Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:28:01 (6192)

2004-04-06 18:28:01# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. leyfði sér að tala um barnalega utanríkispólitík í ræðu sinni. Svo kemur hann hér upp og málar heiminn í svörtu og hvítu. Ef ég er ekki með Bush hlýt ég að vera með hryðjuverkamönnunum. En kæri hæstv. utanrrh. --- jafnvel í stríði allra stríða, stríðinu gegn nasismanum, gerðu menn sig seka um stríðsglæpi okkar megin líka. Við breyttum ekki alltaf rétt. Þess vegna brýni ég það einfaldlega fyrir hæstv. utanrrh. að í stríðsæsingnum og múgsefjuninni haldi Evrópumenn nokkuð ró sinni og vöku og hafi hugfast að við megum ekki glata lýðræðinu fyrir harðstjórninni, ekki umburðarlyndinu fyrir ofstækinu og ekki lögunum fyrir ólögunum.

Þess vegna segi ég við hæstv. utanrrh. að auðvitað má grípa til aðgerða gagnvart þjóðum sem brjóta grimmilega gegn þegnum sínum. En það verðum við að gera í samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og eftir alþjóðalögum. Þar er grundvallarágreiningur Samf. og hæstv. ríkisstjórnar um innrásina í Írak. Hún var brot á alþjóðalögum og vísasti vegurinn til að efna til ófriðar í henni veröld eins og það er í hverju öðru samfélagi að brjóta gegn og virða ekki lögin, hæstv. utanrrh.

(Forseti (GÁS): Forseti vill minna hv. þingmenn á að beina orðum sínum til forseta en ekki til hæstv. ráðherra eða hv. þingmanna.)