Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:25:50 (6191)

2004-04-06 18:25:50# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður snúa þessu öllu við. Hverjir eru að brjóta mannréttindi? Eru það ekki hryðjuverkamennirnir? Var það ekki Milosevic sem braut mannréttindi og réðist gegn því sem er heilagt meðal vestrænna þjóða? Voru það ekki talibanar sem brutu mannréttindi? Svívirti ekki Saddam Hussein flest það sem okkur er heilagt þegar við tölum um mannréttindi og lýðræði? Hver er ábyrgð okkar sem lýðræðislegrar þjóðar? Hver var ábyrgð alheimsins gagnvart því sem gerðist í Rúanda? Og menn eru núna að tala um að alþjóðasamfélagið hafi ekki brugðist við. Út af hverju er það? Mér finnst hv. þingmaður vera að snúa þessu öllu við. Mér heyrist hann útiloka að það eigi að beita valdi. Hann hefur svo mikla trú á samræðum, lýðræðislegum lausnum, að það sé hægt að horfa fram hjá hinu.

Það sem vantar inn í þetta allt saman er hvað átti að gera í þessu tilfelli. Það átti ekkert að gera í Afganistan. Væntanlega átti að tala við talibanana, ræða við þá. Átti að halda áfram viðskiptabanni í Írak? Er ekki meiri von þrátt fyrir allt sem hefur gerst í fortíðinni fyrir írönsku þjóðina í dag en var fyrir Saddam Hussein? Er ekki meiri von fyrir afgönsku þjóðina í dag nú en fyrir talibanana?

Ég held að það sé alveg ljóst.