Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:49:52 (6125)

2004-04-05 22:49:52# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:49]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um að koma Fæðingarorlofssjóði í lag sem næstum er orðinn uppiskroppa með fé. Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um stöðu á útgreiðslum úr sjóðnum fyrir árið 2002 og fyrstu tíu mánuði ársins 2003. Þar komu margar merkilegar upplýsingar í ljós, m.a. að megnið af útgreiðslum sjóðsins er í mjög lágum tekjuflokkum, þ.e. frá bilinu 100 til 150 upp í 200 þús. kr., og afar fáir, tiltölulega fáir aðilar t.d. á fyrstu tíu mánuðum ársins 2003 fengu úr sjóðnum 400 þús. kr. eða meira, eða 330 karlar og 40 konur. Og eins og hæstv. ráðherra upplýsti áðan voru það 178 karlar og 17 konur sem fengu yfir 480 þús. kr. Stofnun sjóðsins er mjög fjölskylduvæn aðgerð og var ég mjög fylgjandi henni og einnig til að jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Hún er líka hvatning fyrir fólk til að eignast börn en fæðingartíðni hjá vestrænum þjóðum hefur farið mjög niður og er sums staðar komin niður fyrir núll, hjá sumum þjóðum milli núll og 1%, og hefur farið lækkandi hér á landi. Þessi aðgerð ætti að vinna í öfuga átt. En allt kostar þetta peninga og það er kannski út af því, virðulegi forseti, sem ég er hér.

Það stendur ekkert í þessu frv., ég hef a.m.k. ekki fundið það, um stöðu sjóðsins nákvæmlega. Ef ég man rétt var gert ráð fyrir 4,2 milljörðum á þessu ári, þ.e. markaðir tekjustofnar sem koma af tryggingagjaldinu, almenna tryggingagjaldinu, en það stefnir í að útgjöld sjóðsins verði einhvers staðar á milli 5,5--5,8 milljarðar. Þannig að mínu mati eru þeir 1,3 sem verið að leggja til hér varla nóg til þess arna.

Ef ekkert verður að gert hefur hæstv. ráðherra upplýst að allt fé sjóðsins verði uppurið um áramót og jafnvel fyrr. Og hvernig nálgast menn þá slíkt vandamál? Ef við værum með heimilisbókhaldið yrðum við að spara. Við yrðum einhvern veginn að reyna að skera niður eða gera einhverja hluti og spara. Hér er aftur á móti farin önnur leið. Annars vegar er farið í vasann á ríkissjóði, sem er auðvelda leiðin, og hins vegar í vasann á atvinnulífinu til að rétta sjóðinn af. Og í þriðja lagi eru hér fimm atriði til að draga úr útgreiðslum hjá sjóðnum sem ég tel mjög góð í raun, þau úrræði sem sett hafa verið fram til að minnka möguleika á misnotkun og öðru varðandi sjóðinn. Það er mitt mat að áhrif þeirra breytinga séu kannski frekar vanmetin en ofmetin.

Talað er um að taka 750 milljónir úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða minnka tekjur til hans um það og setja í Fæðingarorlofssjóð. Þá hefði líka verið hægt að segja að það væri hægt að taka þessar 750 milljónir af atvinnulífinu. En aldrei hefði stofnun þessa sjóðs og starfsemi verið möguleg nema við værum með sterka stöðu í atvinnulífinu hér á landi og sterka stöðu ríkissjóðs. Þá hefðum við getað lækkað álögur á atvinnulífið um 750 milljónir. Ef ég man rétt las ég í blöðunum um daginn, virðulegi forseti, að eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs sé 8,3 milljarðar. Ég er aftur á móti bjartsýnn á að atvinnuleysi eigi eftir að minnka og að staða sjóðsins muni því ekki verða lakari á næstu árum. Ég held að atvinnuleysi eigi eftir að minnka verulega og tek ekki undir þá svartsýni sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var með hér á undan mér.

Síðan er farið í ríkissjóð til þess að ná í 400 milljónir í viðbót, og þarna stendur svona saklaus setning eins og: greiðist úr ríkissjóði, en einhvers staðar verður að fá fjármuni í það. Annaðhvort verða menn að auka tekjur, auka halla eða minnka rekstrarafgang eða annað slíkt.

Hvað hefðum við gert ef við hefðum ekki haft þessi úrræði? Það hefði verið tvennt, annaðhvort að lækka þakið eða minnka þakið enn frekar og það er nú allnokkuð að vera með tekjur upp á 600 þúsund. Mín skoðun er að fara hefði átt með þakið enn neðar og prósenturnar úr 80 og eitthvað niður til að ná meiri sparnaði. Þessi sparnaður í sjóðnum upp á 150 milljónir er ekki nema 12--14% af því sem þarf að gera. Og maður spyr því hæstv. ráðherrann að því hvernig menn ætla að fara að því ef þetta verður enn þá meira. Ef útgjöld sjóðsins verða 5,7 eða 5,8 milljarðar á þessu ári, hvað gera bændur þá? Verður farið í ríkissjóð eða verður eitthvað annað gert?

Mér finnst þetta ódýr aðgerð. Það þarf ekkert að reyna á sig eitt eða neitt í þessu. Við þurfum ekkert að vera að spá í að spara. Farin er auðvelda leiðin. Mér finnst einhvern veginn að menn fari með léttúð í þessu máli og þess vegna kem ég hér upp. Þó að ég sé mjög fylgjandi fæðingarorlofskerfinu og allt það er það samt mjög sérkennilegt hve útgjöld hjá sjóðnum hafa aukist mikið á undanförnum árum frá því að það tók gildi. Ef þau halda áfram að aukast svona frá ári til árs, þó svo að þau minnki eðlilega þar sem aukningin á körlum sem taka fæðingarorlof eykst kannski ekki svona skarpt á næstu árum en við getum ímyndað okkur að hagur kvenna vænkist í launamálum og þær muni verða með hærri laun og útgjöldin bara almennt fara áfram, hvað gerum við þá? Mundum við halda áfram að fara í Atvinnuleysistryggingasjóð eða halda áfram að fara í ríkissjóð og ná í meiri fjármuni þaðan, eða hvað?

Kerfið var hugsað þannig í upphafi að tryggingagjaldið, þ.e. atvinnulífið mundi greiða þetta. Nú erum við komin með einhverjar allt aðrar leiðir. Nú er Atvinnuleysistryggingasjóður farinn að borga hluta af þessu og ríkissjóður hluta eins og hann hefur gert að vísu.

Ég held, virðulegi forseti, að félmn. eigi líka að skoða aðra möguleika til að spara á annan hátt en hér er gert. Þetta eru bara tillögur í frv. og maður spyr hvort þær 150 milljónir sem eiga að koma í sparnaði á þessu ári sé nóg fyrir árið 2004. Munu þær verða komnar í gagnið á þessu ári eða munu þær kannski ekki koma í gagnið fyrr en á næsta ári? Og þá er eitthvað lítið gagn af þeim 150 milljónum sem sparast á þessu ári. Það eru ýmis svona mál, held ég, sem menn þurfa að athuga í þessu.

Virðulegi forseti. Menn verða alltaf að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar menn fara að geta labbað inn í ríkissjóð og tekið bara það sem vantar ef eitthvað fer fram úr áætlun. Það er nú þannig í sveitarstjórnum, og hæstv. ráðherra ætti að vera mjög kunnugt um hvernig það fúnkerar, að menn eiga ekki þá möguleika sem hér eru, það er erfiðara. Menn verða þá að skuldsetja sveitarsjóð eða menn verða að beita sparnaðaraðgerðum. Ég tel að þeim hafi ekki verið beitt nægilega í þessu tilfelli.