Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:51:25 (6142)

2004-04-06 14:51:25# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. greinargóða ræðu um utanríkismál. Í máli hans birtist skýrt að Ísland stendur frammi fyrir mörgum áskorunum og tækifærum í samfélagi þjóðanna.

Að sama skapi, hæstv. forseti, lýsi ég yfir undrun minni yfir ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Mér er ómögulegt að skilja hvernig hv. þm. getur snúið út úr sumum atriðum í ræðu hæstv. utanrrh. Samf. hefur viljað vera ábyrg í utanríkismálum, ekki síst í öryggis- og varnarmálum. Ég vona bara að það gangi eftir. En það þýðir ekki að slá úr og í í þessum efnum.

Það þýðir heldur ekki fyrir formann Alþýðuflokksins og formann NATO-nefndarinnar á hinu háa Alþingi að kvarta og kveina yfir því við stjórnarliða að hann þurfi að horfast í augu við það að ekki eru allir samfylkingarmenn sammála honum í utanríkismálum. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu fyrir meira en hálfri öld. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Atlantshafsbandalagið tekið miklum stakkaskiptum. Við getum verið sammála um að heimsmyndin hafi breyst gríðarlega á þeim tíma. Nýjar ógnir hafa steðjað að þjóðum heimsins, gereyðingarvopn, efnavopn og nú síðast þaulskipulagðar hryðjuverkaárásir sem ógna öryggi alls mannkyns.

Atlantshafsbandalagið hefur sýnt hversu megnugt það er að takast á við ný verkefni og segja má að 11. september 2001 hafi ekki aðeins breytt heimsmyndinni heldur einnig hlutverki alþjóðastofnana. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að vígvöllurinn hefur færst nær okkur en áður var.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdi árásirnar og hvatti þjóðir heims til að fylkja liði gegn þessum ógnvaldi og m.a. fullgilda alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum og koma þeim í framkvæmd. Vorið 2002 var lokið við að fullgilda þá samninga sem ólokið var og höfum við einnig styrkt refsilöggjöf okkar til að taka á þessum málum.

Hryðjuverkaárásin á Madríd þann 11. mars sl. var hryllileg aðför að lýðræðinu. Það var tilefnislaus árás á saklausa borgara, fólk á leið til vinnu og börn á leið til skóla. Aðgerðir af þessu tagi eiga sér enga réttlætingu hver svo sem málstaðurinn kann að vera og sama hver á í hlut. Við fordæmum þessa árás.

Hryðjuverkamenn hafa farið með ófriði gegn ríkisstjórnum fjölmargra ríkja og beint spjótum sínum að saklausum borgurum, fyrst og fremst til að valda glundroða, öngþveiti og skelfingu. Lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum er gert erfitt fyrir enda er alltaf reynt að finna skýringar á því hvers vegna slíkir atburðir eigi sér stað. Skýringin er einföld. Hér eiga í hlut samviskulausir glæpaflokkar sem aldrei verður séð fyrir hvað taka sér fyrir hendur eða hvar þeir bera niður næst. Í þessu sambandi má nefna hryðjuverkin á Balí og árásina á World Trade Center árið 1997.

Hryðjuverkmenn gera nú ítrekaðar árásir á Evrópu. Eftir árásina á Madríd þann 11. mars verðum við að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að taka höndum saman um að berjast gegn þessum vágesti. Atburðir síðustu daga á Spáni sýna okkur og sanna að hryðjuverkamenn svífast einskis við að svala blóðþorsta sínum. Þrátt fyrir að hafa drepið og sært fleiri hundruð manns gera þeir ítrekaðar tilraunir til frekari hermdarverka. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir frekari árásir á járnbrautakerfið á Spáni.

Hafi einhver efast um að hryðjuverkamenn hafi með aðgerðum sínum haft áhrif á niðurstöður kosninganna á Spáni í mars ætti enginn að þurfa að velkjast í vafa lengur. Í gær bárust fréttir af því að liðsmenn al Kaída hefðu sent spænskum stjórnvöldum bréf þar sem þess var krafist að Spánn dragi herstyrk sinn til baka frá Írak. Hryðjuverkamenn færa sig nú upp á skaftið og eru farnir að beita fullvalda ríki beinum hótunum til að fá málstað sínum framgengt.

Ég fagna því sérstaklega að lögreglu á Spáni tókst að koma upp um meinta hryðjuverkamenn í bæli þeirra nálægt Madríd um síðustu helgi. En því miður náðu þeir að tortíma sjálfum sér áður en tókst að hafa hendur í hári þeirra. Þetta sýnir einfaldlega hugleysi þessara manna. Þeir skirrast ekki við að myrða konur og börn úr launsátri en eru svo ekki menn til að taka afleiðingum gjörða sinna. Þetta er heigulsháttur af verstu sort.

Í lok mars sl. áttu fulltrúar utanrmn. fund með sendinefnd frá Sádi-Arabíu sem kom hingað til lands til að hitta þingmenn og embættismenn og m.a. kynna sér lýðræðislega stjórnarhætti. Á fundi fulltrúa utanrmn. með sendinefndinni var m.a. rætt um öryggis- og varnarmál og hryðjuverkaógnina. Það er greinilegt að Sádi-Arabía og allur múslimaheimurinn líður fyrir aðgerðir al Kaída undanfarin ár. Sádi-Arabía hefur ekki farið varhluta af hryðjuverkaógninni og landið hefur verið meðal fyrstu þjóða sem orðið hefur fyrir barðinu á hryðjuverkamönnum. Það gerðist árið 1997. Þá hafa fleiri hryðjuverk verið framin innan konungsdæmisins og síðast í desember sl. Sagði formaður sendinefndarinnar að Sádi-Arabar vildu allt gera til að sporna við þessum vágesti og sagði Sádi-Arabíu fráleitt styðja glæpasamtök eins og al Kaída.

Ég óttast að svo geti farið að múslimar verði einfaldlega stimplaðir sem hugsanlegir hryðjuverkamenn og þetta grafi djúpa gjá milli Vesturlanda og landa múslima sem erfitt verði að brúa. Við þurfum að átta okkur á því að öfgamenn koma frá öllum menningarsvæðum heims.

Það var óneitanlega athyglisvert að hlýða á framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, sem fer með stækkunarmál, á ráðstefnu sem ég sótti um öryggis- og varnarmál í Bratislava um miðjan mars þar sem hann velti því upp að hugsanlega gæti nánara samstarf við Tyrkland lagt lóð á vogarskálarnar við að byggja brú milli múslimaheimsins og vesturveldanna. Talsmaður NATO lagði einnig áherslu á mikilvægi Tyrklands í þessu sambandi. Aukinn skilningur og nánara samstarf milli þjóða heims er lykillinn að friði og stöðugleika. Enn fremur er ljóst að Evrópusambandið er að undirbúa ráðstafanir gegn hryðjuverkum og má búast við því að hryðjuverkaárásin í Madríd flýti fyrir Evrópusamrunanum og þar með að sættir náist fyrr en ella um sameiginlega stjórnarskrá ESB.

Staða varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna hefur stöðugt verið til umfjöllunar undanfarið ár. Utanrmn. hefur fylgst náið með framvindu mála en nú er svo komið að einhver skriður verður að komast á viðræðurnar. Það er erfitt að hafa varnarmál landsins í óvissu, einkum í ljósi atburða síðasta mánaðar.

Í samræmi við áratugalangt og vinsamlegt samstarf Íslands og Bandaríkjanna er mikilvægt að þjóðirnar leysi þessi mál hið allra fyrsta. Boltinn hefur verið hjá forseta Bandaríkjanna og hafa íslensk stjórnvöld átt von á að viðræður hefjist innan tíðar.

Utanrmn. hefur reynt að fylgjast grannt með umræðunni um varnarmálin að undanförnu. Hún hefur því miður stundum tekið á sig furðulega mynd. Því hefur m.a. verið haldið fram í umræðunni að það sem eftir væri af herstyrk Bandaríkjamanna á Íslandi, fjórðungur af flugsveit ásamt stuðningsliði, væri ekki trúverðugur viðbúnaður og skipti ekki máli í dag. Þá hefur því jafnframt verið haldið fram að fólk teldi varnarsamninginn vera einhvers konar tækjalista.

[15:00]

Málflutningur af þessu tagi er fráleitur, enda er hér um að ræða gagnkvæma samningsskuldbindingu milli tveggja fullvalda ríkja. Þessi málflutningur styður í raun það sem við höfum haldið fram að núverandi ástand er ófullnægjandi og í ljósi þeirrar ógnar sem steðjar að ríkjum heims af völdum hryðjuverkamanna. Sem NATO-ríki með mjög víðfeðma lofthelgi og stórt flugstjórnarsvæði í Norður-Atlantshafi þurfum við á trúverðugum vörnum að halda. Hugmyndir um að hverfa frá föstum herstöðvum til skipulags vel hreyfanlegra hraðsveita eru í sjálfu sér allrar athygli verðar en gagnast lítt Íslandi vegna legu landsins. Ljóst er að viðbragðstími flugsveita sem staðsettar eru í Evrópu er langur og ef hætta steðjar að landinu er allt um garð gengið áður en flugsveit kæmist á vettvang. Þá má benda á að um flugstjórnarsvæði Íslands fara um 80 þúsund flugvélar á ári og við þurfum að átta okkur á að einhverri þeirra gæti verið stefnt gegn okkur eða öðru ríki.

Í því samhengi er rétt að vekja athygli á að NATO hefur tekið að sér loftvarnir fyrir Eystrasaltsríkin enda hafa þau ekki yfir flugsveitum að ráða. NATO telur nauðsynlegt að tryggja loftvarnir Eystrasaltsríkjanna, m.a. í ljósi skuldbindingar skv. 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins, og er nú sennilega ekki litið svo á að Rússland sé ógnin. Þvert á móti hefur mjög jákvætt samstarf verið milli NATO og Rússlands innan NATO-Rússlandsráðsins.

Ef flugsveitin eða það sem eftir er af henni færi héðan yrði Ísland eina NATO-ríkið án loftvarna og það gætum við að sjálfsögðu ekki sætt okkur við. Það er heldur ekki ásættanlegt fyrir önnur NATO-ríki.

Því hefur verið haldið fram opinberlega, ekki síst af hálfu varaformanns Samf., að Íslendingar ættu frekar að snúa sér til Evrópusambandsins og semja við Evrópusambandið um að falla undir öryggis- og varnarmálastefnu þess eða hreinlega semja við önnur Evrópuríki um varnir landsins.

Ég hef kynnt mér þessi mál vel og komist að því að þetta fær engan veginn staðist. Það kom einnig skýrt fram í mati sérfræðings í öryggis- og varnarmálum sem jafnframt er hægri hönd Solana sem fer með öryggis- og varnarmál af hálfu Evrópusambandsins. Hin sameiginlega varnarmálastefna Evrópusambandsins kemur ekki í staðinn fyrir NATO og hún getur fráleitt komið í staðinn fyrir tvíhliða varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna.

Þá hefur því verið haldið fram að ef Evrópusambandið setti sambærilegt ákvæði og 5. gr. stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins í stjórnarskrá sína yrði NATO þar með óþarft. Atlantshafsbandalagið styður í sjálfu sér öryggis- og varnarmálastefnu ESB en hún kemur aldrei í staðinn fyrir NATO heldur er fremur viðbót við NATO. Þetta eru tvær stefnur sem geta stutt hvor aðra en Atlantshafsbandalagið er allt annars eðlis en varnarmálastefna Evrópusambandsins.

Þá er rétt að vekja athygli á því að í hinum nýju aðildarríkjum NATO er almennur og víðtækur stuðningur meðal almennings um aðildina. Það má geta þess hér að í nýlegri könnun í Tékklandi mældist stuðningur við NATO-aðild um og yfir 70%. Atlantshafsbandalagið hefur þannig rutt brautina fyrir þessi ríki í lýðræðisátt enda þurfa þau að uppfylla nokkuð ströng skilyrði um lýðræðislegt stjórnarfar, stöðugleika, mannréttindi og fleiri atriði áður en til aðildar kemur.

Hæstv. forseti. Íslenska friðargæslan tók til starfa árið 2001 og hefur þegar sannað gildi sitt svo um munar. Utanrmn. hefur ávallt fylgst vel með störfum Íslensku friðargæslunnar og stutt við uppbyggingu hennar en á viðbragðslista eru nú 185 manns. Sem herlaus þjóð á Ísland að beita sér fyrir uppbyggingar- og ráðgjafarstarfi á stríðshrjáðum svæðum. Á erlendri grund þar sem ófriður hefur ríkt eiga Íslendingar líka að eiga auðveldara með en margar aðrar þjóðir að athafna sig og takast á við verkefnin í samstarfi og sátt við heimamenn, enda nýtur Ísland þess að hafa ekki átt í ófriði við neina af þessum þjóðum.

Íslenska friðargæslan hefur nú lokið Pristina-verkefninu með sóma. Ég vil nota tækifærið og hrósa starfsmönnum Íslensku friðargæslunnar fyrir vel unnin störf í þágu friðar og uppbyggingar á stríðshrjáðum svæðum.

Nú hefur verið óskað eftir að Ísland taki að sér flugvöllinn í Kabúl í Afganistan þann 1. júní nk. sem að öllum líkindum verður mun umfangsmeira verkefni. Fjárframlög hafa verið aukin til þessa málaflokks að undanförnu en það er okkar framlag til sameiginlegra skuldbindinga NATO á sviði friðaraðgerða. Ég legg áherslu á að fjármunir íslenska ríkisins og mannafli sem Ísland leggur til verði nýttur til vel afmarkaðra og skilgreindra verkefna.

Það hefur alltaf legið ljóst fyrir og komið fram á fundum utanrmn. að íslenskir friðargæsluliðar eru ekki hermenn. Markmiðið er að sinna borgaralegum verkefnum á svæðum þar sem hernaðarátökum er lokið. Hins vegar þurfum við að átta okkur á því að störf friðargæsluliða eru fráleitt hættulaus. Þeir sinna störfum á ótryggum svæðum og því getur reynst nauðsynlegt fyrir friðargæsluliða, eins og t.d. lækna og hjúkrunarfólk, að bera handvopn hreinlega til að verja sig ef það lendir í slíkum aðstæðum. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að ef krafa er gerð um að friðargæsluliðar beri vopn fá þeir tilskilda þjálfun í meðferð þeirra.

Íslenskir friðargæsluliðar hafa líka þurft að bera titil af hernaðarlegum toga. Það á sér þær einföldu skýringar að umhverfið sem þeir starfa í er hernaðarlegt. Menn þurfa að átta sig á því að í slíku umhverfi er ekki hægt að eiga samskipti við hvern sem er nema að hafa tiltekna stöðu. Til þess hreinlega að geta átt samskipti við rétta aðila og unnið að þeim verkefnum sem íslenskum friðargæsluliðum er falið hefur þótt nauðsynlegt að veita þeim tiltekna hernaðarlega tign svo samskipti gangi snurðulaust fyrir sig. Þetta er í sjálfu sér svona einfalt. Það er því alvarlegt mál þegar því er slegið upp að Íslenska friðargæslan sé eins konar hersveit Íslands í útlöndum, grá fyrir járnum, og mikið gert úr því að friðargæsluliðar beri titla eins og hermenn. Það er miður ef einhverjir hv. þm. vilja taka þátt í slíkri umræðu.

Hæstv. forseti. Hinn 1. maí nk. tekur stækkun Evrópska efnahagssvæðisins gildi og verða ESB-ríkin þá orðin 25 í stað 15 áður. Þau verða jafnframt hluti af EES-svæðinu. Í allri umræðunni um stækkunina hefur tiltölulega lítið verið rætt hér á landi um hvernig Evrópukortið lítur út eftir þessa stækkun. Ytri landamæri Evrópusambandsins flytjast nú utar en áður og ný ríki verða næstu nágrannar Evrópusambandsins og eiga landamæri að ytri landamærum ESB og þar með EES-svæðisins.

Evrópusambandið vinnur nú að nýrri áætlun um nýja nágranna ESB. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga í umræðunni um hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi. Í mörgum hinna nýju nágrannaríkja er lýðræðisþróun því miður skammt á veg komin og skipulögð glæpastarfsemi hefur þrifist vel. Við stækkunina færumst við nær þeirri starfsemi, leið hennar inn á markaðinn verður styttri en áður. Þetta kallar í raun á að við þurfum að vera enn meira vakandi fyrir þessari tegund glæpastarfsemi en áður.

Eftir atburðina þann 11. september 2001 var flugstöðin í Keflavík tekin út sérstaklega með tilliti til öryggismála og allt gert til að tryggja öryggi flugumferðar og farþega. Það var eitt af framlögum okkar til baráttunnar gegn hryðjuverkum. Schengen-upplýsingakerfið hefur verið ómetanlegt tæki í þeirri baráttu og við höfum náð árangri. Þá mun styrking sérsveitar ríkislögreglustjóra vera þungt lóð á vogarskálina þegar kemur að öryggi flugfarþega og eftirliti með skipulagðri glæpastarfsemi.

Nú hefur komið til tals að skylda ferðamenn til að hafa lífkenni í vegabréfum sínum og hafa Bandaríkjamenn boðað að ferðamenn, m.a. frá Íslandi, þurfi frá og með haustinu að sæta því að tekin séu af þeim fingraför og myndir. Er þetta m.a. hugsað sem tæki í baráttunni gegn hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Á þennan hátt hafa hryðjuverkamenn enn náð að hafa áhrif á fullvalda ríki. Þetta fyrirkomulag hefur ákveðin óþægindi í för með sér og kemur verst niður á almenningi, en við megum samt ekki láta deigan síga í baráttunni við þennan vágest.

Hæstv. forseti. Það hefði svo sannarlega verið ástæða til að ræða mörg fleiri málefni í þessari umræðu um utanríkismál en tíminn setur okkur ákveðnar skorður. Ég vil þó að lokum þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir yfirlitsskýrslu um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð hefur verið fram. Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem störfum á þessum vettvangi að hafa aðgang að traustum upplýsingum um utanríkismál. Skýrslan ber einnig glöggt vitni um það viðamikla starf sem utanríkisþjónustan sinnir, en öllum ætti að vera ljóst að við þurfum að leggja mjög mikið upp úr þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi og síðast en ekki síst þurfum við að gera okkur sýnileg á alþjóðavettvangi.