Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:10:23 (6200)

2004-04-06 19:10:23# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef þessi skýrsla er í sjálfu sér ekki til umræðu í dag þá hlýt ég að hafa misskilið eitthvað hrapallega. Hún barst okkur a.m.k. fyrst í gærkvöldi. Ég hef staðið í þeim skilningi í allan dag meðan ég hef verið að undirbúa mig fyrir þessar umræður og fylgjast með umræðum að skýrslan væri a.m.k. stór partur af því sem yrði rætt en ekki ræða hæstv. utanrrh.

En fyrst að það var ræða utanrrh. hæstv. sem er til umræðu í dag --- hún hefur sannarlega verið til umræðu og ætla ég ekki að draga dul á það --- þá vil ég gera það að tillögu minni að fram fari umræða eftir páska um skýrslu hæstv. utanrrh. Eftir að hafa lesið hana sé ég í henni mjög margt sem mér finnst nýmæli og full ástæða til að taka til umræðu á hinu háa Alþingi. Í henni eru ýmis málefni sem ekki hafa fengið neina umræðu í dag sem þó væri þarft og hollt að ræða.