Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:01:18 (6186)

2004-04-06 18:01:18# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi að seilast býsna langt og með afar góðum huga til þess að túlka orð Franz Fischlers og stefnu Evrópusambandsins með þeim hætti sem hér var gert. Að halda því fram að við Íslendingar þyrftum enga undanþágu frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og hefðum í rauninni frítt spil í sjávarútvegsmálum er að mínu mati ekki bara rangt heldur algjör fjarstæða.

Það er algjörlega ljóst af máli sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins að gengjum við Íslendingar í Evrópusambandið þyrftum við að undirgangast allar þær reglur sem sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins kveður á um. Það sem meira er er að Evrópusambandið er núna að leggja drög að sérstakri stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið og í þeirri stjórnarskrá er gert ráð fyrir að sjávarútvegsstefnan verði tekin upp, verði gerð óafturkræf, og að sjávarútvegur allra aðildarríkjanna verði að sæta þeim reglum sem þar koma fram. Engar undanþágur verða veittar frá yfirstjórn Evrópusambandsins á sjávarútvegsstefnunni en það er einmitt það skilyrði sem hv. þm. setur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel, virðulegi forseti, algjörlega morgunljóst að ætli Íslendingar að ganga í Evrópusambandið, sem ég vona að gerist aldrei, þurfa þeir eins og sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins hefur bent á að undirgangast allar þær meginreglur sem sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins gengur út á og engar undanþágur verða veittar þar frá.