Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:37:05 (6148)

2004-04-06 15:37:05# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. gagnrýnir það hve hörðum orðum ég fer um hryðjuverkamenn. Hann segir jafnframt og er sammála því mati mínu að það sé ekki hægt að semja við þá og erum við þá ekki sammála um að ekki sé hægt að semja við þá og það beri að berjast gegn þeim?

Hann gagnrýnir nú sem fyrr afskipti alþjóðasamfélagsins af Afganistan og Írak. Hann nefndi ekki Bosníu og Kosovo. Ég man ekki betur en að hv. þm. væri einnig á móti þeim. Ef ekki hefði verið farið í þau væri Milosevic enn þá við völd. Ef ekki hefði verið farið inn í Afganistan væru talíbanar enn þá við völd og hv. þm. spurði: Hvernig er ástandið í Afganistan?

Ég er nýkominn af ráðstefnu um Afganistan í Þýskalandi og það var afskaplega ánægjulegt að hlusta á forustumenn þess ríkis tala um framtíðarsýn þeirra, um réttindi kvenna, um skólagöngu barna, um bættar samgöngur í landinu, um þá sýn að þjóðartekjur á mann gætu orðið 500 dollarar á mann árið 2015, eru núna um 180 dollarar á mann, um þá sýn að berjast gegn eiturlyfjum og ráða niðurlögum stríðsbaróna og eiturlyfjamafíu í Afganistan. Það voru bjartsýnir forustumenn 25 milljóna þjóðar sem hefur átt við stríðsátök að etja í 25 ár sem þar mættu. Þeir voru afskaplega ánægðir með samskipti sín við alþjóðasamfélagið þannig að það er ekki rétt að ástandið í Afganistan sé ekki að batna.