Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:56:42 (6153)

2004-04-06 15:56:42# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. kom nokkuð inn á útgjöld utanríkisþjónustunnar. Á undanförnum árum hafa útgjöld utanríkisþjónustunnar aukist mest vegna friðargæslu og þróunarhjálpar og líka vegna aukinna umsvifa sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli. Menn gleyma því stundum að þetta eru stærstu liðirnir í útgjöldum utanríkisþjónustunnar.

Sendiráðum hefur verið fjölgað, það er rétt. Það var m.a. gert vegna þess að Alþingi Íslendinga samþykkti einróma, m.a. aðilar sem gagnrýna útgjöld vegna sendiráðs í Japan, að stofna sendiráð í Japan. Menn hafa gjarnan deilt á stofnkostnað í því sendiráði. Það er einfaldlega reikningsdæmi hvort er hagkvæmara að kaupa eða leigja. Niðurstaðan varð eindregið sú að hagkvæmara væri að kaupa. Áttu menn þá að leigja? Hefðu menn þá verið að spara fyrir hönd íslenska ríkisins?

Það er gjarnan vísað til Breta í þessu sambandi. Við rekum mjög lítil sendiráð. Við erum með einn diplómat í viðkomandi sendiráði. Nú eru Bretar að tala um að fara út í það á stöku stað.

Ég tók eftir því þegar ég var í Berlín fyrir nokkrum dögum að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurborgar var að skoða sendiráð Breta í Berlín. Í því sendiráði eru fleiri starfsmenn en í allri íslensku utanríkisþjónustunni. Það gæti verið auðvelt að fækka í slíkum sendiráðum.

Þarna er því ekki líku saman að jafna, þ.e. þjóð með 20 sendiskrifstofur og sendiráð eins og okkur og hins vegar þjóð með hátt á annað hundrað sendiráða. Auðvitað hafa þeir miklu meiri möguleika til samdráttar.