4,84% í 4,99% af gjaldstofni tryggingagjaldsins. Samhliða þeirri hækkun er gert ráð fyrir að atvinnutryggingagjald verði lækkað úr 0,80% í 0,65%, af sama gjaldstofni. Síðarnefnda breytingin mun hafa áhrif á tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs enda rennur atvinnutryggingagjaldið óskert í fjármögnun hans. Tekjuskerðingin er áætlað að verði um 750 millj. kr. á ársgrundvelli. Engu að síður, hæstv. forseti, er gert ráð fyrir að geta sjóðsins til að greiða atvinnuleysisbætur skerðist ekki miðað við það atvinnuástand sem opinberar spár gera ráð fyrir á komandi árum. Jafnframt er gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins verði áfram á bilinu 7--8 milljarðar kr.

Enn fremur er gert ráð fyrir tilfærslu á fjárhagsramma Vinnueftirlits ríkisins innan fjárlaga. Fjárhagsrammi stofnunarinnar verði ákveðinn í fjárlögum en stofnunin hafi ekki markaðan tekjustofn tengdan gjaldstofni tryggingargjaldsins eins og verið hefur. Það skal tekið fram að framangreind breyting mun ekki hafa áhrif á tekjur Vinnueftirlitsins enda einungis áætlað að rekstur stofnunarinnar verði framvegis greiddur úr ríkissjóði óháð tekjustofni tryggingagjalds.

Hlutur Vinnueftirlitsins, samkvæmt lögum um tryggingagjald, hefur ekki verið fullnýttur fyrir stofnunina undanfarin ár. Hann hefur verið ákveðinn með reglugerð 0,048% af gjaldstofni tryggingagjalds. Sá hluti sem hefur ekki verið nýttur hefur runnið til Tryggingastofnunar ríkisins. Er enn fremur gert ráð fyrir að sá hluti verði greiddur úr ríkissjóði svo að Tryggingastofnun verði heldur ekki fyrir tekjutapi vegna þessarar breytingar. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs munu í kjölfarið aukast um 400 millj. kr. á ári.

Til að framangreindar breytingar á skiptingu tryggingagjalds skili sér til Fæðingarorlofssjóðs er jafnframt lagt til að ráðstöfun almenna tryggingargjaldsins til sjóðsins verði breytt þannig að 1,08% af gjaldstofni tryggingagjaldsins renni til hans í stað 0,85% sem nú er. Sú breyting svarar til hækkunar á almenna tryggingargjaldinu og tilfærslu á fjárhagsramma Vinnueftirlits ríkisins innan fjárlaga.

Hæstv. forseti. Ein helsta breytingin sem lögð er til með frv. þessu á sjálfu fæðingarorlofskerfinu er samstilling þess við skattkerfið. Markmið þeirra breytinga er að koma á auknu jafnvægi milli inn- og útgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs. Með því er verið að undirstrika tilgang kerfisins, þ.e. að gera foreldrum kleift að leggja niður störf til að annast börn sín án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki. Aukin áhersla er lögð á að sjóðnum sé einungis ætlað að bæta hluta þeirra tekna sem foreldri raunverulega hafði á viðmiðunartímabilinu samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda.

Svo unnt sé að samkeyra kerfin, þegar áætlun skattyfirvalda liggur fyrir að því er varðar tekjuárin sem viðmiðunartímabilið miðast við, er talið mikilvægt að Fæðingarorlofssjóður miði við sama tímabil og skattyfirvöld gera. Í ljósi þess að teikn eru á lofti um að foreldrar hafi kappkostað með ýmsum hætti að sýna tekjur sínar sem hæstar á viðmiðunartímabilinu er lagt til að tímabilið verði lengt um 12 mánuði frá því sem nú er. Með lengingunni er talið að meðaltal heildarlauna foreldra endurspegli betur rauntekjur þeirra, enda fylgir því meiri fyrirhöfn að leiðrétta tekjur svo langt aftur í tímann. Er því lagt til að viðmiðunartímabilið standi yfir í tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimilið við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Með samkeyrslu við endanlega álagningu skattyfirvalda fyrir umrætt tekjuár er síðan gert ráð fyrir greiðslu til foreldra í fæðingarorlofi verði leiðréttar til hækkunar eða lækkunar eftir atvikum. Þannig verði foreldrum gert að endurgreiða sjóðnum þær fjárhæðir sem hafa verið ofgreiddar. Að sama skapi er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins greiði vangreiddar fjárhæðir til foreldra ásamt vöxtum. Hafi verið um ofgreiðslu að ræða er jafnframt gert ráð fyrir að stofnunin geti leitað aðstoðar innheimtumanns ríkissjóðs við innheimtu þess fjár sem ofgreitt var með skuldajöfnun innan skattkerfisins.

Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er áfram gert ráð fyrir að foreldri uppfylli ætíð skilyrði um sex mánaða samfellt starf fyrir áætlaðan fæðingardag eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Hæstv. forseti. Að því er varðar viðmiðunartímabilið er leitast við að koma til móts við þá sem hafa verið tiltölulega skamman tíma á innlendum vinnumarkaði á sama hátt og áður. Hafi foreldri ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu er gert ráð fyrir að miðað verði við meðaltöl heildarlauna þess það tímabil sem foreldri hefur sannanlega unnið á innlendum vinnumarkaði, þó aldrei skemur en fjóra almanaksmánuði. Hafi foreldri hins vegar ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu en uppfyllir skilyrði um ávinnslutímann er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi eigi rétt á lágmarksgreiðslum úr sjóðnum í samræmi við starfshlutfall sitt. Sama gildir hafi foreldri haft lægri tekjur á viðmiðunartímabilinu en því nemur.

Hæstv. forseti. Að vel athuguðu máli þótti ekki hjá því komist að setja hámark á mánaðarlegar greiðslur Fæðingarorlofssjóðs til foreldra í fæðingarorlofi. Við ákvörðun fjárhæðar hámarksgreiðslu úr sjóðnum var horft til þess að hámark á útgreiðslu sjóðsins gæti verið til þess fallið að ganga gegn markmiðum laganna væri það ákveðið mjög lágt miðað við tekjur foreldra á innlendum vinnumarkaði. Miðað var við að röskun á tekjum allflestra heimila yrði áfram sem minnst þegar foreldrar legðu niður störf í fæðingarorlofi. Þá er jafnframt horft til þeirrar staðreyndar að karlar hafa enn að jafnaði hærri laun en konur og því væru meiri líkur á að lægra viðmið drægi frekar úr áhuga karla til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Það gæti aftur hægt á breytingum í átt að auknu jafnrétti á vinnumarkaði á sama tíma og það kæmi í veg fyrir að börn nytu samvista bæði við móður og föður á fyrstu mánuðum ævi sinnar. Gæti þannig tveimur af meginmarkmiðum laganna verið stefnt í tvísýnu yrði hámarkið ákveðið of lágt.

Með frv. þessu er lagt til að hámarkið miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra að fjárhæð 600 þús. kr. þannig að foreldrar með lægri mánaðartekjur njóti áfram greiðslna sem nemi 80% að meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili. Ef tekið er mið af tölulegum upplýsingum fæðingarorlofssjóðs fyrir árið 2003 höfðu 195 foreldrar hærri mánaðartekjur en 600 þús. kr. á árinu, þar af 178 karlar og 17 konur.

Með frv. þessu er enn fremur lagt til að gerðar verði ýmsar minni háttar breytingar á einstökum ákvæðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof sem ætlað er að tryggja að framkvæmd laganna gangi betur og styrki það verklag sem hefur þróast. Auk þessa er lagt til að undanþáguheimild 7. mgr. 8. gr. laganna, sem fjallar um það ef annað foreldri andast áður en barn nær 18 mánaða aldri, taki einnig til tilvika þegar hið látna foreldri hefur átt rétt á fæðingarstyrk samkvæmt lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að þessi undanþága eigi við hvort sem foreldrar eiga rétt á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks. Við tilfærslu réttinda hins látna foreldris er enn fremur gert ráð fyrir að þau verði að þeim réttindum er eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér. Allar lúta þessar breytingar, hæstv. forseti, að auknum réttindum eftirlifandi foreldris.

Þá ber að taka fram að með hliðsjón af úrskurði úrskurðarnefndar um fæðingar- og foreldraorlof frá júlí 2003 og fjárhagslegri stöðu Fæðingarorlofssjóðs þótti ekki tilefni til breytinga að því er varðar greiðslu orlofslauna.

Hæstv. forseti. Áætlað er að framangreindar breytingar muni tryggja afkomu Fæðingarorlofssjóðs miðað við núverandi útgjöld. Er það einlæg von mín að sátt megi takast um þær breytingar sem hér eru lagðar til svo nýbakaðir foreldrar fái áfram notið þessa framsækna kerfis til að annast börn sín á fyrstu mánuðum samleiðar þeirra.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.