Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:41:33 (6150)

2004-04-06 15:41:33# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn í umræðunni er auðvitað sá hverjir eru valkostirnir. Það eru margir sem halda því fram að ekki hafi átt að fara inn í Afganistan og hv. þm. var líka þeirrar skoðunar. Ég man ekki betur en hv. þm. væri algerlega á móti viðskiptabanninu á Írak á sínum tíma sem var þó stutt af Sameinuðu þjóðunum. Hann telur að það hafi verið algerlega rangt að fara inn í Írak. Auðvitað er ljóst að þau gereyðingarvopn sem menn héldu að þar væru hafa ekki fundist. Menn vita hins vegar að þar voru gereyðingarvopn. En það liggur alveg ljóst fyrir að í stjórnartíð Saddams Husseins var framið þjóðarmorð í Írak og það er alveg ljóst að írakska þjóðin á mikla möguleika í framtíðinni ef þeir geta tekið við stjórn sinna mála á þessu ári eins og vonir standa til. En það liggur jafnframt ljóst fyrir að hryðjuverkamennirnir, öfgaöflin, eru að reyna að koma í veg fyrir slíka þróun, m.a. í Írak og í Afganistan og eru líka að reyna að koma í veg fyrir þá þróun að friður geti náðst milli Palestínu og Ísraelsmanna. Því miður eru líka öfgamenn á Balkanskaga sem eru að reyna að eyðileggja friðarhorfur þar til framtíðar.

Gegn þeim verða menn að berjast og eiga engan annan kost. Það má vel vera að hv. þm. sé ekki sáttur við ýmis orð sem ég nota í ræðu minni. Það er eins og gengur --- og hann segir, málefnalegur ágreiningur. En ég er í þessari ræðu að koma skoðunum mínum skýrt á framfæri að því er varðar hryðjuverkamenn og tel að við eigum engan annan kost en að berjast gegn þeim af fullri hörku. Um það virðist vera samstaða, en ég spyr hv. þm.: Hver er hinn kosturinn?