Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:30:16 (6193)

2004-04-06 18:30:16# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um öfgamenn hér í dag. Því miður er orðræðan þannig að það er mjög erfitt að átta sig á henni. Palestínumenn eru allir hryðjuverkamenn, Ísraelsmenn eru að bregðast við hryðjuverkum og samt hafa Ísraelsmenn drepið þrjá fyrir hvern einn sem Palestínumenn hafa drepið í því stríði sem þar stendur yfir. Ég held að nær væri að líta á þau átök sem stríðsátök þó að mönnum líki ekki aðfarirnar því að þær eru sannarlega hvorugum til framdráttar og ættu auðvitað ekki að tíðkast í mannlegu samfélagi.

En þær eru kannski stærsta rótin að þeim vanda sem alþjóðapólitíkin er í af því að Vesturlönd eru í augum múslima orsökin fyrir þessum átökum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Íslendingar eru meira að segja í hópi þeirra sem hældu sér á sínum tíma af því að standa fyrir stofnun Ísraelsríkis. Þó að þær ræður séu ekki haldnar lengur man maður eftir þó nokkrum af því taginu.

Það er ekki vansalaust að Vesturlönd skuli ekki hafa getað tryggt Palestínumönnum mannréttindi sem dygðu til þess að þeir gætu sætt sig betur við hlutskipti sitt. Það mundi draga úr þeim átökum sem hafa verið og verða því miður áfram um sinn á þessu svæði, ekki er annað að sjá.

Á einum stað í ræðu sinni sagði hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

,,Það má líkja sögu lýðveldisins við þroskaferli manneskju. Páll postuli lýsti honum þannig: ,,Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.`` Á grundvelli þessarar líkingar sleit Ísland barnsskónum á síðasta áratug og varð fullþroska þátttakandi í samfélagi þjóðanna.``

Svona nokkurn veginn er framhaldið í meiningunni: Við eigum að vera stoltir þátttakendur í samfélagi þjóðanna án heimóttarskapar og steigurlætis.

Vafalaust er hæstv. ráðherra að vísa til þeirrar ákvörðunar Alþingis, því að hann vísar þarna til síðustu ára, að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða þegar hann er að vísa til stóratburða á síðasta áratug. Honum er ljóslega í mun að tryggja framhald efnahagslegs samstarfs Íslands og annarra Evrópuþjóða til framtíðar. Ég efast reyndar ekki um að Íslendingar muni gera það sem til þarf þegar þar að kemur til að tryggja efnahag sinn, hvort sem það þarf að ganga í Evrópubandalagið eða ekki til þess.

Ekkert hefur verið ráðamönnum hér ofar en pyngjan og varla eru líkur á að það breytist á næstunni. Evrópusinnar þurfa þess vegna að mínu viti engu að kvíða um framtíðina. Verði EES-samningurinn ónýtur, t.d. við inngöngu Noregs í Evrópubandalagið, munu þeir sem fremstir ganga nú í yfirlýsingum um að ekki skuli ganga inn standa fáliðaðir. Já, þeir verða mun fáliðaðri en þeir sem fóru gegn EES-samningnum á sínum tíma, það er augljóst. Umræðan um EES-samninginn hefur nefnilega sannfært fjöldann í þessu landi um að munur á fullri aðild og EES-samningnum snýst ekki um að afsala sér meiru af fullveldinu. Rök þeirra um glataðar auðlindir fiskimiðanna hitta þá sjálfa fyrir. Eignarhaldi á fiskstofnunum er nefnilega hægt að koma fyrir hjá þjóðinni sjálfri þar sem það átti alltaf að vera. Verði þannig búið um hnútana, eins og Samf. hefur lagt til, er ekki hætta á ferðum hvað það mál varðar.

Norðmenn munu að líkindum kjósa um Evrópuaðild núna og líklega verður niðurstaðan sú að þeir kjósa tvisvar og margir telja að ef það verður gert verði aðild samþykkt. Ef það gerist spái ég því að Íslendingar muni fylgja mjög fljótlega í kjölfarið ef þeir ekki taka fram úr Norðmönnum þegar auðséð verður að hverju stefnir þar.

Hæstv. ráðherra gæti líka með orðum sínum um að leggja niður barnaskapinn, sem ég las upp úr áðan, hafa átt við gerbreytta utanríkisstefnu ráðamanna hér á landi. Já, hæstv. forseti, ég er nefnilega ekki frá því að hann hafi átt við það. Það þarf ekki að rifja það upp hér á hv. Alþingi að hin miklu átök um utanríkis- og varnarmál sundruðu þjóðinni frá því fyrir miðja síðustu öld og marga áratugi þar á eftir. Það jaðraði við uppreisn í landinu á stundum og í því andrúmslofti varð sú framkvæmd utanríkisstefnunnar til sem hélst óbreytt fram að aldamótum, að Ísland væri vopnlaus þjóð og þó að hún væri aðili að NATO og hefði varnarsamning við Bandaríkin tæki hún ekki þátt í hernaði og blandaði sér ekki í ákvarðanir um hernað. Um þennan hluta utanríkisstefnunnar, sem margir segja að Bjarni Benediktsson hafi mótað, var í raun víðtæk samstaða í landinu.

En svo var það fyrir átta árum, eins og skáldið sagði, að upp hófust til valda á Íslandi fóstbræður tveir, blönduðu blóði og hétu þjóðinni afrekum. Þeim var eins farið og þeim fóstbræðrum, Þorgeiri Hávarssyni og Þormóði Bessasyni, sem Fóstbræðra saga segir frá, og Gerpla, að þeim þótti ekki hetjum sæma að búa við frið ef kostur væri á hetjuverkum og ófriði. Þá, eins og nú, höfðu vopn legið í skarni og hetjulund til mannvíga vikið fyrir fyrirlitlegum bústarfa og að hokra að konum, eins og um getur í nefndum bókum. Nú, eins og þá, fannst lítill starfi víkingum hér á landi en þó að Aðalráður Englakonungur sé ekki lengur á dögum eða Ólafur digri má enn finna herkonunga sem meta mikils hetjur og skáld, komin af Íslandi að veita þeim liðveislu og að geta sér nokkurrar frægðar.

Með þeirri ákvörðun Íslendinga að taka þátt í ákvörðun um og styðja opinberlega hernað í löndum hinnar gömlu Júgóslavíu var stefnu hinnar vopnlausu þjóðar breytt og með stuðningi við Íraksstríðið var strikað undir, afar skýrt, þessa nýju stefnumótun.

Það er af þessum ástæðum sem umræðan er hér á Alþingi í dag um það hvort rétt hafi verið að ráðast inn í þetta eða hitt ríkið. Áður en þessari stefnu var breytt hefði slík umræða ekki farið fram í sölum Alþingis, einfaldlega vegna þess að Íslendingar tóku ekki á sig þá ábyrgð að ákveða það með öðrum að fara í styrjaldir eða taka þátt í því að ákveða hvers lags hernaðarátök ættu við.

Nú má halda því fram að Íslendingar séu þátttakendur í átökum, svona eins og Ketill skrækur í Skugga-Sveini. Hann gat að sönnu ekkert en stóð fast að baki hins mikla manns. En hvað þýðir þessi stefnubreyting fyrir þjóðina og hvernig er stefnan í framkvæmd? Ég spyr hæstv. utanrrh.: Þarf ekki hernaðarsérfræðinga, ráðgjafa, njósnasveitir, vit og þekkingu á einstökum ákvörðunum í hernaði í öðrum löndum? Aðrar þjóðir telja sig þurfa slíkt til að undirbyggja ákvarðanir um hernað og hernaðarátök.

Hvernig verður ákvörðun um stuðning við hernaðaraðgerðir til í stjórnkerfinu á Íslandi? Ég bið um skýrt svar. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á stjórnkerfi utanríkismála í þeim tilgangi að gera ríkisstjórninni fært að taka upplýstar ákvarðanir um þátttöku og ábyrgð Íslands í hernaðarátökum? Er kannski nóg að þeir fóstbræður hittist og ákveði hvar mest þörf sé á íslenskum hetjuskap?

Ég held ekki. Ég er á þeirri skoðun og það með fullri virðingu fyrir hæstv. utanrrh., hæstv. forsrh., utanríkisþjónustunni, starfsmönnum utanríkisþjónustunnar og öllum hernaðarspekúlöntum þessa lands og spámönnum að hér sé ekki saman komið hugvit og þekking til að ákveða þátttöku í hernaði. Ég óska eftir viðbrögðum hæstv. utanrrh. við þessum fullyrðingum mínum.

Á öðrum stað í ræðu sinni segir hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:

,,Það er ófrávíkjanleg afstaða íslenskra stjórnvalda að trúverðugur varnarviðbúnaður á Íslandi sé forsenda áframhaldandi varnarsamstarfs. Ógnin sem öllum vestrænum lýðræðisríkjum stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi hefur hert þessa afstöðu. Málamyndavarnir veita falskt öryggi og geta því verið verri en engar.``

Spurningin hefur verið borin fram hér áður en ég bið um nánari útlistun á svarinu því að ég áttaði mig ekki á því: Hvað er trúverðugur varnarviðbúnaður? Eru það flugvélar og þyrlusveitir sem hafa verið til staðar, þ.e. voru til staðar? Úr því að hæstv. utanrrh. tekur sér þessi orð í munn hljóta menn að spyrja hvað við sé átt. Það er löngu tímabært að það fréttist hvað stjórnvöld meina með slíkum yfirlýsingum.

Ég spyr hvort það séu þessar loftvarnir sem menn töldu að væru hérna og var upplýst að færu fram á þann hátt að vopnlausar vélar færu á loft öðru hvoru og settust aftur. Ég spyr vegna þess að fréttir hafa verið af því að flugsveitirnar hafi ekki verið með tæki og tól hér í landinu til að bregðast við. Nýlega kom einhver frétt t.d. um það að þyrlusveitirnar hefðu ekki verið til staðar þegar menn spurðu eftir því og á þurfti að halda. Er ekki komið að því að menn þurfi að horfast í augu við að bæta þurfi þá þyrlubúnað Íslendinga eða bæta við þyrlu til þess að geta brugðist við þegar við þurfum á slíku að halda?

Það er annað sem mig langar að spyrja hæstv. utanrrh. um, og það er vegna þessa mikla heimsveldis sem við höfum talið vera vinaþjóð okkar en fer fram eins og heimsveldi hafa gert í gegnum tíðina. Því miður virðist ekki hafa orðið breyting þar á. Þetta heimsveldi, þ.e. þeir sem þar ráða telja að þeir geti sett þau lög og þær reglur sem þeim sýnist og ákveðið hvort fólk sé utan eða innan við lög og rétt. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Hefur verið mótmælt við Bandaríkjamenn framferði þeirra á Kúbu? Með hvaða hætti hafa þau mótmæli þá verið? Hvað hafa menn gert í því? Er ekki eðlilegt að slík mótmæli komi ef þau hafa ekki verið þegar sett fram af hálfu íslenska ríkisins?

Að mínu viti er framferði Bandaríkjamanna þarna með ólíkindum, að menn skuli ganga fram fyrir hönd ríkis sem ætlar sér forustuhlutverk, og hefur forustuhlutverk, á þessari jarðkúlu með þeim hætti sem þarna hefur verið gert er í raun og veru alveg skelfilegt og segir okkur að þar hafa menn ekki lært, enn þann dag í dag ekki neitt, af fyrri mistökum og eru þau þó mörg stór.

Ég sé að tími minn er búinn og lýk máli mínu.