Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:44:54 (6139)

2004-04-06 14:44:54# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að draga ummæli sín til baka sem auðvitað var á engan hátt hægt að misskilja í ræðunni. Hann var að gefa fyrirrennurum sínum og íslenskri þjóð einkunn og vísaði til barnaskapar fyrri tíðar. Hann er maður að meiru að minni hyggju fyrir að hafa gert það og ég þakka honum fyrir að hafa beðist afsökunar á því og eytt þessum misskilningi, sem auðvitað var enginn misskilningur.

[14:45]

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara yfir nokkur grundvallaratriði. Rauði þráðurinn í ræðu hæstv. utanrrh. var nefnilega þessi: Þeir sem ekki eru með oss --- lesist: hæstv. ríkisstjórn og haukunum í Pentagon --- eru á móti oss. Þar er ekki eingöngu um Samf. að ræða. Sem betur fer eru þeir fleiri en svo sem hafa haldið uppi heiðarlegri, efnislegri og rökstuddri gagnrýni á ýmislegt sem miður hefur farið í hernaðarstefnu Bandaríkjanna á umliðnum missirum og árum. Sem betur fer eru hóparnir stærri en svo að um Samf. eina sé að ræða, þótt hún sé fjölmenn.

Ég taldi fulla ástæðu til að rifja það upp, sem ekki er nýtt af nálinni og var ekki að gerast í gær eða fyrradag, að Samf. hefur verið í fararbroddi varðandi öll þau atriði sem hér um ræðir í eflingu lögreglunnar. Hér situr formaður utanrmn. þingsins, fyrrum hæstv. dómsmrh. Ég man eftir henni í þessum stól kvartandi og kveinandi yfir því þegar við, þingmenn Samf., gagnrýndum hana fyrir að það þyrfti að efla löggæsluna í landinu. Það er ekki nýtt af nálinni. Þannig fór ég yfir þetta lið fyrir lið til að gera hæstv. ráðherra grein fyrir því að það eru fleiri sem geta, kunna og vita heldur en hæstv. ráðherra. Það er ekki þannig í henni veröld að hún sé svo svarthvít, að þeir sem ekki eru algerlega sammála mér í einu og öllu séu bara ómálga, kunni ekkert og geti ekkert.