Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:14:36 (6145)

2004-04-06 15:14:36# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að fólk misskilji ekki orð mín, ég er alls ekki að reyna að mæla þessum glæpamönnum og fjöldamorðingjum bót á neinn hátt, alls ekki.

Það sem ég vildi hins vegar benda á er að mér finnst málflutningur ríkisstjórnarsinna og þeirra sem reyna að verja innrásina í Írak oft og tíðum vera svolítið einstrengingslegur og einhliða. Þeir tína til þær röksemdir sem þeim passa en öðrum röksemdum sem passa ekki jafn vel og eru kannski óþægilegar er svona frekar sópað undir teppið og hjúpur þagnarinnar látinn ríkja þar í kringum. Þetta er að sjálfsögðu mjög flókin mynd sem við erum að horfa á, orsakasamhengið er mjög flókið og eflaust vitum við sem í þessum sal sitjum minnst um það. Við höfum sennilega ekki kynnt okkur ástandið í þessum löndum til hlítar, við höfum ekki þurft að búa þar, við höfum ekki þurft að alast upp þar, við höfum heldur ekki þurft að lifa við ástandið sem hefur ríkt þar um áratuga skeið. Það er því erfitt fyrir okkur að alhæfa um það þó að við getum kannski reynt að gera eins vel og við getum í því efni hvar í flokki sem við stöndum. En ég mun væntanlega koma nánar inn á þessar röksemdafærslur mínar í ræðu minni seinna í dag.