Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:43:52 (6151)

2004-04-06 15:43:52# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þegar rökstuddar grunsemdir lágu fyrir um ábyrgð hryðjuverkasamtakanna al Kaída á hryðjuverkunum skelfilegu í Bandaríkjunum átti að sjálfsögðu að krefjast framsals þeirra. Það átti þess vegna að rétta yfir þeim að þeim fjarstöddum og dæma þá og það átti að beita úrræðum sem alþjóðasamfélagið hefur til að reyna að fullnusta slíka niðurstöðu. Það er ekki svo að það séu bara tveir kostir í stöðunni, annaðhvort að gera ekki neitt eða fara í stríð. Mér finnst því miður hæstv. utanrrh. reyna að ofureinfalda hlutina þannig að það séu bara tvær leiðir. Það sé styrjaldarleiðin, það sé að beita bara hernaðarmættinum og láta sprengjunum rigna eða gera ekki neitt. Ég held að þetta sé alveg skelfilegur misskilningur og kannski er ein undirrót ógæfunnar sem menn eru í hin bandaríska hugmyndafræði sem þar er ofan á um þessar mundir. Vonandi verður það ekki lengi ef við getum gert okkur einhverjar vonir um stjórnarskipti í Bandaríkjunum og þar blási eitthvað til betri tíðar. Þessi Texas-hugmyndafræði virðist því miður hafa náð alveg undirtökunum hjá hæstv. utanrrh.

Hæstv. utanrrh. hefur líka að mínu mati í ræðu sinni varhugaverðar tilhneigingar til þess að leggja alla hryðjuverkahópa að jöfnu. Talar þar fyrst og fremst um trúarofstækismenn, þetta séu trúarofstækismenn og við þá verði engu tauti komið. Ég held að þarna sé um mjög sundurlausa og misjafna hópa að ræða og ekki verður bókstafstrú eða öfgatrú í þeim skilningi séð í íslömsku ríki dregin til ábyrgðar í Írak heldur þvert á móti. Það liggur alveg fyrir að í Írak voru engin tengsl við al Kaída heldur fullur fjandskapur. Það er fyrst núna eftir innrásina sem Írak er orðin gróðrarstía hryðjuverkamanna og kannski eru þeir komnir með fótfestu þar nú sem ekki höfðu hana áður. Ég held að hæstv. utanrrh. ætti að huga að því einnig.