Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:16:40 (6213)

2004-04-06 20:16:40# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Vegna hins knappa forms sem ég sem utanrrh. hef til að svara ýmsu því sem hér kemur fram get ég að sjálfsögðu ekki gert því fullnægjandi skil. Þegar ég svaraði hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur þá gat ég það aðeins lítillega. Ég skal gera betur grein fyrir því máli.

Á ráðherrafundi 2002 var ákveðið að leggja fram vísindarannsóknir á loftslagsbreytingum á Norðurslóðum á ráðherrafundi í Reykjavík haustið 2004 þegar formennsku okkar lýkur. Þessi fundur verður 24. nóvember og á þeirri áætlun hefur engin breyting orðið. Einnig er rétt að geta þess að sérstök ráðstefna verður um þessi mál í byrjun nóvember áður en til ráðherrafundarins kemur.

Í starfsáætlun ráðsins er gert ráð fyrir því að fyrir ráðherrana verði líka lagðar tillögur um viðbrögð við loftslagsbreytingunum, þ.e. að niðurstöðurnar fjalla ekki eingöngu um vísindaþáttinn heldur einnig um stefnumörkun.

Á þessu stigi fara fram umræður um það hvernig eigi að tengja þessa tvo þætti saman. Eitt þeirra álitaefna sem eru uppi í þessu sambandi og eru til skoðunar er hversu langt eigi að ganga í þessum efnum og hvort ekki sé réttara að ganga frá hinum vísindalegu niðurstöðum og kynna þær og staðfesta af aðildarríkjunum áður en gengið verður til skoðanaskipta um hina pólitísku stefnumörkun. Af okkar hálfu hefur verið ákveðið að efna til fundar um þessi mál núna síðar í þessum mánuði í Nuuk á Grænlandi þannig að við stefnum að því að uppfylla þau markmið sem við höfðum í upphafi í þessu sambandi.