Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 21:57:48 (6116)

2004-04-05 21:57:48# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[21:57]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í greinargerð frv. er megintilgangur þess að treysta stöðu Fæðingarorlofssjóðs og koma böndum á útgreiðslur. Það á bæði að gera með því að lækka þakið á fæðingarorlofsgreiðslum, sem samkvæmt því sem fram kemur í frv. skilar litlu, og með því að flytja úr einum vasa í annan, þ.e. að taka úr Atvinnuleysistryggingasjóði stærstu upphæðina, 750 millj. kr., og setja í Fæðingarorlofssjóð. Það hlýtur að koma til vandlegrar skoðunar í félmn. að fara þá leið. Eins á að taka úr ríkissjóði 400 millj. og þakið, ásamt lagfæringum til að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað eins og það er einhvers staðar orðað, á að gefa 150 millj. kr.

Það er út af fyrir sig fagnaðarefni að kostnaðaráætlanir hafi ekki staðist þótt sérkennilegt sé að komast þannig að orði. En það sýnir okkur að markmið frv. og tilgangur laganna á sínum tíma hefur náðst. Það er mikið gleðiefni hve margir karlmenn taka orðið fæðingarorlof. Eftir að lögin komust að fullu til framkvæmda, þ.e. á árinu 2003, fengu 4.432 karlar greitt úr Fæðingarorlofssjóði og 5.149 konur. Það er ánægjuefni en það er greinilegt að þeir sem sömdu frv. á sínum tíma hafa ekki reiknað með því að karlmenn mundu taka fæðingarorlof í svo miklum mæli sem raun ber vitni.

Það er mikilvægt, þegar reynt er að finna leiðir til að koma böndum á útgreiðslur eins og hér er sagt, að það sé gert með þeim hætti að ekki sé um að ræða afturhvarf til fortíðar eða aðgerðir sem leiði aftur til mismununar milli kynja á vinnumarkaði. Það er auðvitað hin hliðin á þessu máli sem við verðum að skoða vel í félmn.

[22:00]

Ég heyrði það a.m.k. ekki í máli ráðherra og ég hef ekki séð það í frv. að færð séu nein sérstök rök fyrir því að það eigi að miða við 600 þús. kr. tekjur og 480 þús. kr. á mánuði í fæðingarorlofsgreiðslur. Því væri kannski ágætt við þessa umræðu að fá frekari rökstuðning fyrir því af hverju miðað er við 600 þúsund, af hverju ekki 700 þúsund eða 500 þúsund. Af hverju er staðnæmst endilega við þessa tölu, 600 þús. kr.?

Ég skal taka undir það að út af fyrir sig eru mjög ákveðin og sterk rök fyrir því að setja þak á fæðingarorlofsgreiðslurnar. En mér finnst orka mjög tvímælis að taka 750 þúsund úr Atvinnuleysistryggingasjóði í því skyni. Ég spyr af því að ég hef ekki séð það í frv.: Hefur ráðherrann lagt fram einhverja útreikninga sem sýna það fram í tímann að Atvinnuleysistryggingasjóður þoli það að teknir séu svona miklir fjármunir úr honum? Við höfum verið að sigla inn í vaxandi atvinnuleysi. Þess vegna orkar það mjög tvímælis að fara þessa leið.

Það orkar líka tvímælis að taka svona mikla peninga úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum og greiða háar fæðingarorlofsgreiðslur þegar hæstu greiðslur sem greiddar eru úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru um 90 þús. kr. Núna nýlega urðu þær um 90 þús. kr. en voru lengst af á undanförnum missirum miklu lægri.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra því ráðherrann kom nokkuð inn á það í sínu máli: Er ekki ástæða til þess að skoða það og hafa af því áhyggjur að þessi breyting gæti þýtt það að þetta mundi skekkja nokkuð málið milli kynja við ráðningu í stjórnunarstöður? Af því hafa ýmsir áhyggjur og telja það hina hliðina á þessum peningi sem eigi að skoða um leið og menn vega og meta það að setja þak á fæðingarorlofsgreiðslurnar. Menn telja, og hæstv. ráðherra kom inn á það, að hálaunamenn muni síður fara í fæðingarorlof eftir þessa breytingu. 600 þús. kr. eru nú nokkuð háar tekjur. Ég verð nú að segja það. Það eru nokkuð háar tekjur og ættu þeir sem fara í fæðingarorlof og fá miklu meiri greiðslur en það raunverulega að hafa efni á því að fara í þriggja mánaða fæðingarorlof með slíkar tekjur þó að það dragi eitthvað tímabundið úr tekjum þeirra. Aftur á móti er litið á það að þrátt fyrir að konur séu með hærri tekjur en þessar 600 þúsund þá muni þær fara í fæðingarorlof en karlar síður og því muni atvinnurekendur síður ráða þær til stjórnunarstarfa. Markmið laganna var jú að þær stæðu jafnfætis þeim með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar voru á fæðingarorlofslögunum árið 2001. Þetta er eitthvað sem við þurfum að meta í félmn. líka samhliða því að við skoðum þetta þak. Vil ég ítreka að ég tel full rök fyrir því að setja þak á fæðingarorlofsgreiðslur en horfi á þennan þáttinn líka vegna þess að við megum ekkert gera sem verður afturhvarf til þess að það verði ekki jafnræði milli kvenna og karla á vinnumarkaðnum vegna fæðingarorlofstöku og barneigna.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um það sem ég hef nokkrar áhyggjur af, þ.e. atvinnulausa, sérstaklega vegna þess að hér hefur verið þó nokkurt langtímaatvinnuleysi og fólk sem er atvinnulaust á viðmiðunartímanum getur lækkað verulega í tekjum í fæðingarorlofi ef það hefur verið atvinnulaust lengi miðað við þær tekjur sem það hefur á vinnumarkaðnum. Ég held að þetta sé einn þeirra þátta sem við þurfum að skoða í félmn., þ.e. hvort ekki sé ástæða til þess að gera eitthvað í því máli. Á síðustu dögum hafa verið lögð fyrir mig allmörg dæmi um fólk sem verið hefur á vinnumarkaðnum en hefur nú á síðustu mánuðum ekki fengið vinnu þrátt fyrir ítrekaða leit og hefur því verið á atvinnuleysisbótum. Það sér fram á að ef það fer í barneignarfrí þá hafi það ekki nema kannski sem samsvarar 40--50% af þeim launum sem það hafði áður en það fór út af vinnumarkaðnum vegna atvinnuleysis. Til þessa held ég að við þurfum svolítið að horfa.

Ég velti líka fyrir mér, herra forseti, 33. gr. gildandi laga. Þar er talað um ósamrýmanleg réttindi. þ.e. að foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna sama barns eða sömu fæðingar og sama gildir um greiðslu sjúkradagpeninga og lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Ég velti fyrir mér hvaða áhrif fæðingarorlofsgreiðslur hafa á lífeyrisgreiðslur, umönnunargreiðslur og sjúkradagpeninga. Það hefur verið kvartað yfir því í mín eyru að þetta skerði umönnunargreiðslur sem eru alls óskyldar greiðslur vegna fötlunar barna, greiðslur sem foreldrar fá vegna sérstakrar umönnunar langveikra barna o.s.frv. Síðan finnst mér mjög sérstakt ef fæðingarorlofsgreiðslur skerða líka lífeyrisgreiðslur til öryrkja eða að sjúkradagpeningar og fæðingarorlof fari ekki saman. Ég vil spyrja hvort þetta hafi eitthvað verið skoðað í umfjöllun nefndarinnar sem samdi frv. og hver reynslan raunverulega sé af þessum ákvæðum í 33. gr. Mér finnst full ástæða til þess að nefndin skoði líka hvort komið hafi fram nokkrir alvarlegir annmarkar á 33. gr. varðandi skerðingu á lífeyrisgreiðslum og umönnunargreiðslum þegar hún fær þetta mál til umfjöllunar.

Einnig vil ég spyrja um það sem er, að ég held, nýtt í frv.

Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Brot gegn lögum þessum geta varðað sektum sem renna í ríkissjóð.``

Þetta er eitthvað nýtt sem er þarna að koma inn. Um hvaða sektargreiðslur eru menn þarna að ræða? Hvernig eru menn að hugsa um að taka á þessu? Er svona ákvæði t.d. í almannatryggingalögunum og er ástæða til þess að hafa þetta með þeim hætti hérna inni? Ég vildi heyra hvaða hugmyndir eru hér að baki.

Síðan vildi ég spyrja um það mál sem við hæstv. ráðherra höfum nokkuð tekist á um hér í þingsölum, þ.e. orlofsgreiðslur eða orlofslaun eftir að fólk hefur tekið fæðingarorlof. Ég minni á það í því sambandi að eftir að núv. félmrh. tók við starfi sínu þá fjölluðum við um þetta mál sl. sumar í efh.- og viðskn. Niðurstaðan varð sú að félmn. skrifaði hæstv. félmrh. Árna Magnússyni bréf þar sem óskað var eftir því að við heildarendurskoðun þá sem fyrirhuguð var á lögum um fæðingar- og foreldraorlof yrði m.a. litið til þess álitaefnis hvort rétt væri að tryggja öllum rétt til orlofslauna vegna áunnins orlofs í fæðingarorlofi. Nefndin vænti þess að heildarúttekt lægi fyrir sem fyrst þannig að unnt yrði að leggja fram frv. til breytinga. Við fulltrúar Samf. í nefndinni lögðum áherslu á að niðurstaða fengist áður en þing kæmi saman á sl. hausti.

Nú er ekkert vikið að því í frv. hvort nefndin hafi yfirleitt skoðað þetta mál. Mér heyrðist hæstv. ráðherrann í framhjáhlaupi undir lok ræðunnar eyða tveim, þremur orðum í þetta, alla vega var það ekki mikið og fór fram hjá mér hvað þarna var á ferðinni hjá hæstv. ráðherra. Alla vega virðist nefndin ekki mikið hafa skoðað þetta mál. Það er ástæða til þess að rifja málið upp nú, ekki síst þegar það er komið fyrir dómstólana. Nú fyrir skömmu stefndi ASÍ Tryggingastofnun ríkisins vegna þess að fólk á almennum vinnumarkaði fær ekki greitt orlof eftir að hafa verið í fæðingarorlofi. Það var 24. febrúar á þessu ári sem stefnan kom fram.

Ég vil rifja upp að í svari sem ég fékk frá fyrrv. félmrh. var afar skýrt og afdráttarlaust kveðið á um að ekki væri hægt að undanskilja ávinnslu á rétti til greiðslna í orlofi sem foreldrar áunnu sér í fæðingarorlofi frá öðrum starfstengdum réttindum og að það væri bæði byggt á ákvæðum laga um þetta efni í orlofslögum og lögum um fæðingarorlof. Svarið sem ég fékk var mjög ítarlegt og skýrt, væntanlega unnið af lögfræðingum ráðuneytisins. Það var mjög vandað til þess verks. Ég er því afar hissa á að ekkert skuli sagt um þetta í þessu frv. og því einnig að ef hæstv. ráðherra telur einhverja óvissu í þessu efni, sem fyrrv. ráðherra taldi ekki, hvers vegna í ósköpunum hann setji þetta þá ekki inn í frv. frekar en að bíða eftir því að fá dóm yfir sig í þessu máli.

Ég hef lesið þau rök sem Alþýðusambandið hefur sett fram í stefnu sinni. Þau rök eru mjög ítarleg og í hæsta máta skotheld að mínu viti. Þeir fara fram á það í dómkröfum sínum að það verði viðurkennt með dómi að Tryggingastofnun ríkisins, vegna Fæðingarorlofssjóðs, beri að greiða foreldrum sem aðild eiga að aðildarfélögum Alþýðusambandsins orlofslaun. Þar er þetta mjög mikið rökstutt. Þeir segja að meginástæða stefnanda sé sú að fyrrgreindur úrskurður --- þ.e. úrskurðarnefndar um fæðingarorlof sem úrskurðaði í þessu efni að ekki ætti að greiða orlof eftir fæðingarorlof, sem var þvert ofan á úrskurð ráðuneytisins --- að meginástæða stefnanda nú sé sú að fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar og framkvæmd Tryggingastofnunar sé í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 95/2000, í andstöðu við orlofslög nr. 30/1987 og í andstöðu við 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 93/104.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna miðað við 12 mánaða samfellt tímabil og að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Samhljóða ákvæði er í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um að samkvæmt 7. gr. laga um tryggingagjald teljist til gjaldsstofns skv. 6. gr. laganna m.a. hvers konar laun og þóknanir, þar með talið orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof. Þetta segir beinlínis í lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof greiðir Fæðingarorlofssjóður það mótframlag til lífeyrissjóðs sem atvinnurekanda ber ekki að greiða og skv. 2. mgr. 14. gr. reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða.

Hér kemur einnig fram, með leyfi forseta:

,,Með lögum um orlof var staðfest sú meginregla að órjúfanlegt samband er á milli orlofs frá störfum og greiðslu.``

Síðar í stefnunni segir, með leyfi forseta:

,,Frítökuréttur án greiðslu er þannig ekki orlofsréttur eða orlofstökuréttur í skilningi orlofslaga.``

Rökin eru því mjög sterk. Ég hef þó ekki tíma til þess að fara yfir alla stefnuna, herra forseti, sem væntanlega mun koma fyrir félmn. þegar við fjöllum um þetta mál. Með fæðingarorlofslögunum var verið að jafna réttindi fólks, m.a. á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera. Því er það óþolandi að fólk á opinbera markaðnum, sem vinnur hjá hinu opinbera, fái sitt orlof að loknu fæðingarorlofi en ekki þeir sem vinna hjá hinu opinbera og eru starfsmenn t.d. ASÍ og alls ekki þá þeir sem eru á almenna vinnumarkaðnum.

[22:15]

Þetta þýðir í reynd ósköp einfaldlega, herra forseti, að verið er að skerða fæðingarorlof þeirra sem ekki fá orlofið um 2--3 vikur. Það fólk hefur í raun og sanni 2--3 vikum styttra fæðingarorlof því ég þekki mörg dæmi um að fólk hafi ekki tekið orlof sitt eftir fæðingarorlof því það hefur átt að fá það launalaust. Þarna er verið að mismuna fólki mikið á vinnumarkaðinum eftir því hvort það starfar hjá hinu opinbera eða á almenna vinnumarkaðinum. Það var reiknað út á sínum tíma eftir að svar fyrrv. félmrh. lá fyrir að um 10 þúsund manns gætu átt inni orlofsfé sem þá var a.m.k. 500 millj. kr. og er örugglega orðið eitthvað meira núna vegna þess að við vorum að fjalla um þetta mál fyrir tæplega ári. En hæstv. ráðherra virðist greinilega frekar vilja fá á sig dóm í málinu en gera nokkuð í þessu sem hann hefði getað gert miðað við reglugerðarbreytinguna. Hann fékk að vísu úrskurð úrskurðarnefndar sem er óskiljanlegur að mínu viti en hann hefði a.m.k. getað komið með lagabreytingu sem tryggði að jafnræðis væri gætt milli þeirra sem eru á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra fjalli aðeins meira um þessa hlið málsins sem er mjög mikilvæg að mínu viti og getur leitt til þess að karlmenn sem missa laun í orlofi eftir að hafa tekið fæðingarorlof fari síður í fæðingarorlof, ekkert síður en það sem menn hafa áhyggjur af varðandi þakið, að karlmenn sem eru á háum launum fari ekki í fæðingarorlof.

Ég spyr þess vegna um afstöðu hæstv. ráðherra til þess og vona að hann svari því áður en umræðunni lýkur.