Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 15:59:49 (6155)

2004-04-06 15:59:49# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Það er ávallt nauðsynlegt að endurmeta allan kostnað og fara yfir hann. Það hefur verið gert í utanrrn. Ég sagði í ræðu minni að ég hefði nýlega skipað sérstakan starfshóp til að fara yfir forgangsröðun mála, m.a. vegna verkefna í tengslum við væntanlega þátttöku í öryggisráðinu og stóraukinna útgjalda til þróunarmála. Ég get hins vegar ekki vakið vonir um að það verði hægt að draga verulega úr þeim kostnaði.

[16:00]

Það liggur alveg ljóst fyrir að það hefur verið áherslumál á Alþingi að stórauka framlög til þróunarmála. Er Frjálsl. á móti því? Ég spyr: Vill Frjálsl. að við seljum sendiráð í Japan, sem við getum selt fyrir miklu hærra verð en við keyptum húsið á, og leigjum húsnæði jafnvel þó að það sé miklu dýrara? Er það það sem Frjálsl. er að biðja um? Ég bið hv. þingmenn um að vera málefnalega í þessari afstöðu.

Varðandi ráðstafanir í sambandi við sendiráðið í Japan minni ég á að á sínum tíma var það mál lagt fyrir utanrmn. Ég spurði utanrmn., vegna þess að ég vissi að þessi gagnrýni mundi koma: Hvort telur utanrmn. réttara að við kaupum húsnæðið eða að við leigjum það, vitandi það að miklu dýrara er að leigja en að kaupa?

Það svöruðu allir í utanrmn.: Auðvitað eigum við að kaupa ef það er ódýrara.

Svo koma menn, m.a. Frjálsl., og segja að þessi kaup séu dæmi um bruðl í utanríkisþjónustunni. Þetta er náttúrlega ekki boðlegur málflutningur, hv. þm.