Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:01:59 (6156)

2004-04-06 16:01:59# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Um margra ára skeið hafa tvö stór sölusamtök sjávarafurða haft aðsetur í Japan. Viðskiptasamband okkar við Japan byggist fyrst og fremst á sjávarafurðum. Finnst hæstv. utanrrh. ekki einkennilegt að annað sölusambandanna, SÍF, skuli pakka saman og fara heim sökum ónógra tækifæra í Japan? Auðvitað vekur það upp spurningar hjá íslenskri þjóð. Ég fullyrði, hæstv. forseti, að ég er ekki einn um að gera athugasemdir við að lítil þjóð sem Íslendingar skuli eyða 700 millj. kr. í sendiráð í Japan. Ég hefði miklu frekar viljað sjá fartölvusendiherra í Japan.

Á sama tíma og maður spyr um tækifærin og sóknarfærin í Japan pakkar annað stóra sölusambandið saman og fer heim. Mér finnst þetta einkennileg tímasetning svo ekki sé meira sagt.