Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:21:46 (6189)

2004-04-06 18:21:46# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að láta kyrrar liggja fullyrðingar hv. þingmanns um oflæti mitt og ofstæki. Ég hef ekki vanist því að fá þau orð að ég væri haldinn slíku. En látum það vera. Hann spyr: Eigum við að hætta að leita rökréttra svara?

Nei, við eigum ekki að gera það. Ég geri það ávallt en ég get ekki leitað rökréttra svara gagnvart fólki sem hefur þá skoðun að dauðinn sé mikilvægari en lífið. Það er það sem ég er að reyna að segja í ræðu minni.

Hann spyr hvort ég hafni málamiðlunum. Ég hafna málamiðlunum gagnvart þessum öfgamönnum sem vilja eyðileggja öll gildi, þau lýðræðislegu gildi sem við byggjum á. Ég hafna málamiðlunum við þá og segi það skýrt í ræðu minni. Ég hef ekki heyrt á hv. þingmönnum Samf. annað en að þeir hafni málamiðlunum við slíka aðila. Svo er sagt hér að við eigum ekki að leita --- að ég vilji ekki leita annarra lausna. Af hverju heldur hv. þm. að ég leggi áherslu á þróunarstarf? Af hverju heldur hv. þm. að ég leggi áherslu á aðstoð við fólkið í Afganistan? Vegna þess að ég veit að það þarf að hjálpa því til að brjótast áfram í lífinu og komast út úr því fari sem það er í. Það er náttúrlega algjör útúrsnúningur, því miður, sem er í gangi hér hjá þingmönnum Samf. og mér er engin leið að skilja hvað þeim gengur til.