Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:28:15 (6177)

2004-04-06 17:28:15# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er ég, eins og aðrir Íslendingar, stuðningsmaður þess að leysa sem mest mál með samningum og orðræðum. Ég vildi óska þess að allir lifðu í svipuðum heimi og við Íslendingar sem höfum borið gæfu til þess að leysa okkar mál með samningum og höfum borið gæfu til þess að þurfa ekki að vera með herskyldu. Það er því miður ekki þetta sem sagan segir okkur.

Það var reynt að ræða við Hitler á sínum tíma. Hvað ætli fulltrúar Evrópu hafi oft verið búnir að fara á fund Milosevics? Ég man vel eftir því hvað norski utanríkisráðherrann sagði mér um viðræður við Milosevic. Hann spurði alltaf utanríkisráðherra Noregs: Hvert er vandamál þitt? Get ég gert eitthvað fyrir þig? Hann var ekki með neitt vandamál. Honum var hótað. Hann gerði ekki neitt og það reyndist nauðsynlegt að gera eitthvað í málinu. Það var búið að ræða við Saddam Hussein í heilan áratug. Hann hafði lofað öllu fögru.

Og að réttindi kvenna í Írak hafi verið mikil. (KolH: Ég sagði ekki að þau hefðu verið mikil.) Hvernig var farið með konur í Írak? Þeim var skipulega nauðgað. Hvernig var farið með konur í Afganistan? Í Kosovo? Í Bosníu? Þegar farið var í mál í Bosníu og Kosovo var það ekki síst til þess að bjarga múslimum þar vegna þess að verið var að beina ofsóknum gegn múslimum í miðri Evrópu. Þetta verðum við líka að hafa í huga.