Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:22:30 (6137)

2004-04-06 14:22:30# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans og yfirferð og enn fremur skýrslu hans sem dreift var á borð þingmanna í gærkvöldi, að vísu öllu seinna en venja er til. Hins vegar verður að segja eins og er, virðulegi forseti, að það var satt að segja býsna undarlegur tónninn í þessari ræðu, skýrslu utanrrh. um stöðu alþjóðamála að þessu sinni. Raunar væntanlega þeirri síðustu sem hann flytur af því taginu. Hér er því um eiginlegan svanasöng hæstv. utanrrh. að ræða. Maður átti satt að segja von á að hér mundi gæta föðurlegs og yfirvegaðs tóns frá manni sem setið hefur á stóli utanríkismála síðustu níu ár og lítur yfir farinn veg og væri sæmilega sáttur við hlutskipti sitt. Því var ekki að heilsa, virðulegi forseti. Þvert á móti virtist hæstv. ráðherra kvartsár, stríður og eilítið pirraður í framsetningu sinni og skilaboðum þegar kom að þeim lykilmálum sem uppi eru í alþjóðasamfélaginu um þessar mundir. Undirtónn ræðu hans var þessi: Sá sem ekki er með oss hann er á móti oss. Þeir sem ekki fylgja í blindni harkaliðinu í Pentagon, haukunum þar á bæ, í einu og öllu eru að svíkja í baráttunni gegn glæpahyski og hryðjuverkamönnum, einræðisherrum og óþjóðalýð. Við einir, lesist: oddvitar ríkisstjórnarinnar á Íslandi og í Wash\-ington erum handhafar sannleikans og viskunnar. Hinir sem gagnrýna sum viðhorf okkar og sumar aðgerðir okkar eru barnalegir einfeldningar.

Ja, miklir menn erum við, Hrólfur minn. Það þurfti ekkert minna í þessari lokaræðu utanrrh. en að halda því fram að fyrir hans tíð í utanrrn. hefðu forverar hans og raunar Íslendingar allir verið haldnir barnaskap þegar kom að afstöðu og þátttöku í alþjóðastjórnmálum. Var vísað í Pál sjálfan postula í því efni, og því haldið fram að það hafi ekki verið fyrr en á síðasta áratug, væntanlega 1995 þegar hæstv. ráðherra settist í stól sinn, að Ísland sleit barnsskónum í alþjóðlegu samstarfi. Hvílíkt og annað eins. Hvílíkar og aðrar eins kveðjur til forvera hæstv. ráðherra á ráðherrastóli, manna á borð við Jón Baldvin Hannibalsson, Steingrím Hermannsson, Einar Ágústsson, Emil Jónsson og fleiri og fleiri (Gripið fram í: Bjarna Benediktsson.) Að ógleymdum Bjarna Benediktssyni. Eða fór hæstv. ráðherra kannski örfáum árum framar þegar hann vísaði til síðasta áratugar og vísaði til stórtíðinda á borð við EES-samninginn þar sem hann og flokkur hans stóðu sumpart á móti gerð þess samnings? Að öðru leyti sat hann hjá en gat í engu stutt hann.

Ég get ekki annað en staldrað við þetta, virðulegi forseti, því mig rak satt að segja í rogastans þegar ég las yfir þessi skilaboð í ræðu hæstv. ráðherra og gef mér það að hann hafi í önnum sínum ekki náð að lesa rækilega yfir skrif ræðuritara, því ég heyrði þarna nýjan tón hjá hæstv. ráðherra sem ég átti ekki von á og er ekki vanur að heyra.

Og áfram í raun er haldið með einkunnagjöf á hendur þeim aðilum sem í einhverju eru ekki samstiga hæstv. utanrrh. og þeim í Pentagon. Áfram er haldið með meintan barnaskap þeirra sem leyfa sér að gagnrýna utanríkisstefnu hinna viljugu ríkja og því haldið fram í ræðu ráðherra að þeir sem hafa gagnrýnt, að minni hyggju með réttu, aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta með innrásinni í Írak fyrir rétt rúmu ári síðan, hafi algerlega misskilið stöðu alþjóðamála. Og áfram heldur ráðherrann og segir að hryðjuverkamenn skilji ekkert nema stálin stinn, það þýði ekkert að semja við þá. Ég gagnspyr: Hver hefur verið að biðja um það? Hver í þessum sal hefur haldið því fram að það væri ráð í rétta átt að setjast á rökstóla með forsvarsmönnum al Kaída. Hvar finnur hæstv. ráðherra rök af þessu tagi og hvaðan koma þau? Ég bið hæstv. ráðherra að finna þeim stað. Í ræðunni stendur m.a. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Um hvað vilja menn semja við al Kaída eða gistiríki liðsmanna samtakanna? Útrýmingu Ísraelsríkis?``

Hver hefur ýjað að því nokkru sinni að setjast niður við samningaborð með al Kaída og það væri efni hugsanlegs samkomulags að útrýma Ísraelsríki? Hvaðan grípur hæstv. ráðherra hugmyndir af þessum toga? Það er ekki boðlegt í þessum sölum við þessa grafalvarlegu umræðu að menn nálgist viðfangsefnið með þessum hætti. Ég get ekki annað sagt.

Ráðherra segir í ræðu sinni að hryðjuverkamenn haldi sínu striki hvað sem það kostar og að kúgun og fátækt skipti þar litlu. Það er rangt. Það verða vissulega ævinlega til litlir hópar hryðjuverkamanna sem aldrei munu nokkru eira, en það er kristalklárt og grundvallaratriði í umræðunni og nauðsynlegt að hv. alþingismenn og þjóðir heims átti sig á því að slíkir hópar munu ekki fá stuðning almennings í viðkomandi ríkjum eða hjá komandi kynslóðum ef okkur miðar í rétta átt og við erum einlæg í því að reyna að minnka bil ríkra þjóða og fátækra og aðstoða fátækari ríkin til sjálfshjálpar. Þróunarsamvinna og þróunarhjálp og opin alþjóðaviðskipti munu liðka þar til. Það eru ekki bara orð á blaði, það er virkt meðal í öryggismálaumræðu heimsins. Það er grundvallaratriði, virðulegi forseti.

Ég vil eindregið og einlæglega fagna þeirri stefnumörkun sem fram komu í ræðu hæstv. ráðherra hvað varðar þróunarsamvinnu og áform ríkisstjórnarinnar í þá veru þar sem stefnt er að því að frá árinu 2008 verði framlag til þróunarstuðnings tvöfaldað. En ég vek þó sérstaka athygli á því að það mun verða á verkefnalista og verða hlutverk nýrrar ríkisstjórnar að ganga frá þeim efnum, ekki þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er eftirtektarvert.

Ég spyr í beinu framhaldi af vangaveltum mínum um hvort það skipti engu máli um öryggi í heiminum hvort það sé hagsæld hjá hinum fátækari ríkjum eður ei. Halda menn til að mynda að hryðjuverkin í Ísrael og Palestínu séu fullkomlega ótengd pólitískri stöðu mála þar á bæ og afstöðu ríkisstjórnar Sharons í Ísrael? Halda menn að það sé ekkert orsakasamhengi þar á milli? Það sé einfaldlega eitthvert náttúrulögmál sem geri það að verkum að hryðjuverkahópar fari þar sínu fram og miklu mun víðar, því miður? Auðvitað er það ekki svo. Alþjóðastjórnmálin gegna þar lykilhlutverki. Þess vegna höfum við haldið því fram, við jafnaðarmenn, að það sé á ábyrgð alþjóðasamfélagsins, og okkar á Íslandi, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma friðarferlinu í gang þar á nýjan leik. Það sé í raun einasta leiðin til þess að draga úr þeim væringum og því ógnarástandi sem þar ríkir og að koma á kné, ég vil segja, fámennum hópi hryðjuverkamanna sem þar hafa sett allt á annan endann og undanskil ég ekki þar ríkisstjórn Ísraels.

[14:30]

Herra forseti. Írak er á barmi borgarastyrjaldar. Fréttir í dag, gær og fyrradag eru með þeim hætti að alþjóðasamfélagið hefur umtalsverðar áhyggjur. Það hljómar því býsna falskt tal hæstv. utanrrh. og þeirra hauka sem fara nú fækkandi í Washington sem halda því fram að rétt hafi verið staðið að verki og nú sé heimurinn öruggari en fyrir innrásina, að nú sé almenningur í Írak öruggari en í tíð einræðisherrans og ég vil segja glæpamannsins, Saddams Husseins. Ég bið menn að velta vöngum yfir því hvort þeir trúi því virkilega þegar þeir lesa fréttir á borð við þessar dag eftir dag þar sem greint er frá mannskæðum átökum milli breskra hermanna og fylgismanna múslimaklerks, falli írakskra borgara, falli bandarískra hermanna, falli hermanna úr fjölþjóðaliðinu. Geta menn sagt með góðri samvisku að það sé friðvænlegra og öruggara fyrir borgara í Írak nú en fyrir hálfu öðru ári? Ég hef a.m.k. stórar efasemdir um það.

Í utandagskrárumræðu þann 29. janúar sl. átti ég orðræðu við hæstv. utanrrh. m.a. um þessi efni og þá staðreynd að við blasir að engin gereyðingarvopn hafa fundist í Írak sem var forsenda innrásarinnar á sínum tíma. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til efnislega að innrásin ein og sér hefði verið réttlætanleg með því að taka Saddam Hussein úr umferð. Ég hef stórar efasemdir um það og sagði þá og segi aftur núna: Allir þeir sem fylgdust með því þegar sá vondi maður var handtekinn í holu sáu að hans dagar voru taldir án atbeina hervelda á borð við Bandaríkjamenn og Breta með beinni innrás.

Hæstv. ráðherra biður í ræðu sinni um samstöðu lýðræðisríkja gegn hryðjuverkum. Á það hefur ekkert og mun ekkert vanta á Íslandi. Um það hefur verið góð samstaða og verður vonandi, að Ísland leggi sitt af mörkum. Við jafnaðarmenn höfum til að mynda verið kröftugir talsmenn öruggra varna hérlendis sem tryggi öryggi íslensks almennings. Við höfum í því sambandi kallað ákveðið eftir því af hálfu hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar hvernig íslensk yfirvöld hyggist bregðast við nýjum vondum tíðindum á borð við hryðjuverkin í Madríd á dögunum. Við hófum utandagskrárumræðu um þau efni þann 23. mars sl. og sumpart gladdist ég yfir svörum hæstv. ráðherra sem mér virtust vera á þann veg að íslensk yfirvöld tækju þá ógn sem því miður færist æ nær okkur mjög alvarlega og hann rakti hér ákveðinn viðbúnað sem gripið hefði verið til á Keflavíkurflugvelli og við styðjum heilshugar. Meira þarf að gera.

Ég sagði í upphafi máls míns og hef sagt það áður við sambærileg tækifæri að gjarnan bregður svo við í umræðum um þessi mál að þeir sem ekki eru með ríkisstjórninni eru á móti örygginu. Þeir sem ekki gjalda jáyrði við hverri einustu ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta og þeirra í varnarmálaráðuneytinu séu einfaldlega deigið í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Því vil ég halda ákveðið til haga, virðulegi forseti, að hér er haldið röngu fram. Það vantar ekkert upp á að við jafnaðarmenn viljum taka það föstum tökum. En það skiptir máli að ræða leiðir, markmið og aðgerðir hverju sinni í þeim efnum.

Ég vil aðeins stikla á örfáum atriðum í því sambandi og vekja á því athygli að Samf. hefur verið í fararbroddi í þessum efnum. Samf. hefur flutt sérstaka tillögu á hinu háa Alþingi sem við vonuðumst satt að segja til að fengi brautargengi af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarflokkanna um að skipa sérstaka öryggismálanefnd eins og starfaði á árum áður. Í þeirri tillögu var skilgreint nákvæmlega hvaða verkefni nefndin skyldi hafa með höndum og einnig hvaða atriði önnur væru efst á baugi í þessum efnum nú um stundir. Ég vænti þess að aðrir ræðumenn úr Samf. fari nánar yfir þau mál.

Í öðru lagi höfum við um árabil talað fyrir eflingu íslenskrar lögreglu, þ.e. að tryggja betur innra öryggi okkar. Þar miðar loks hægt og bítandi í rétta átt.

Í þriðja lagi höfum við í Samf. verið talsmenn stækkunar NATO og stutt hvert það skref sem þar hefur verið stigið af heilum hug. Ekki síst vorum við öflugir talsmenn og stuðningsmenn þess að Eystrasaltsríkin ættu þar skjól og fengju þar skjól sem nú hefur orðið. Í sömu andrá höfum við lagt mikla áherslu á eflingu Atlantshafstengslanna. Þar er auðvitað áhyggjuefni á ferð og spilar aftur saman við Evrópusambandið og stóraukið hlutverk þess í öryggi álfunnar, þ.e. hraðlið Evrópusambandsins.

Þá vaknar auðvitað sú spurning hvernig aðkoma okkar verður í þeim efnum, standandi utan Evrópusambandsins með EES-samninginn sem nær ekki yfir þau atriði. Við í Samf. höfum talað afskaplega skýrt í þeim efnum. Við teljum kominn tíma til þess að sækja um aðild. Þess vegna voru það undarleg skilaboð að mér fannst í kaflaræðu hæstv. ráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, um Evrópusambandið og EES-samninginn þegar hann lagði lykkju á leið sína til þess að koma höggi á stuðningsmenn aðildar Evrópusambandsins og gaf til kynna að þeir væru búnir að gefa sér samningsniðurstöður. Það lá alveg ljóst fyrir til hvers refirnir voru skornir í þessum efnum.

Ég vil hins vegar segja það fyrir fullt og fast að við í Samf. munum eftir sem áður, þó framsóknarmenn undir forustu formannsins séu í bakkgírnum í Evrópuumræðunni, halda okkar striki óhikað og ræða þá kosti og galla sem uppi eru gagnvart aðild í þeim efnum. Við höfum hins vegar sagt að við fáum aldrei botn í það fyrir fullt og fast eða handfastar staðreyndir um það hvað okkur býðst fyrr en á aðildarumsókn er reynt. Okkar stefna er því skýr í því.

Í fjórða lagi höfum við aftur og aftur kallað eftir því hvernig yfirvöld ætla að tryggja hér lágmarksviðbúnað. Ég tók eftir því að í skýrslu hæstv. ráðherra er talað um trúverðugan varnarviðbúnað. Í ræðu hæstv. ráðherra var ef ég man rétt talað um skilgreindan lágmarksviðbúnað. Ég vil enn og aftur gera tilraun til þess að biðja hæstv. ráðherra að fara yfir með okkur, lið fyrir lið, hver skilgreiningin er á lágmarksviðbúnaði. Af hverju þarf hún að vera svona óljós og hvernig stendur á því að menn geta tekið sér þetta hugtak í munn aftur og aftur án þess að neitt sé á bak við það? Ég vænti þess að áður en dagur að kveldi kemur liggi loksins ljóst fyrir hver skilgreiningin á lágmarksviðbúnaði suður á Keflavíkurflugvelli hjá varnarliðinu og í samstarfi við íslenska aðila er.

Herra forseti. Það líður á tíma minn og ég þarf að fara hraðar yfir sögu. Ég vil minna á að við höfum verið talsmenn öflugrar friðargæslu en viljum um leið gera skýran greinarmun á friðargæsluverkefnum sem eru í raun verkefni herliðs og uppbyggingarstarf í kjölfar ófriðar. Þar kunna að vera grá svæði en engu að síður þurfa markmið að vera alveg skýr í því. Ég fór aðeins yfir þróunaraðstoð þar sem við höfum verið í fararbroddi umræðunnar.

Ég vil líka láta það koma algerlega skýrt fram í þessu samhengi að við höfum verið í fararbroddi þeirrar umræðu þegar upp hafa komið óljósar hugmyndir um stofnun íslensks herliðs. Við höfum algerlega hafnað þeim valkosti og sagt það og segjum enn að við erum vopnlaus og herlaus þjóð og eigum að vera það áfram. Það er engin hefð fyrir öðru. Það eru engar fjárhagslegar forsendur fyrir því að 280.000 manna þjóð geti og eigi að halda úti eigin her og það er enginn vilji til þess meðal þjóðarinnar. Við eigum hins vegar að gera samkomulag við okkur öflugri þjóðir um samstarf á því sviði, samstarf sem vissulega hefur verið viðvarandi í um 60 ár en allt bendir til þess að á verði nokkrar breytingar. Við þurfum að horfast í augu við þær breytingar og vera tilbúin í að koma þar að verki þar sem við kunnum, getum og skiljum.

Herra forseti. Ég nefni til sögu önnur atriði sem ég get því miður ekki farið rækilega yfir og er fagnaðarefni að hæstv. ríkisstjórn skuli vera að vakna til vitundar um. Það er mansalið sem þekkist um heimsbyggð alla og hefur einnig náð til okkar litla lands. Þar þurfum við að vera á vaktinni.

Ég vil nefna til sögunnar mikilvægi alþjóðaviðskipta. Ég minni á að Samf. og við jafnaðarmenn höfum ævinlega á öllum stigum máls í tíð núverandi hæstv. utanrrh. stutt eflingu utanríkisþjónustunnar þegar skynsamlega er að verki staðið og munum gera það áfram.

Það er margt fleira á dagskrá sem væri ástæða til að fara yfir t.d. stöðu Rússlands, samskipti við Kína o.fl.

Við erum með öðrum orðum gagnrýnin á ýmislegt það sem ráðherrann hefur fram að færa. Það breytir þó ekki hinu sem ég legg mikla áherslu á að það er grundvallaratriði að lítil þjóð geti staðið saman um öll meginefni utanríkismálanna. Sá gamli ás sem klauf íslensku þjóðina í hinni pólitísku umræðu forðum daga, NATO og herinn, tilheyrir liðinni tíð. Það er gott. Það er því ástæða til að taka undir mikilvægi þess að standa saman um grundvallargildin, en þó ekki þannig að við forðumst umræðuefni, álitaefni og heiðarlega og hreinskilna og umfram allt fordómalausa umræðu um mikilvæg alþjóðamál. Annað væri barnaskapur.

Það mun því ekki standa á Samf. og hún mun ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum, enda hefur það oftar en ekki verið hlutskipti jafnaðarmanna að vera í fararbroddi þeirrar orðræðu.