Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:31:44 (6161)

2004-04-06 16:31:44# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég talaði ekki mikið um Íraksstríðið í ræðu minni og var einmitt gagnrýndur fyrir það. Ég talaði á fyrstu síðum ræðunnar um hryðjuverkaógnina og þá skelfilegu ógn sem hún er gegn mannkyni.

Ég er ekki að mæla með því að nota her í því sambandi. Það er því miður ekki hægt vegna þess að við vitum ekki alltaf hvaðan ógnin kemur. En hitt vitum við, þessir aðilar hika ekki við að drepa saklausa borgara í hundruða tali, fólk á leið til vinnu, fólk á leið til skóla, hvort sem það eru múslimar, Evrópubúar eða Bandaríkjamenn. Réttlætingin er sú að drepa fyrir einhvern málstað og ég hef sannfæringu fyrir því að það er ekki hægt að semja við þessa aðila. Það má vel vera að sú sannfæring sé röng en hún er til staðar og ég er að koma henni til skila. Þetta eru aðilar sem kjósa dauðann en ekki lífið og þessi afstaða hefur áður komið fram í heiminum. Hún kom fram hjá nasistunum. Hún kom fram hjá kommúnistunum. (GÁS: Hver vill semja við þessa glæpamenn? Hver er að segja það?) Ég lýsi þessum skoðunum mínum í ræðu minni. Svo kemur hér þingmaður eftir þingmann frá Samf. og segir að þetta sé alveg furðuleg ræða og aldrei hafi sést annað eins. Þeir vilja fá að vita við hvern er verið að tala, telja að verið sé að tala við þá.

Þessi ræða er mín leið til að lýsa skoðunum mínum, mín leið til að koma mínum skoðunum á framfæri þannig að hv. þm. geta þá gagnrýnt það. En mér finnst að hv. þingmenn hafi ekki gagnrýnt skoðanirnar með nokkrum rökum.