Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:01:24 (6212)

2004-04-06 20:01:24# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Eitt af því sem kom til umræðu fyrr í dag var hlýnun lofthjúpsins. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, tilvonandi umhverfisráðherra, á sæti í Norðurskautsráðinu fyrir hönd Alþingis ásamt tveimur öðrum alþingismönnum. Það hefur tvisvar sinnum gerst að hv. þm. hafi flutt eins konar skýrslu af því sem er í umræðu innan þess ráðs. Eitt hið mikilvægasta sem Norðurskautsráðið hefur látið til sín taka er einmitt hlýnun lofthjúpsins. Ég tel að vandamál sem því tengjast og viðbrögð við því verði einn af þeim öxlum sem alþjóðleg stjórnmál muni snúast um á næstu áratugum.

Ég tel að mannkynið og jarðkringlan hafi sjaldan, frá því sögur hófust, staðið frammi fyrir jafnalvarlegum vandamálum og þeim sem tengjast hlýnun lofthjúpsins. Það var því ákaflega mikils virði að heyra hv. þm. lýsa þeirri vinnu sem fer fram innan Norðurskautsráðsins í tengslum við þetta vandamál. Þar hafa verið gerðar þrjár skýrslur. Ein skýrslan, sem er hve þyngst á metum, er unnin af, að ég held, virtustu vísindamönnum sem tengjast þessari fræðigrein. Hún fjallar um stöðuna að því er varðar hlýnun lofthjúpsins. Hv. þm. greindi sannferðuglega frá því að staðan er mun alvarlegri en menn höfðu átt von á. Til skamms tíma voru menn ekki einu sinni sannfærðir um að þetta vandamál væri fyrir hendi. Hv. þm. greindi frá því að hlýnun lofthjúpsins væri tvöfalt hraðari en menn höfðu talið. Þetta er mjög alvarlegt.

Önnur skýrsla sem Norðurskautsráðið hefur látið semja er eins konar almenningsútgáfa á þessari stóru skýrslu. Hana á að senda frá ráðinu til þess að færa almenningi heim sanninn um nauðsyn þess að grípa til viðbragða.

Þriðja skýrslan er ekki síður mikilvægari en hin stóra og svarta. Hún hefur að geyma tillögur um úrbætur.

Það sem mér fannst alvarlegt í máli hv. þm. er að hún greindi frá því að fulltrúar Bandaríkjanna, sem eiga sæti í Norðurskautsráðinu, hefðu beitt pólitísku afli sínu til þess að kæfa þessa skýrslu. Það þykja mér alvarleg tíðindi, frú forseti. Mér þykja það ekki síður alvarleg tíðindi að hæstv. utanrrh. viti ekki af þessu. Þó kom fram í máli hv. þm. að uppskátt hafi orðið um þessi tíðindi skömmu eftir áramót. Þá spyr ég: Hvar hafa hæstv. utanrrh. og hans menn verið meðan svo alvarleg þróun er í gangi? Þetta er mál sem þyrfti að ræða og verður auðvitað rætt í sölum þingsins. En í ljósi þess að hæstv. utanrrh. hefur í dag sagt að hann viti ekkert af málinu þá ætla ég ekki að óska eftir skýringum hans á því. Hins vegar er mjög alvarlegt þegar fulltrúar heimsveldis eins og Bandaríkjanna grípa til ráða af þessu tagi.

Ég tengi það, frú forseti, við þá staðreynd að fregnir hafa borist af því að þeir sem stýra kosningabaráttu Georges Bush, forseta Bandaríkjanna, hafi orðið uppvísir að því að dreifa fölskum upplýsingum til þeirra sem koma að kosningabaráttu forsetans víðs vegar um Bandaríkin í því skyni að gera þeim kleift að svara þeim staðhæfingum að þarna sé um alvarlegt vandamál að ræða. Ég tel að þetta þurfi að ræða og ganga þurfi eftir því við hæstv. utanrrh. og spyr: Hver eru viðbrögð íslenska ríkisins við þessu? Ég spyr sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar eru ein þeirra þjóða sem gæti orðið einna illilegast úti í þessari þróun. Einnig má spyrja hvernig stendur á því að hæstv. utanrrh. veit ekki af þessu máli. Síðan er það annað sem að okkur snýr á þinginu, að velta því fyrir okkur hvernig það má vera að fulltrúar þingsins hafi ekki gert viðvart um þetta.

Frú forseti. Ég tel ákaflega erfitt og hættulegt af hæstv. utanrrh. að bera saman og leggja að jöfnu í fyrsta lagi loftárásir á Kosovo, í öðru lagi stríðið í Afganistan og í þriðja lagi árásina á Írak.

Í Kosovo stóð alþjóðasamfélagið frammi fyrir því að dráp voru byrjuð og skipulegar nauðganir á konum. Átök voru hafin og þjóðernishreinsun í gangi. Við slíkar aðstæður urðu menn annað hvort að horfa upp á harmleikinn eða grípa til aðgerða. Það var ekki hægt að bíða og staðreyndirnar lágu á borðunum. Á grundvelli þeirra staðreynda tóku menn ákvörðun. Ég tel að ríkisstjórnin hafi þá tekið rétta ákvörðun og Samf. studdi það á sínum tíma. Auðvitað var það álitamál og áhorfsmál hvort það var rétt niðurstaða. Ég tel, í ljósi eftirleiksins, að svo hafi verið.

Átökin í Afganistan voru partur af eftirleik árásarinnar á turnana tvo í New York. Þá lágu fyrir þær einföldu staðreyndir að alþjóðleg hryðjuverkasamtök, sem Bandaríkjastjórn og fylgifiskar þeirra höfðu að vísu ekki gætt nægilega að eins og nú er að koma í ljós, höfðu lýst ábyrgð á þeim hryðjuverkum á hendur sér. Það lá jafnframt fyrir að bækistöðvar þeirra voru í Afganistan. Það var því skiljanlegt og réttlætanlegt að grípa til aðgerða til þess að uppræta þau hermdarverkasamtök. Ég segi fyrir hönd míns stjórnmálaflokks að við styðjum alla viðleitni, þess vegna beitingu hervalds, ef það er til þess að uppræta skipulögð alþjóðleg hermdarverkasamtök sem ógna með þessum hætti lífi og limum borgaranna.

Um Írak gegnir allt öðru máli. Það má ekki gleyma því hverjar voru orsakir innrásarinnar í Írak og hvað það var sem hæstv. utanrrh. hefur alltaf fært fram til stuðnings afstöðu Íslendinga. Sú innrás snerist um að finna og uppræta gereyðingarvopn. Hún var ekki gerð til að uppræta bækistöðvar hermdarverkamanna, enda lágu ekki fyrir frekar en í dag upplýsingar um að Saddam Hussein og stjórn hans hefðu þjálfað eða skotið skjólshúsi yfir al Kaída. Tilgangurinn var fyrst og fremst að uppræta gereyðingarvopn. Það var hæstv. utanrrh. sem gekk allra manna lengst, a.m.k. um tíma, í þeim málflutningi að nauðsynlegt væri að uppræta vafann sem lék á tilvist þessara vopna með því að veita vopnaeftirlitsmönnunum meiri tíma til að ganga úr skugga um það.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Við vitum öll hver eftirleikurinn er. Þetta var einfaldlega röng ákvörðun. Ég tel að hún sé svartasti bletturinn á ferli ríkisstjórnarinnar.

Málið sem mig langar að fjalla um í seinni hluta ræðu minnar er sú staða sem upp er komin í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun. Ég hef líka áhyggjur af því sem mér finnst vera stefnuleysi íslensku ríkisstjórnarinnar í því efni. Við sjáum teiknin skrifast á vegginn.

Bandaríkjamenn hafa lýst því yfir að þeir vilji draga verulega úr herafla sínum hér á landi. Þeir hafa lýst því yfir að sú ógn sem áður blasti við sé ekki fyrir hendi og hafa sagt það berum orðum að þær breytingar sem þeir vilja koma í kring séu hluti af breyttri stefnu þeirra varðandi það hvernig skuli nálgast alþjóðleg vandamál. Þeir segja fullum fetum að fremur en hafa varanlegar bækistöðvar í löndum eins og Íslandi, þar sem þeir skilja ekki lengur ógn, sé nærtækara og betra að hafa yfir að ráða hreyfanlegum flugsveitum sem staðsettar séu við eða á jaðri átakasvæða. Út af fyrir sig er þetta skiljanleg afstaða af þeirra hálfu. Við sjáum síðan hvað hefur gerst. Talað er um að í gangi séu samningaviðræður við bandarísk stjórnvöld. Ég fullyrði hins vegar að engar slíkar samningaviðræður eru í gangi. Þær viðræður sem nú eru í gangi má í besta falli skilgreina sem samráð. Hæstv. utanrrh. orðaði það svo að það væri beðið eftir Godot, beðið eftir því að Bandaríkjamenn legðu fram sinn skilning og mat á því hvað þyrfti að vera hér á landi sem lágmarks varnarviðbúnaður.

Bandaríkjamenn og sendimenn þeirra segja hins vegar hverjum sem heyra vill af þeim þingmönnum sem sitja í þessum sölum að þeir bíði eftir því að Íslendingar leggi fram sitt mat á hættunni og þörfinni fyrir að svara þeirri hættu. Á meðan þessi sérkennilegi farsi er í gangi, ég vil leyfa mér að kalla þetta farsa, sjáum við að þróunin er hafin. Bandaríkjamenn hafa farið burt með kafbátaleitarvélar sínar. Hæstv. utanrrh. mun hér á eftir segja að allir viti að þær séu að verða úreltar og séu hvort eð er að hverfa úr notkun. En þær voru teknar án þess að hæstv. utanrrh. fengi að vita af því og hann var ekki kátur yfir því í fjölmiðlum til að byrja með. Vél sem notuð var til þess að fylla eldsneyti á björgunarþyrlur er líka farin. Björgunarþyrlurnar fjórar eru farnar að helmingi til. Staðan er þannig að þegar skip, sem var statt 400 mílur úti í hafi, þurfti á aðstoð að halda fyrir nokkrum sólarhringum voru þær tvær björgunarþyrlur sem eftir voru í landinu ekki í nægilega góðu ástandi til að sinna því. Önnur var biluð, hin var í viðhaldi. Þar að auki vantaði vélina til þess að fylla á þær. Jafnframt blasir við að orrustuþoturnar eru komnar nokkuð til aldurs. Þær eru bara fjórar eftir en voru 18 hér á landi þegar kalda stríðið náði hámarki. Það hefur einnig komið fram að þær eru ekki einu sinni væddar vopnum svona alla jafna. Þessar vélar vilja Bandaríkjamenn taka í burtu.

Hver er þá stefna íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu? Ég tel, frú forseti, að við hljótum að skilja að hvernig sem niðurstaðan verður þá verði undanfari hennar alltaf mat á hættunni sem að Íslendingum steðjar og skilgreining á þörf\-unum. Þar með getum við lagt niður fyrir okkur og fyrir þá aðila sem við erum að semja við hvers konar viðbúnaði við þurfum á að halda. Þetta skortir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Ég er ekki í þeim hópi sem heldur því fram að skynsamlegt sé að Íslendingar séu vopnlaus þjóð og án varna. Það er ákaflega billegt finnst mér að halda slíku fram, oft með rómantískum bláum augum, þegar við blasir að við sitjum í skugga mikils valds. Við erum samkvæmt Atlantshafsbandalagssamningnum og tvíhliða samningi við Bandaríkin í skjóli ákveðinnar verndar. Ég tel hins vegar að eins og þróunin er verðum við að gera ráð fyrir því að þurfa með öðrum hætti að sinna stórum hluta af vörnum okkar. Tvennu vil ég sérstaklega koma að, sem mér finnst ekki nægilega skipulega hugsað eða gaumgæft af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar í því sambandi.

Ég er í fyrsta lagi þeirrar skoðunar að fullvalda ríki eins og Ísland þurfi á loftvörnum að halda. Ég vek eftirtekt á því að Bandaríkjamenn telja sig greinilega geta staðið við sinn hluta af skuldbindingum tvíhliða varnarsamningsins án þess að hafa hér varanlega flugsveit eða þotur sem geti sinnt loftvörnum okkar. Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. utanrrh.: Ef svo verður, er hann þá sammála því viðhorfi sem fram hefur komið hjá hæstv. forsrh. að það beri að segja upp þessum tvíhliða samningi?

Í öðru lagi --- vegna þess að tími minn er orðinn fullnaumur ætla ég að fara hratt yfir sögu --- þurfum við líka að sinna því sem lýtur að innra öryggi þjóðarinnar. Ég tel að tvennt þurfum við að skoða sérstaklega. Í fyrsta lagi þarf að meta þá hættu sem kynni að steðja að okkur innan lands ef hermdarverkamenn reyndu að beita valdi til að taka yfir stofnanir og jafnvel hluta af landinu til þess að vekja eftirtekt á sjálfum sér og málstað sínum. Gleymum því ekki að þeir munu í framtíðinni jafnan leita uppi veikasta hlekkinn. Það er ekki síst þess vegna sem við þurfum á vörnunum að halda. Þá spyr ég: Hvernig á að mæta slíkri hættu? Það er ekki hægt að vísa bara til sérsveitar hæstv. dómsmrh. vegna þess að hún datt af himnum ofan, að því er virtist, án nokkurs samhengis við fullgerða áætlun til þess að sinna slíku verki. Af þessu tilefni vil ég nefna að ég sakna umræðu um öryggismál af þessu tagi.

Hitt sem ég vil ræða að lokum er þörf okkar fyrir öryggi á hafinu. Við þurfum að bregðast við með einhverjum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að þann hluta varnanna og öryggisins þurfum við að taka að öllu leyti á okkar herðar. Við þurfum að bæta við þyrluflota okkar, bæta við öflugu varðskipi til sjóbjörgunar og ég spyr hæstv. utanrrh.: Er það svo að aðrar þjóðir gætu komið til samstarfs við okkur um þetta, t.d. varðandi þær flugvélar sem við þyrftum aðgang að til að fylla eldsneyti á þyrlur sem við rækjum sjálf?