Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:39:16 (6149)

2004-04-06 15:39:16# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra enn falla í þá gryfju að stilla þessu upp sem tveimur algerum andstæðum og það sé enginn meðalvegur þarna á milli. Það er alveg hárrétt. Ég tók undir að það á ekki að semja við ótínda glæpamenn og þá sem brjóta lög og rétt, ástunda hryðjuverk og annað slíkt, enda hefur mér vitanlega enginn maður nokkurn tímann haldið því fram. Það er bara úr hugarheimi hæstv. ráðherra að einhverjir tali fyrir slíku. Ég gagnrýndi ekki að hæstv. utanrrh. færi hörðum orðum um hryðjuverk. Við erum öll sammála um það og getum sjálfsagt notað eitthvað mismunandi orðalag um það. En það er ekki þar með það sama og að menn eigi að skrifa algerlega upp á hina hugmyndafræðina sem ég get eiginlega ekki kallað annað en að skjóta fyrst og spyrja svo. Það er ekki það sama og að menn eigi ekki að reyna að skilja orsakir þeirra vandamála sem við er að glíma í þessum efnum, þessa árekstra. Hvers vegna gætir svona gríðarlegrar andúðar í garð Vesturlanda og þá einkum Bandaríkjamanna í þessum heimshlutum? Getur verið að það sé allt saman einhver misskilningur? Er ekki hugsanlegt að það leynist einhverjar orsakir í einhverju í framgöngu manna, í sögunni eða í öðrum hlutum sem væri gagnlegt fyrir menn að reyna að skilja? Og hvernig hefur yfirleitt gengið að reyna að berja niður átök á svæðum með hervaldi?

Það voru margir sem töldu að það kæmi aldrei til greina að ræða við menn á Norður-Írlandi af því að það væru glæpamenn, það væru vopnaðir menn þar einhvers staðar á bak við, og vildu útiloka stjórnmálaflokka sem töldust í einhverjum tengslum við slíka aðila. Hvernig gafst það? Jú, það gafst þannig að lokum auðvitað að það hafði engum árangri skilað. Það var ekki fyrr en menn settust að samningaborðinu og fóru að reyna að ná fram afvopnun með friðsamlegum leiðum sem einhver árangur fór að nást. Ég held að þetta sé vonlaus aðferðafræði og mér finnst hæstv. utanrrh. vera alveg fastur í henni.

Varðandi Afganistan er þar náttúrlega hin megnasta óöld ríkjandi enn þá, því miður, víðast hvar þegar kemur út fyrir höfuðborgina og þau svæði önnur sem gætt er af erlendum hermönnum. Það er staðreynd málsins.