Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:59:06 (6185)

2004-04-06 17:59:06# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að deila um það við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvor sé marktækari, sá góði maður Árni Páll Árnason eða Franz Fischler, (Gripið fram í: Báðir góðir.) báðir góðir og gegnir kratar og hafa margsannað mál sitt á þeim vettvangi.

Hv. þm. kom þó einmitt að kjarna málsins í andsvari sínu sem er sá að við þurfum ekki undanþágur. Við þurfum ekki undanþágu frá stefnu Evrópusambandsins heldur þurfum við fyrst og fremst aðlögun. Það er, eins og kom fram í frægri Berlínarræðu hæstv. utanrrh., fordæmi fyrir svæðisbundinni stjórn og sá er einmitt kjarni málsins. Það er það sem færir mér og mörgum öðrum aðildarumsóknarsinnum að Evrópusambandinu vonir um að þetta geti gengið farsællega fyrir sig, samningaviðræður og aðildarumsóknin fengi þær farsælu lyktir að við Íslendingar enduðum þar innan borðs með fulla og óskoraða stjórn á fiskimiðum okkar sem er algert lykilatriði eins og ég kom inn á í ræðu minni hérna áðan. Þar hitti hv. þm. einmitt naglann á höfuðið, þegar hann vitnaði til Franz Fischlers, að við þurfum engar undanþágur. Það er það sem gerir aðildarviðræður við Evrópusambandið að svo spennandi og vænlegum kosti fyrir okkur Íslendinga að við þurfum ekki að eyða kröftunum í að leita eftir tímabundnum undanþágum frá stefnu sambandsins í fiskveiðistjórnarmálum, heldur eru fordæmi fyrir þeirri svæðisbundnu stjórn sem ég gat um áðan, eins og í Miðjarðarhafinu og að mig minnir Orkneyjum. Það er einmitt í þann farveg, frú forseti, sem við munum að sjálfsögðu leiða umræðurnar og fara í við Evrópusambandið. Ég segi ekki ,,ef`` við hefjum aðildarumsókn, heldur ,,þegar`` af því að ég held að það styttist í það og sé miklu styttra en margur heldur þangað til sendinefnd á vegum Íslendinga fari utan til að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.