Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:16:45 (6147)

2004-04-06 15:16:45# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Við fjöllum um ræðu og skýrslu utanrrh. samkvæmt venju undir lok þinghalds að vori. Sú venja er komin á að skýrsla utanrrh. af þessu tagi komi fyrir þingið annað hvert ár og er það út af fyrir sig ágætisfyrirkomulag. Skýrslan er að vísu þegar maður fer að blaða betur í henni nokkuð athyglisverð blanda af gagnlegum staðreyndum og upplýsingum sem þarft er að hafa á einum stað og ákveðnum pólitískum útlistunum, t.d. kaflinn um málefni Miðausturlanda sem hlýtur væntanlega að teljast fyrst og fremst pólitísk útlistun hæstv. ráðherra eða á ábyrgð hans. Síðan er á ýmsum öðrum stöðum í skýrslunni meira um staðreyndaupptalningu.

Ég verð að segja að ég varð ákaflega undrandi þegar ég las ræðu hæstv. utanrrh. og hélt þó að seint mundi hæstv. utanrrh. koma mér mjög mikið á óvart úr þessu. Ég, svipað og ræðumaður á undan mér, Guðmundur Árni Stefánsson, átti von á því að hæstv. ráðherra yrði á mýkri nótum í lokaræðu sinni, svanasöng sínum hér. Ég átti líka sérstaklega von á því í ljósi þess hvernig umræða um alþjóðamál hefur verið að þróast á síðustu vikum og mánuðum að það mundi votta fyrir skilningi, svo ég segi ekki sjálfsgagnrýni eða efasemdum, í málflutningi hæstv. ráðherra varðandi ýmsa atburði sem nýliðnir eru og m.a. ríkisstjórn Íslands hefur tekið ákveðna afstöðu til.

Ég á alveg sérstaklega við hina ólögmætu innrás og hið ólögmæta hernám í Írak sem er á góðri leið með að leiða menn í þvílíkar ógöngur samanber fréttaflutning þaðan þessa dagana að það hálfa væri nóg, vegna þess að beggja vegna við okkur, beggja vegna Atlantsála, fer fram mikil umræða um þetta mál og endurmat á þessum hlutum þar sem menn gangast við því að hafa notast við rangar upplýsingar, svo ekki sé sagt vísvitandi blekkt. En það vottar ekki fyrir neinu slíku í ræðu hæstv. utanrrh. Það er ekkert endurmat á þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að styðja innrásina og kaflinn í byrjun um hryðjuverkasamtökin er alveg ótrúlegur því þar er þessu stillt upp með þeim hætti að það séu bara tvær leiðir færar, annaðhvort að fylgja harðlínustefnu Bandaríkjastjórnar með vopnaða íhlutun og hörku eða að menn séu að sýna linkind og vilji samninga við glæpamenn, eins og þar sé enginn millivegur. Hefur hæstv. ráðherra ekkert orðið var við umræðuna á meginlandi Evrópu? Tekst honum að horfa algjörlega fram hjá þeim ágreiningi sem uppi hefur verið í alþjóðasamfélaginu um aðferðafræði, um framgöngu í þessum efnum? Hæstv. ráðherra lætur eins og hann viti ekki af því að þjóðir eins og Frakkar, Þjóðverjar, Kínverjar, Rússar og margar fleiri hafa haft og hafa enn djúpstæðar efasemdir um harðlínustefnu Bush-stjórnarinnar og fylgjenda hennar.

Margar fleiri formúleringar eru þarna mjög undarlegar. Hæstv. ráðherra reynir að leiða að því líkum að það séu engar innstæður fyrir því sem margir hafa nefnt sem skýringar á hinni miklu andúð í garð Vesturlanda í arabaheiminum sem er jarðvegur öfgaaflanna, í þann jarðveg sækja þau liðsmenn m.a. Hvers vegna flykkjast nú ungir arabískir karlmenn þúsundum saman í hryðjuverkasamtök vítt og breitt í þeim heimshluta? Hvers vegna eru hryðjuverkahópar í aðskildum löndum sem áður störfuðu einangrað að ná saman þvert á jafnvel línur sem áður skildu þá að? Verða menn ekki að horfast í augu við að þetta er að gerast?

Hæstv. ráðherra gengur svo langt að spyrja: ,,Um hvað vilja menn semja við al Kaída eða gistiríki liðsmanna samtakanna?``

Fyrst gefur hann sér að það séu einhverjir talsmenn þess að ganga til samninga við al Kaída. Hverjir eru þeir? Hverjir hafa mælt fyrir því? Í hvaða hugarheim er hæstv. ráðherra að vitna? Veit hann um einhverja sem hafa mælt sérstaklega með því að menn gangi til samninga við Osama bin Laden? Ég hef aldrei undir sólinni heyrt um nokkurn einasta mann. Ég bið hæstv. utanrrh. að upplýsa þau nýju tíðindi, að það sé einhver skóli uppi í stjórnmálum heimsins sem tali fyrir því að ganga til samninga við Osama bin Laden. En það að menn vilji það ekki er ekki eitt og hið sama og að skrifa fyrirvaralaust upp á aðferðafræði Bush Bandaríkjaforseta. Það er langur vegur þar á milli.

,,Það er með öllu óskiljanlegt að samningar við slík myrkraöfl skuli hvarfla að nokkrum upplýstum manni því samningsefnið getur ekki orðið annað en grundvallargildi lýðræðisríkja. Það duga engar vífillengjur til að leyna því að allt tal um samninga felur óhjákvæmilega í sér málamiðlanir, verðlaunar hryðjuverkamennina og svívirðir minningu fórnarlamba þeirra.``

Bíðum við, hver hefur mælt fyrir slíku? Fyrr í ræðunni er talað um að umburðarlyndi sé eitt af grundvallargildum Vesturlanda. Er þetta aðferðin til að mæla fyrir hinu vestræna umburðarlyndi? Ég spyr.

Síðar í ræðunni er talað um að al Kaída og hliðstæð samtök --- liðsmenn þeirra séu reyndar hvorki fátækir né ómenntaðir og þar með er það afgreitt að kúgun, fátækt og misrétti skapi jarðveg fyrir hryðjuverk af því að wahabíta-skólinn og Osama bin Laden komi úr efnuðum fjölskyldum. Heyr á endemi. Ætli flestir viti ekki t.d. í hvaða jarðveg öfgahóparnir í Palestínu sækja sér liðsmenn í örvæntingu, neyð og vonleysi flóttamannabúðanna þar sem önnur og þriðja kynslóðin er að alast upp í algjöru vonleysi um framtíð sína. Það þýðir ekki að reyna að afgreiða hlutina með þessum hætti, hæstv. utanrrh.

Ég leyfi mér að spyrja: Hverjir eru ráðgjafar hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar? Hverjir leggja á ráðin með honum um að semja svona texta? Er það Davíð Oddsson? Hverjir leggja á ráðin með honum?

Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. utanrrh. hafi hlustað t.d. á Kastljósþátt þar sem Magnús Bernharðsson, sérfræðingur í menningu og málefnum Austurlanda, ræddi af mannviti um þessa hluti og fór m.a. yfir þær ógöngur sem menn eru komnir í með málefni í Írak. Ef hæstv. utanrrh. hlustaði á menn eins og Magnús Bernharðsson, Jón Orm Halldórsson, þess vegna Jóhönnu Kristjónsdóttur, en sæti ekki annaðhvort við að semja þessa texta sjálfur eða hefði þá hroðalegu ráðgjafa sem með honum hafa sett þetta niður á blað. Þetta er ekki aðferðin til skilnings á þeim hlutum sem þarna er við að glíma. Styrjaldirnar hafa sýnt að það er ekki lausn á hryðjuverkavandanum að láta sprengjum rigna úr 40--60 þús. feta hæð yfir vanþróaðar þjóðir. Það þarf að hugsa fyrir eftirleiknum.

Hvernig er ástandið í Afganistan? Hvernig er ástandið í Írak? Er ekki Írak á barmi borgarastyrjaldar í dag? Eru ekki meira að segja þeir hópar sem menn héldu að þeir ættu vísa sem bandamenn, sjíta-múslímarnir, að rísa upp gegn innrásarliðinu? Er hæstv. utanrrh. sáttur við ástandið í Írak eins og það er í dag?

Það vakti mikla undrun mína, herra forseti, að ráðherra vék nánast ekki að Íraksstríðinu í ræðu sinni. Ég veit að vísu að ráðherra hefur haft tilhneigingu til þess í þáttum að afgreiða það sem liðna tíð, sagt að menn eigi að snúa sér að framtíðinni. Það er ágætt að snúa sér að framtíðinni en ætli menn verði ekki að gera upp sakirnar líka og standa ábyrgir verka sinna? Er hæstv. ráðherra að reyna að flýja undan því að hafa látið kúska sig til þess eða viljandi og með glöðu geði lýst yfir stuðningi við hið ólögmæta árásarstríð gegn Írak og ólögmætt hernám landsins, gegn því sem hæstv. ráðherra hafði áður sagt.

Í skýrslu ráðherra er fjallað um þetta mál, þó lítið sé komið inn á það í ræðunni, í kaflanum undir fyrirsögninni Um Miðausturlönd. Þar eru furðulegar formúleringar á ferð. Þar segir ráðherra réttilega að nú sé rúmt ár liðið frá innrás Bandaríkjanna og Breta í Írak og þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun og hvaðeina. Á einum stað segir, með leyfi forseta: ,,að aðgerðirnar sem Ísland studdi hafi haft það markmið að koma lögum yfir einn illræmdasta harðstjóra mannkynssögunnar.``

Þetta er beinlínis rangt. Aðgerðirnar höfðu það yfirlýsta markmið að koma upp um og fjarlægja gereyðingarvopn Íraka, enda var það eina ástæðan sem gat gefið aðgerðunum eitthvert yfirbragð lögmætis. Það er eina ástæðan sem alþjóðasamfélagið getur leyft sér að nota til þess að ráðast inn í fullvalda ríki innan viðurkenndra landamæra. Það stendur hvergi í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að það megi ráðast inn í sjálfstæð ríki til að skipta þar um stjórnvöld. Slík paragröf eru ekki til þar. Þess vegna varð Bandaríkjastjórn að reyna að ýkja upp gereyðingarvopnahættuna til að ljá aðgerðum sínum yfirbragð lögmætis. Þetta veit hæstv. utanrrh. vel, en hvers vegna talar hann þá um hlutina með þessum hætti?

Síðan er talað um að nú séu Írakar að taka aftur við stjórn landsins. Fer mikið fyrir því? Það er talað um að hinar sterku vísbendingar um gereyðingarvopn írakskra stjórnvalda hafi ráðið miklu þar um. Það var eina ástæðan.

Síðan segir ráðherra að ályktun 1441 sé, hún er kölluð neðarlega í textanum ,,lokatækifæri til óskilyrtrar samvinnu``.

Hér er hæstv. utanrrh. algerlega búinn að snúa við blaðinu og kominn í fulla mótsögn við sjálfan sig.

Þann 27. janúar 2003 svaraði utanrrh. fsp. frá Ögmundi Jónassyni og sagði, með leyfi forseta:

,,Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld telja nauðsynlegt að betra ráðrúm gefist fyrir vopnaeftirlitsmenn til að athafna sig í Írak og það liggur líka fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að við teljum nauðsynlegt að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki þetta mál til frekari umfjöllunar.``

Seinna í sömu umræðu:

,,Það er alveg ljóst af okkar hálfu að við teljum algjörlega nauðsynlegt að þetta mál komi til umfjöllunar öryggisráðsins á nýjan leik, það höfum við margsagt.``

Halldór Ásgrímsson, 27. janúar 2003.

Svo seint sem 17. mars, sólarhringum fyrir innrásina, endurtekur hæstv. utanrrh. þetta sama í viðtali við Ríkisútvarpið. Hin yfirlýsta stefna utanrrh. og ríkisstjórnarinnar var því þangað til kom að kúvendingunni sú að það þyrfti nýja ályktun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna enda alveg ljóst að ályktun 1441, sem ég er með í höndunum, gefur engar heimildir til vopnaðrar valdbeitingar á grundvelli VII. kafla stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjamenn voru einir um þá skoðun alveg þangað til Bretar gáfust upp þegar í ljós kom að engin ný ályktun sem heimilaði árás fengist afgreidd í öryggisráðinu. Af hverju fékkst hún ekki afgreidd? Vegna þess að í ályktun 1441 er stafað niður hvað skuli gera á næstu mánuðum í framhaldi af þeirri ályktun á haustdögum, þ.e. að vopnaeftirlitsmennirnir, El Baraday og Hans Blix, eigi að gefa nýjar skýrslur og þær komu í byrjun mars. Og hvað stóð í þeim skýrslum? Það stóð að vopnaeftirlitið hefði skilað miklum árangri, það lægju engar sannanir fyrir um ólögmæta gereyðingarvopnaeign Íraka og vopnaeftirlitsmennirnir báðu um meiri tíma og meira fé. Þá ýttu Bandaríkjamenn því öllu út af borðinu því það stóð aldrei annað til en að ráðast inn í Írak. Það liggur fyrir skjalfest og vitnisborið undir eiðum hjá rannsóknarnefndum og Bandaríkjaþingi að undirbúningur undir innrás í Írak var kominn af stað fyrir 11. september 2001. Það liggur líka fyrir að Bandaríkjastjórn, Bush yngri, var svo heltekinn af því að gera upp reikningana við Saddam Hussein að hann ýtti til hliðar vísbendingum um hryðjuverkaógnina sem Bandaríkjunum stóð af al Kaída. Þetta er fullyrt af sérfræðingum og er til umræðu á Bandaríkjaþingi eins og hæstv. utanrrh. ætti að vita.

[15:30]

Síðan er enn ein réttlæting færð fyrir afstöðu Íslands og það er að trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna hafi verið í húfi. Það þurfti að ráðast á Írak án ályktunar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna af því að trúverðugleiki þeirra væri í húfi. Hvernig í ósköpunum fer þetta heim og saman? Nei, staðreyndin er auðvitað sú að þeir sem stóðu í lappirnar og létu ekki kúska sig til að pína í gegnum Sameinuðu þjóðirnar samþykki fyrir árás á Írak á grundvelli upploginna upplýsinga björguðu heiðri Sameinuðu þjóðanna. Hvernig væri upplitið á Sameinuðu þjóðunum í dag ef þær hefðu gefið eftir og öryggisráðið tekið trúanlegar hinar upplognu upplýsingar og heimilað árás á landið og svo hefði komið í ljós að þar voru engin gereyðingarvopn að finna? Þá fyrst væri trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna illa leikinn. Það voru nefnilega þær þjóðir sem stóðu gegn þessu í öryggisráðinu og á alþjóðavettvangi. Og það voru vopnaeftirlitsmennirnir sem stóðu í lappirnar og létu ekki undan þrýstingi bandarískra stjórnvalda um að skrifa upp á innrás. Ég held að hæstv. utanrrh. fyrir utan það að tala við fólk sem einhverja þekkingu hefur á málefnum Miðausturlanda og fá það til að hjálpa sér við að semja ræðurnar ætti t.d. að lesa bækur af þessu tagi, lesa bók Hans Blix sem lýsir nákvæmlega frá fyrstu hendi öllu því sem vopnaeftirlitið gekk í gegnum, þrýstingnum sem það sætti og reiði bandarískra stjórnvalda í garð Blix og manna hans þegar þeir vildu ekki skrifa upp á að ráðast ætti á Írak. Hans Blix segir einmitt, og það er dregið út á bókarkápuna, um það atriði sem hæstv. utanrrh. notar sem réttlætingu fyrir innrásinni, með leyfi forseta, í fljótaskriftarþýðingu minni:

,,Nú mörgum mánuðum eftir hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra kemst ég ekki hjá því að velta fyrir mér hvernig heimurinn hefði brugðist við ef við vopnaeftirlitsmennirnir hefðum einfaldlega lýst því yfir að við værum sammála mati Bandaríkjamanna og Breta, sem reyndist rangt eða mjög vafasamt, um álrör, um úransamninga í Afríku, um hreyfanlegar rannsóknarstofur og hreyfanlegar eiturefnavopnaverksmiðjur, um vélmenni, um flaugar o.fl.``

Allt reyndist þetta rangt með tölu. Upplýsingarnar um úransamningana, úrankaupin í Afríku, reyndist helber lygi. Álrörin voru aldrei ætluð til nota við kjarnorkuvopnaframleiðslu heldur í það sem gefið var upp.

Colin Powell --- sem er lengra kominn á þroskabrautinni en hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson enda varð hann löggilt gamalmenni í gær, 67 ára gamall, til hamingju með daginn --- er þó farinn að játa það og er greinilega reiður yfir því að hafa verið dæmdur í það hlutverk að fara með falskar upplýsingar inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Hann segir: ,,Sýklaefnaverksmiðjurnar voru aldrei til.`` Áhrifaríkustu myndirnar sem Colin Powell sýndi af hinum færanlegu sýklavopnaverksmiðjum í gámum á vörubílspöllum eða dráttarvögnum voru aldrei til. Þær voru fabrikasjón til að réttlæta þetta fyrir fram ákveðna stríð Bandaríkjamanna gegn Írak. Og að hæstv. utanrrh. skuli svo koma hér í ljósi alls þess sem á dagana hefur drifið eftir þetta ár með 80% íslensku þjóðarinnar á móti því að fara í þetta stríð þar sem meiri hluti Bandaríkjamanna er nú orðinn andvígur stefnu Bush, þar sem meiri hluti Evrópumanna samkvæmt skoðanakönnunum telur Bush og stefnu hans mestu ógnunina við heimsfriðinn í dag. Hvar eru efasemdir íslenskra stjórnvalda? Ég verð að segja alveg eins og er að svona hélt ég að hæstv. utanrrh. tækist ekki að skilja við og verð ég að segja að gjarnan hefði verið ánægjulegt að eiga við hann orðaskipti undir jákvæðari formerkjum en efni standa til að þessu sinni úr því að hann er að láta af þessu embætti, a.m.k. í þessari lotu. Er ekki rétt að orða það þannig eins og ég tek eftir að hæstv. forsrh. gerir gjarnan, að þetta séu bara endalokin á forsætisráðherratitli hans í þessari umferð, í þessari lotu?

Það er svona svanasöngur í lokaorðum hæstv. utanrrh. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að halda því fram þó að mér finnist það reyndar svolítið barnalegt að vitna í Pál postula og telja að nútímautanríkisþjónusta og alvöruþátttaka Íslands í þeim efnum hafi hafist til og með valdatöku Halldórs Ásgrímssonar í utanrrn., það er a.m.k. nærtækt að falla í þá freistni að túlka þann texta svo, og væri þá svolítið skemmtilegt og ég held að það ætti að senda textann til Helsinki til yfirlestrar, hvort menn hafi ekki gaman af þessu þar. Ég veit að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hefur lagt sig fram og hann hefur átt annasamt starf þau níu ár sem hann hefur verið þar. Ég hef oft verið ákaflega ósáttur við hæstv. utanrrh. en það er málefnalegur ágreiningur og snýr ekki að persónu hans. Ég veit að hann hefur lagt sig fram í þessu embætti, en það verð ég að segja að langdjúpstæðastur er hinn efnislegi ágreiningur minn við hæstv. utanrrh. það síðastliðið ár sem liðið er frá því ógæfuskrefi formanna stjórnarflokkanna án nokkurs lögmæts samráðs við utanrmn. Alþingis, og ég fullyrði, ekki að vandlega yfirveguðu máli eins og sagt er í þessum texta, að styðja hið mislukkaða stríð í Írak með öllum þeim hörmungum sem það hefur þegar kallað yfir okkur, stórversnandi ástand í alþjóðasamskiptum og er þó engan veginn séð fyrir endann á þeim mikla hildarleik.

Ég er þeirrar skoðunar svo það sé þá alveg ljóst að langalvarlegasta ógnunin við frið og stöðugleika í heiminum í dag sé hin herskáa og hrokafulla stefna núverandi bandarískra stjórnvalda. Það er auðvitað ekki auðvelt hlutskipti að vera eina stórveldið í heiminum, hernaðarstórveldi af því tagi, en það réttlætir það ekki að menn fari sínu fram og geri hvað sem er og enn síður að menn fylgi þeim gagnrýnislaust.