Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:49:05 (6196)

2004-04-06 18:49:05# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki betur en að þessi mál hafi verið rædd mjög ítarlega í utanrmn. á sínum tíma, hvort Íslendingar ættu að styðja inngrip Atlantshafsbandalagsins, bæði að því er varðar Bosníu og Kosovo. Og ég man ekki betur en að Samf. styddi það. Er það misskilningur, hv. þm., eða er hv. þm. að segja að hann hafi verið andvígur því að Samf. styddi það?

Að því er varðar Írak geri ég mér alveg grein fyrir að Samf. var andvíg því að við styddum ákvörðun annarra. En ég hélt að þingmönnum Samf. væri alveg ljóst að við vorum ekki þátttakendur í þeirri ákvörðun. Við studdum, eins og fjöldamargar aðrar þjóðir í Evrópu og víðar, þessa ákvörðun Bandaríkjamanna og Breta. Við skulum tala um þetta í réttu samhengi. Ég skil þá hv. þingmann þannig að hann hafi verið andvígur stuðningi Samf. í þessu máli.

Ef við erum að tala um einhverja breytingu í utanríkisstefnu Íslands í þessu samhengi varð hún þegar við stóðum frammi fyrir þessu. Það er í fyrsta skipti sem við höfum staðið frammi fyrir því innan Atlantshafsbandalagsins að Atlantshafsbandalagið taki ákvörðun um inngrip af því tagi sem var í Bosníu og Kosovo. Við skulum kalla það breytingu á utanríkisstefnu okkar, það er allt í lagi mín vegna að gera það, en ég tel og hélt að það hefði verið breyting sem hefði haft tiltölulega víðtækan stuðning, ekki bara stjórnarflokkanna, heldur líka Samf.