Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:13:26 (6202)

2004-04-06 19:13:26# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að hallmæla þessari skýrslu eftir að hafa lesið hana í dag. En eins og ég sagði áðan er margt í henni sem því miður hefur ekki fengið neina umfjöllun í dag en ætti að gera betri skil. Hlutir eins og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna, friðargæsla, mannúðarmál, neyðaraðstoð og Evrópumál liggja óbætt hjá garði. Málefni Sameinuðu þjóðanna tel ég fyllilega einnar messu virði á þingi. Fjalla mætti um svæðisbundna samvinnu og stofnanir, utanríkisviðskipti og ekki síður hafréttarmál. Svo má ekki gleyma umhverfismálum og auðlindamálum. Þróunarsamvinna er mjög mikilvægur málaflokkur sem litla umfjöllun hefur fengið.

Ég ítreka að það er alveg þess virði að hið háa Alþingi verji meiri tíma í slíkar umræður og að þessi skýrsla verði tekin til umræðu á þinginu eins og aðrar skýrslur, t.d. skýrslur alþjóðanefnda sem voru til umræðu um daginn. Þessi skýrsla er að mínu viti margfalt mikilvægari en skýrslur alþjóðanefnda þingsins, án þess að ég hallmæli þeim ágætu nefndum á neinn hátt.

Í skýrslunni um utanríkismál er einfaldlega mikið af upplýsingum og gögnum, jafnvel hlutum sem við höfum ekki fjallað um áður, jafnvel það hvernig ríkisstjórnin lítur á ýmsa mikilvæga hluti í utanríkismálunum. Sínum augum lítur hver silfrið, eins og þar segir. Það væri fyllilega þess virði fyrir okkur Íslendinga að fara í vandaða umræðu um þessa annars ágætu skýrslu hæstv. utanrrh. Hún er að mörgu leyti merkileg og athyglisverð þótt ég sé að sjálfsögðu ekki sammála öllu því sem í henni er.