Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:31:04 (6124)

2004-04-05 22:31:04# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þótt málið sem við ræðum hér tengist sannarlega stórum og mikilvægum málaflokki, þ.e. fæðingar og foreldraorlofi og kerfisbreytingu í þeim efnum fyrir þremur árum, þá er kannski ekki efni til að setja á mjög langar ræður um málið við 1. umr. og það á síðkvöldi. Málið er tiltölulega einfalt og snýst um tilteknar aðgerðir til að treysta fjárhagsstöðu þessa kerfis. Útgjöld hafa þar farið nokkuð fram úr því sem menn gerðu ráð fyrir og áætlanir stóðu til. Það er í sjálfu sér mjög ánægjulegt og jákvætt vegna þess að þar er við að glíma vandamál, ef vandamál skyldi kalla, sem stafar af því að menn hafa nýtt sér, í ríkari mæli en reiknað var með, rétt sinn til töku fæðingarorlofs, einkum og sér í lagi feður. Þeir öðluðust fyrst með tilkomu núgildandi laga það sem hægt er að kalla umtalsverðan sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Áður en núverandi skipan komst á, með níu mánaða fæðingarorlofi þannig úr garði gerðu að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða og síðan geta þeir samið um ráðstöfun þeirra þriggja mánaða sem þar við bætast, var að vísu kominn vísir að sjálfstæðum rétti feðra, þ.e. tveggja vikna feðraorlof. Það var þó nokkuð skref á sínum tíma frá því ástandi sem áður var. Þess réttar naut m.a. sá sem hér stendur og fann tilfinnanlega fyrir því hve stuttur sá tími var og fljótur að líða. Reyndar voru það ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem fyrstir hreyfðu á Alþingi með tillöguflutningi við því máli að til sögunnar kæmi sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs. Við fluttum um það þáltill. ári áður en frv. kom frá ríkisstjórn sem fól hið sama í sér.

Það er sérstaklega ánægjulegt hversu hratt og vel menn tóku við þessum nýju réttindum og hafa í ríkum mæli nýtt sér þau. Það er ákaflega jákvætt, í þeim skilningi, að þurfa að glíma við þann vanda að tryggja áfram undirstöðu kerfisins, að nægir fjármunir séu til til að standa undir útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs.

Hinn angi málsins, sem tengist þeirri ráðstöfun, að setja þak á hámarksgreiðslur úr sjóðnum, er að því leyti ekki eins ánægjulegt umfjöllunarefni að hann endurspeglar og er fyrst og fremst til marks um þann gríðarlega launamun sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi í dag. Sá munur hefur auðvitað farið hraðvaxandi. Það hefði fyrir ekki svo mörgum árum síðan þótt saga til næsta bæjar að laun yfir 600 þús. kr. á mánuði væru það algeng að það skipti vart minnsta máli þótt sneitt væri ofan af fæðingarorlofi til þeirra fáu einstaklinga sem kynnu að lenda í þeirri stöðu að eiga rétt til töku fæðingarorlofs og hafa umtalsvert hærri laun en það. En sá er ekki lengur veruleikinn, sbr. upplýsingar sem hér komu fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra, að tæplega 200 foreldrar nýttu sér rétt til töku fæðingarorlofs á síðasta eða næstsíðasta ári sem höfðu laun hærri en þær 600 þús. kr. sem valið hefur verið að setja mörkin við.

Þegar kemur að heildarútgjöldum sjóðsins vega þær fjárhæðir sem þakið léttir af sjóðnum í raun ekki þungt, þ.e. sá 150 millj. kr. sparnaður sem, hafi ég tekið rétt eftir, á með því að nást fram. Það má segja að jafnvel sé frekar um táknræna og pólitíska aðgerð að ræða en að þetta sé meiri háttar liður í að leysa fjárhagsvanda sjóðsins. Ég held að þá eigi bara að horfast í augu við það og kalla það því nafni. Hér skipta langmestu máli þær aðgerðir sem farið er í til að færa til fjármuni úr tryggingagjaldi yfir til Fæðingarorlofssjóðs. Þar eru stóru tölurnar á ferðinni.

Um efni frv. vil ég segja að ég tel að flest af því sem þar er lagt til sé til bóta og sjálfsagt. Að mínu mati er sjálfgefið að samstilling þessa fyrirkomulags við skattkerfið og samkeyrsla við álagningu skatta sé eðlileg, nái það fram betri stýringu á því að menn fái greiðslur í sem fullkomnustu samræmi við raunveruleg laun. Sömuleiðis tel ég eðlilegt að breyta viðmiðun úr 12 í 24 mánuði. Með lengra viðmiðunartímabili á að draga úr líkum á því að miklar sveiflur í launum eða tilfæringar til að reyna að hækka viðmiðun sína skekki fæðingarorlofsgreiðslurnar.

Varðandi þakið sjálft þá var það mál mikið rætt á sínum tíma eins og menn muna. Í sjálfu sér væri handhægt að fletta einfaldlega upp í þeim umræðum. Ég hygg að flestir þeir sem tjáðu sig um málið á sínum tíma hafi eitthvað komið inn á þá hugmynd. Hún var ítrekað og mikið rædd og virtist njóta verulegs stuðnings. Ef ég man rétt strandaði það fyrst og fremst á andstöðu eins stjórnmálaflokks að ekki var sett einhvers konar þak á greiðslurnar strax í byrjun. Það mun hafa verið Sjálfstæðisflokkurinn, herra forseti, sem ekki var hrifinn af þeirri hugmynd og á jafnvel enn í einhverjum innantökum út af því að það sé upptekið. Ég held að minni mitt svíki mig a.m.k. ekki hvað sjálfan mig varðar, að ég var í hópi þeirra sem töldu koma sterklega til greina, gott ef ég ekki beinlínis lagði það til, að menn færu að þessu leyti bil beggja. Jafnrétt og skylt það er að ná fram þeim markmiðum laganna að hvetja almennt foreldra af báðum kynjum til að nýta sér þennan rétt og huga í leiðinni að réttindum barnsins, að það njóti samvista við báða foreldra sína, þegar þeir eru til staðar í þeim skilningi að þeir geti verið samvistum við barnið, þá ber líka að hafa í huga að það er ekki sjálfgefið að samtryggingarkerfi af þessu tagi elti launamun þjóðfélagsins út í hið óendanlega. Má nú á milli vera hvort þessi hvati sé þar hafður til staðar í þeim skilningi að greiðslurnar taki mið af launum upp vissum mörkum og hinu að menn greiði 80% af hvaða ofurlaunum sem eru.

Til samanburðar má taka það fyrirkomulag sem við höfum varðandi greiðslu atvinnuleysisbóta. Þegar menn í góðum stöðum, með há laun, verða fyrir því óláni að missa skyndilega vinnuna þá er engu slíku til að dreifa. Þá er ekkert mið tekið af þeim tekjum sem menn höfðu áður í fyrirkomulagi okkar. Það er reyndar fátítt því að yfirleitt er að einhverju leyti tekið mið af launum, a.m.k. fyrstu mánuði eftir að menn missa vinnuna, í atvinnuleysistryggingakerfum nálægra þjóða. Það er dálítið mótsagna- og tilviljanakennt hvernig þetta hefur þróast hjá okkur, hæstv. forseti, ef farið væri út í þá sálma.

Ég tel ærin rök fyrir því, bæði út frá þessum sjónarmiðum og fjárhagssjónarmiðum sjóðsins, að setja skorður við þeim upphæðum sem greiddar eru út. Hitt er annað mál að það má velta fyrir sér, á reyndar að velta því rækilega fyrir sér, hvernig þakið er útfært. Það er ekki sjálfgefið að velja þá leið sem hér er farin, að greiða fast hlutfall, 80% af launum, alla leið upp að einum tilteknum viðmiðunarmörkum og síðan hafa þakið flatt eftir það. Að sjálfsögðu má ná fram sömu fjárhagsáhrifum með öðrum aðferðum, t.d. þeim að greiða stiglækkandi hlutfall af launum eftir að farið er upp fyrir tiltekin viðmiðunarmörk og skerðing hefst. Þannig fengist kúrfa með tilteknum boga, en ekki ein hallandi lína og síðan flatt brot í henni þegar viðmiðunarmörkunum er náð. Með því að elta launin með lægri prósentu eitthvað upp á við héldist áfram sú hugsun, í takmörkuðum mæli þó, að menn hefðu eitthvert hlutfall af launatekjum sínum í greiðslur á fæðingarorlofstímanum.

Þetta er upplagt viðfangsefni fyrir reikningsglaða menn í viðkomandi þingnefnd að leggjast yfir. Báðar aðferðirnar hafa kosti og galla, þ.e. sú sem frv. gerir ráð fyrir og sú útfærsla sem ég var að reifa.

Ég er eindreginn talsmaður þess að gripið verði til aðgerða til að styrkja kerfið. Ég tel að þetta sé merkt framfaraskref í almannatrygginga- og velferðarkerfi okkar sem tekið var á sínum tíma. Ég hef jafnvel leyft mér að kalla þetta eitt af því fáa af uppbyggilegum og jákvæðum toga sem í jafnréttis- og velferðarmálum á alllöngu árabili. Langflestar þær breytingar sem við þingmenn höfum haft í höndunum á undanförnum árum, jafnvel 10--12 árum eða svo, hafa verið af hinu taginu, breytingar til skerðinga og heldur þrenginga á því samábyrga velferðarkerfi sem hér var búið að puða upp á síðustu öld. Það er veruleikinn, því miður, herra forseti. Að langmestu leyti hafa breytingar í þessu kerfi verið heldur í neikvæðari átt, helst með þessari stóru og ánægjulegu undantekningu þar sem sótt var verulega á varðandi bætt réttindi foreldra að þessu leyti. Enda var það vonum seinna, herra forseti. Við Íslendingar ættum ekki að hrósa okkur sérstaklega yfir því. Með því að fara úr þeim sex mánuðum sem áður voru og upp í þessa níu og bæta við þessum þriggja mánaða sjálfstæða rétti feðra, vorum við fyrst og fremst að færast aðeins nær því að standa jafnfætis hinum Norðurlöndunum en við áður gerðum og eigum þó enn nokkuð í land.

Ég vil gjarnan, herra forseti, að það gleymist ekki við þessa umræðu að það er langt því frá að við séum komin á endastöð í þessum efnum. Ég sagði fyrir þremur árum og endurtek það hér, að það hlýtur að vera baráttumál og keppikeflið að að lokum komum við þessum réttindum í það sem gerist á hinum Norðurlöndunum, þ.e. að hér verði árs fæðingarorlofsréttur, gjarnan hugsaður á þessum grunni áfram, að verulegur hluti sé sjálfstæður réttur beggja foreldranna og síðan komi réttur sem menn geti skipt á milli sín. Til viðbótar því að lengja þetta samtals upp í eitt ár þarf að auka sveigjanleikann í kerfinu, auka möguleikana á að dreifa töku fæðingarorlofsins yfir lengri tíma þannig að foreldrar geti hafið þátttöku á vinnumarkaði á nýjan leik, t.d. í hlutastarfi eða jafnvel, eins og fyrirkomulagið er í Svíþjóð, tekið viðbótarfrí í formi fæðingarorlofs á uppvaxtarárum barnsins allt að sjö ára aldri. Það getur komið sér mjög vel fyrir foreldra ungra barna að geta tekið til skiptis slík viðbótarfæðingarorlofstímabil, á tímabilum þegar börnin eru að hefja skólagöngu, í leikskóla eða grunnskóla o.s.frv.

[22:45]

Fyrir mér er þetta því mikilvægt, ekki síst vegna þess að það væri auðvitað afturför ef við gæfumst upp á því að tryggja núna fullnægjandi fjárhagslegan grundvöll fyrir framkvæmdinni eða rekstri þessa kerfis og algerlega óásættanlegt frá sjónarhóli þeirra sem vilja halda áfram að bæta kerfið þangað til það er orðið virkilega slíkt að við getum öll verið stolt af því.

Síðan vil ég segja, herra forseti, um þær breytingar sem frv. felur í sér hvað varðar tilfærsluna úr Atvinnuleysistryggingasjóði yfir í Fæðingarorlofssjóðinn, þ.e. þá ráðstöfun að lækka þann hluta tryggingagjaldsins sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs úr 0,8% í 0,65%. Með því er að vísu talið, sé ég, í forsendum frv. að Atvinnuleysistryggingasjóður ráði nokkurn veginn við útgjöld sín eins og staðan er í dag. Það verður þó allt í járnum og eru þó atvinnuleysisbæturnar ekki hærri en raun ber vitni þrátt fyrir þá litlu hækkun sem loksins varð á þeim nú á dögunum, að þá skyldu menn minnast þess hverjar upphæðirnar eru sem þar eru á ferðinni. Ég held að menn verði að gæta sín verulega í því að það má heldur ekki fara að umgangast af neinni léttúð mikilvægi þess að Atvinnuleysistryggingasjóður sé sæmilega á sig kominn fjárhagslega, að þar sé frekar en hitt borð fyrir báru, og það má a.m.k. að mínu mati alls ekki ganga lengra í þá átt að skerða frekar tekjur hans eða láta sjóðinn ganga á eignir sínar, sem við blasir ef atvinnuleysið yrði af einhverjum ástæðum þó ekki væri nema örlítið meira en núverandi áætlanir gera ráð fyrir.

Það er reyndar heldur meira en menn áttu von á. Eitt af því sem stóriðjuframkvæmdirnar margnefndu áttu að gera meira og minna var að útrýma atvinnuleysi eins og dögg fyrir sólu. Þær hafa ekki einu sinni nægt til þess að útrýma því á Austurlandi, herra forseti, hvað þá annars staðar í landinu, eins og kunnugt er, og þróunin þar hefur orðið talsvert önnur en menn spáðu fyrir. Því miður verður að horfast í augu við það að um talsvert atvinnuleysi, bæði staðbundið og kynbundið að hluta til bundið einstökum atvinnugreinum, er að ræða og lítið lát á því á þeim svæðum þar sem það ástand er alvarlegast. Þar má nefna atvinnuleysi meðal kvenna á ýmsum svæðum á landinu. Þar má nefna t.d. atvinnuástandið á Suðurnesjum og fleira í þeim dúr.

Eins og málin standa í augnablikinu sýnist þessi ráðstöfun réttlætanleg. Hún á að geta gengið án þess að Atvinnuleysistryggingasjóður fari beinlínis í halla en þar má ekkert út af bera eins og áður sagði og ég tel að það þurfi að fylgjast mjög vel með því á næstu mánuðum og missirum að þar lendi menn ekki út af sporinu. Ef til þess kemur standa menn frammi fyrir því að gera annað tveggja, að auka tekjuöflunina, sem er aldrei vinsælt að nefna en ég tel auðvitað að það eigi ekki að vera neitt bannorð í umræðunni þegar í hlut eiga þjóðþrifamál af því tagi sem við erum að ræða um hér og gríðarlega mikil samfélagsleg verkefni eins og það er að tryggja tekjulegan grundvöll greiðslna fæðingar- og foreldraorlofs og greiðslna atvinnuleysisbóta. Hinn kosturinn er þá einfaldlega að afla til þess fjár með almennum tekjustofnum ríkisins og færa einhver framlög úr ríkissjóði inn í þetta viðfangsefni.

Herra forseti. Eins og ég hef látið koma fram hér eru viðhorf mín og flokks míns til þessa frv. í það heila tekið fremur jákvæð. Það eru að sjálfsögðu ýmis útfærsluatriði í því sem við áskiljum okkur allan rétt til að skoða og eftir atvikum leggja til breytingar á en við munum nálgast málið með því hugarfari að það sé mikilvægt að tryggja áframhaldandi og traustan grundvöll þessara mikilvægu viðfangsefna.