Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:53:21 (6198)

2004-04-06 18:53:21# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans sem þingmenn fengu í hendur seint í gærkvöldi, svo og ræðu hans hér fyrr í dag.

Ég vil áður en lengra er haldið lýsa furðu minni á því að jafnviðamikil skýrsla og þessi, hundrað blaðsíðna skýrsla, skuli ekki vera lögð fyrir þingheim fyrr en nokkrum klukkutímum áður en Alþingi á að ræða efni hennar á heilum þingfundi sem hefur nú tekið fleiri klukkutíma og mun standa langt fram á kvöld ef svo fer fram sem horfir. Þessi skýrsla sem ber titilinn Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er á þskj. 1377, 999. mál, og var ekki afhent þingmönnum fyrr en kl. tíu í gærkvöldi. Hér erum við nú og eigum að ræða vitrænt um innihald hennar, skýrslu sem varðar svo mikilvægan málaflokk, utanríkis- og alþjóðamál, málaflokk sem hæstv. utanrrh. ber réttilega ábyrgð á.

Mér finnast þetta ótrúleg vinnubrögð, herra forseti, alveg með ólíkindum. Ég er nýliði á þingi og verð að segja að mér finnast svona trakteringar vægast sagt ótrúlegar. Það má vel vera að eldri þingmenn, mér reyndari og eldri hér á hinu háa Alþingi, séu vanir svona trakteringum en ef svo er lýsi ég furðu minni á því.

Ég er nokkuð sannfærður um að þessi skýrsla hefur legið tilbúin uppi í utanríkisráðuneyti í nokkra daga því að í henni er ekkert að finna sem telja má til atburða sem gerst hafa á undanförnum dögum eða klukkustundum. Ég minni á að á hinu háa Alþingi fór fram umræða um störf alþjóðanefnda þingsins þar sem lagt var út af skýrslum sem þær nefndir höfðu skilað og lagt fyrir þingheim. Þeim var dreift meðal þingmanna með margra daga fyrirvara þannig að tími gafst til að lesa þær. Hvers vegna var ekki hægt að leggja þessa skýrslu utanrrh. fram fyrir einhverjum dögum, til að mynda í síðustu viku?

Herra forseti. Nei, ég skil ekki svona vinnubrögð. Að manni læðist sá grunur að þetta sé með ráðum gert, að ríkisstjórnin vilji forðast gagnrýna umræðu um utanríkismál, störf sín á alþjóðavettvangi og starfsemi utanríkisþjónustunnar heima og heiman. Ég vona að þessi grunur minn sé ekki á rökum reistur og ég vil hér með nota tækifærið og mælast til þess að næst þegar skýrsla utanrrh. verði lögð fram sem væntanlega verður að tveimur árum liðnum, þ.e. árið 2006, fái þingmenn hana í hendur með nokkurra daga fyrirvara. Þá mun væntanlega annar gegna störfum utanrrh. en hæstv. núverandi utanrrh., Halldór Ásgrímsson. Nýir vendir sópa best og vonandi mun framtíðarutanríkisráðherra Íslands sýna þingheimi meiri virðingu en við upplifum nú og skila þeirri skýrslu af sér þannig að hún fái eins vandaða umfjöllun og verða má á hinu háa Alþingi. En nóg um þetta í bili.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka þegar litið er yfir svið utanríkis- og alþjóðamála nú um stundir. Einna hæst ber að mínu mati þá sorglegu staðreynd að sú hræðilega styrjöld stendur enn yfir sem hófst með innrásinni í Írak fyrir rétt rúmu ári. Frjálsl. hefur frá upphafi verið andvígur þessu stríði. Að kvöldi hins 19. mars á síðasta ári, kvöldið sem innrásin í Írak hófst, sendi flokkurinn út eftirfarandi yfirlýsingu sem mig langar til að rifja upp, með leyfi forseta. Hún er ekki löng en hún er dramatísk:

,,Sent út klukkan 23.00.

Allt bentir til að árás sé að hefjast á Írak undir forustu Bandaríkjamanna án fulltingis alþjóðasamfélagsins. Frjálslyndi flokkurinn fordæmir þá stefnubreytingu íslenskra ráðamanna að ljá hernaði fylgi sitt án nokkurs samráðs við þjóð sína. Þess er beðið af alhug að átökunum linni sem fyrst, svo forðast megi frekara mannfall og þjáningar.``

Því miður rættust ekki óskir okkar í Frjálsl. Fréttir af blóðugum átökum berast hvern einasta dag og hafa gert í rúmt ár. Nú síðast eru farnar að brjótast út mannskæðar óeirðir víðs vegar um Írak. Tala fallinna er komin á annan tug þúsunda. Nú í morgun stóðu ítalskir hermenn í blóðugum bardaga við andspyrnusveitir Íraka og vopnabræður þeirra í suðurhluta Íraks á meðan bandarískar hersveitir börðust harkalega við skæruliða vestur af Bagdad. Fleiri manns lágu í valnum, særðir eða látnir. Bara síðan á sunnudag hafa a.m.k. 11 bandarískir hermenn fallið í átökum við írakska andspyrnumenn.

Gagnrýni á styrjöldina í Írak fer stöðugt vaxandi. Meira að segja í Bandaríkjunum missir almenningur hratt trúna á Bush Bandaríkjaforseta. Allt bendir til að átökin í Írak fari harðnandi ef eitthvað er. Hugsanlega er kominn fram nýr leiðtogi á meðal Íraka sem mun leiða þá í baráttu sem æ fleiri Írakar virðast vera farnir að líta á sem frelsisbaráttu. Það þarf ekki að koma á óvart að þessi maður, sjítaleiðtoginn Muqtada al-Sadr, er öðrum þræði trúarleiðtogi, fyrrverandi lærisveinn ayatolla Khomeinis í Íran, maður sem samkvæmt fréttaskeytum hefur fulla samúð með vígahópum sem berjast gegn hernámi í Palestínu.

Herra forseti. Æ fleiri menn, konur og þjóðir eru að missa trúna á þennan hernaðarrekstur í Írak. Spánverjar hafa sagt að þeir ætli að draga herlið sitt á brott þaðan. Núna rétt áðan barst fréttaskeyti frá Noregi sem segir að Norðmenn muni draga út herlið sitt, 150 manna herlið, frá Írak innan fárra mánaða. Jan Petersen, utanríkisráðherra Noregs, lýsti þessu yfir í kvöldfréttum norska sjónvarpsins nú fyrir stundu.

Herra forseti. Meira að segja háttsettir menn á borð við Hans Blix, fyrrverandi yfirmann vopnaleitar SÞ, eru farnir að tala æ skýrar gegn innrásinni og styrjöldinni í Írak. Nú í morgun birtist athyglisvert viðtal við hann í danska blaðinu Jyllandsposten. Ég tek það fram að þýðingin er mín svo að velkist einhver í vafa um hana er þessa grein að finna á vefsíðum Jyllandspostens í dag, www.jp.dk. Hans Blix segir, með leyfi forseta:

,,Hið jákvæða er að Saddam og hin blóðuga stjórn hans er á braut en þegar bókhaldið er gert upp vegur hið neikvæða klárlega þyngst. Þetta varðar hina fjölmörgu sem hafa misst lífið í styrjöldinni og þá mörgu sem enn deyja af völdum hryðjuverkanna sem stríðið hefur skapað jarðveg fyrir. Trúverðugleiki vestrænna ríkisstjórna og valdsvið Sameinuðu þjóðanna hefur einnig beðið hnekki. Stríðið hefur frelsað Íraka undan Saddam en þetta hefur verið of dýru verði keypt. Við verðum að spyrja Íraka hvað þeir kjósa sjálfir. Mundu þeir kjósa að hafa Saddam enn við völd umfram það að þjást vegna þeirra hryðjuverka sem þeir búa við í dag? Ég held því miður að þeir mundu kjósa fyrri kostinn. Undir stjórn Saddams ríkti rólegra ástand og stöðugleiki.``

Þetta voru orð Hans Blix í Jyllandsposten í dag.

[19:00]

Mér þykja þetta merkileg ummæli manns sem gjörþekkir Írak, sem ekki fékk að ljúka verki sínu og manna sinna í leitinni að gereyðingarvopnum, sem hvorki hefur fundist tangur né tetur af. Þau voru sennilega ekki til þegar ákvörðun var tekin um að ráðast inn í Írak, m.a. með dyggum stuðningi hæstv. utanrrh. og þeirrar ríkisstjórnar sem hann á sæti í.

Þetta er blóðugt stríð sem engan enda virðist taka. Stóraukin hætta er á hryðjuverkum í Evrópu, Bandaríkjunum og raunar alls staðar í heiminum þar sem vestrænir menn, konur og börn eru á ferð. Þetta, herra forseti, uppskera menn eftir að hafa ráðist inn í Írak. Innrásin var ekkert annað en olía á ófriðarbálið í Miðausturlöndum og vatn á myllu öfgaafla sem vilja nota hvert tækifæri sem gefst til að grafa undan vestrænu þjóðskipulagi. Ekki þarf að koma á óvart þótt ófriðurinn í Írak eigi eftir að magnast enn á næstu mánuðum, m.a. í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Írak stefnir í að verða nýtt Víetnam.

Herra forseti. Fyrst farið er að minnast á hernað og vígtól verður ekki hjá því komist að minnast á hlut Íslands í varnarsamstarfinu í NATO. Frjálsl. styður varnarsamstarfið af heilum hug. Ísland á heima í hópi vestrænna þjóða en það þýðir þó ekki að við eigum í blindni að binda trúss okkar við tiltæki Bandaríkjamanna og Breta í hernaðarbrölti þeirra. Framtíð varnarliðsins hér á landi er áhyggjuefni. Í skýrslu utanrrh. er talað um að nýjustu bókanir við varnarsamninginn, sem gerðar voru fyrir tíu og átta árum, kveði á um að hér skuli staðsettar fjórar orrustuþotur og þyrlubjörgunarsveit, það sé nauðsynlegt til að halda uppi loftvörnum og fælingarmætti. Það má taka undir þetta þó að ekki séu fjórar þotur neinn flugfloti og langtum minni floti en t.d. hjá nágrönnum okkar annars staðar á Norðurlöndunum. Norðmenn eiga tæpar 50 þotur, Danir og Finnar um 60 og Svíar hafa yfir að ráða um 150 orrustuþotum.

Nú má enginn skilja mig þannig að ég sé með þessum samanburði að leggja á ráðin með að fara út í loftvarnakapphlaup við hin Norðurlöndin. Nei, herra forseti. Ég set hins vegar spurningarmerki við trúverðugleika loftvarna svo stórs lands sem Ísland er þegar þoturnar eru bara fjórar. Þegar við blasir að skipa- og kafbátaleitarvélar bandaríska flotans eru á förum og Landhelgisgæsla Íslands í lamasessi vegna viðverandi fjársveltis er ekki hægt að tala um trúverðugar varnir á sjó, í lofti og á landi. Ég sé í skýrslu hæstv. ráðherra að stefna Íslands er að tryggja að hér verði trúverðugur varnarbúnaður og að varnarsamningurinn við Bandaríkin verði áfram, eins og segir í skýrslunni, einn af hornsteinum í öryggis- og varnarmálastefnu landsins.

Ég spyr hvort þetta sé raunhæft markmið. Við vitum að Bandaríkjamenn eru að leggja niður herstöðvar. Innrásarævintýri þeirra og stríðsbrölt í Afganistan og Írak hefur kostað gríðarlega fjármuni og ekkert lát virðist á. Væri ekki raunhæfara fyrir íslensk stjórnvöld að leita þegar í stað leiða til að koma á fót nánara varnarsamstarfi við nágranna okkar í Evrópu? Við skulum hafa í huga að eyjan okkar er staðsett í miðju Atlantshafi og að yfirráð yfir henni hljóta að vera mikilvægt ef viðsjárverðir tímar renna upp í okkar heimshluta. Það gæti hæglega gerst á næstu áratugum. Hlutir geta þróast hratt og óvænt í alþjóðamálum. Það sjáum við best með því að skoða sögu undanfarinna áratuga.

Ég á persónulega erfitt með að ímynda mér annað en að Evrópuþjóðum innan NATO hljóti að þykja til mikils að vinna að halda í einhvers konar varnarsamstarf við Íslendinga. Í því sambandi má t.d. nefna þjóðir á borð við Breta, Norðmenn, Dani og Þjóðverja. Væri ekki eðlilegt að leita leiða til að bjóða þeim aðstöðu hér á landi til að stunda heræfingar, nota flugvelli, hafnir og önnur mannvirki sem að gagni mættu koma ef aðstæður yrðu með þeim hætti að hingað þyrfti að senda herlið? Einnig mætti hugsa sé að NATO kæmi hér upp birgðastöðvum með matvælum, samgöngutækjum, jafnvel vopnum og öðrum búnaði sem herlið á þess vegum gæti tekið í notkun ef það yrði sent hingað á viðsjárverðum tímum. Gæsla, viðhald og rekstur þeirra mannvirkja og tækjabúnaðar sem NATO teldi nauðsyn á að hafa hér á landi væri alfarið í höndum Íslendinga sem störfuðu þá á kostnað íslenskra stjórnvalda og NATO.

Við skulum ekki gleyma því að nú þegar er fyrir hendi mikil reynsla hæfra íslenskra starfsmanna sem hafa um áratuga skeið unnið á vegum Bandaríkjahers, m.a. í Keflavík. Hugsanlega mætti tengja starfið á einhvern hátt rekstri stofnana eins og Landhelgisgæslunnar sem mundi að hluta til starfa á vegum NATO við eftirlit með hafsvæðunum umhverfis Ísland og stunda björgunarstörf á svipaðan hátt og verið hefur. Landhelgisgæsla okkar Íslendinga gæti til að mynda átt samstarf við sjóheri Dana og Norðmanna en báðar þessar þjóðir eiga hagsmuna að gæta á hafsvæðum í grennd við Ísland. Ég minni á það að Danir láta iðulega varðskip sín, sem stunda þá eftirlitsstörf við Grænland, fara til Reykjavíkur til að taka birgðir, senda mannskap í frí, skipta um áhafnir o.s.frv. Gæti hugsast að við Íslendingar tækjum að okkur einhvers konar verkefni fyrir Dani, t.d. við Austur-Grænland, að Landhelgisgæslan gæti á einhvern hátt unnið með Dönum að landhelgisstörfum á þessu hafsvæði. Hver veit?

Ég spyr: Hvers vegna má ekki leita leiða til að leysa málin með þessum hætti og tryggja þannig varnarviðbúnað, atvinnustig og jafnvel styrkja rekstur Landhelgisgæslunnar og hugsanlega annarra stofnana einnig, t.d. ríkislögreglustjóra og víkingasveitarinnar? Mér er spurn. Mér finnst athyglisvert að velta þessu fyrir sér þar sem það er okkar verkefni á hinu háa Alþingi að reyna að marka stefnu fyrir framtíðina í stað þess að velta okkur stöðugt upp úr fortíðinni.

Einsýnt virðist að Bandaríkjamenn séu að fara frá Keflavík smátt og smátt. Maður sér það greinilega þegar þessi annars ágæta skýrsla er lesin. Mér tókst að fara nokkurn veginn yfir hana í dag þótt ég hefði viljað gera það betur. Það er auðséð þegar komið er að kaflanum um varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn að þar hefur dregið verulega úr samstarfi og störfum Bandaríkjamanna á undanförnum árum. Það kemur reyndar engum á óvart sem fylgjast með fréttum.

Mín persónulega skoðun er að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, séu kannski einum of upptekin af áframhaldandi samstarfi við Bandaríkjamenn. Kannski er kominn tími til að sætta sig við þá staðreynd að þeir virðast á leið héðan, þeir hafa hreinlega ekki efni á því að vera hér. Kannski væri eðlilegt að leita lausnar í því að finna einhvern flöt á samstarfi við nágrannaþjóðir okkar, þjóðir sem standa okkur nær í Vestur-Evrópu.