Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:08:08 (6199)

2004-04-06 19:08:08# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af skýrslunni um utanríkismál sem hefur verið dreift á Alþingi vil ég taka fram að í sjálfu sér er á dagskrá hér í dag skýrsla utanrrh. til Alþingis, sem ávallt hefur verið nefnd svo, þ.e. ræða utanrrh. til Alþingis. Þessi skýrsla sem þingskjal hefur hins vegar ekki verið tekin á dagskrá. Ég er hins vegar reiðubúinn að ræða hana hvenær sem er. Hér er tiltölulega stuttur tími til ráðstöfunar en ég vil taka það fram að handrit þessarar skýrslu var afhent Alþingi sl. miðvikudag og síðan tók við prófarkalestur þingsins og prentun. Við í utanrrn. fengum þær upplýsingar að nægja mundi að afhenda skýrsluna sl. miðvikudag, sem við gerðum. Ég bið því hv. þm. að ætla okkur ekki það að við séum vísvitandi að koma slíkri skýrslu seint á framfæri.

Hins vegar er ljóst, eins og hv. þm. tók fram, að það eru í sjálfu sér engin sérstök nýmæli í skýrslunni. Þetta er upptalning og handhægt skjal fyrir alþingismenn og aðra til að hafa um utanríkismál, ekki aðeins út af þessari umræðu heldur og út af umræðu um utanríkismál í framtíðinni. Ég vil biðja hv. þingmenn að skilja þessa skýrslu með þeim hætti. En rétt skal vera rétt.

Skýrslan var afhent sl. miðvikudag. Í sjálfu sér hefði verið hægt að afhenda þingmönnum handritið fyrr, það má vel vera að það hafi verið mistök að gera það ekki. En hún var tilbúin þá af hálfu ráðuneytisins.