Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:19:00 (6214)

2004-04-06 20:19:00# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir upplýsti það hér í dag að Bandaríkjastjórn væri að reyna að bæla niður sameiginlegar tillögur Norðurskautsráðsins. Ég tel að það sé alvarlegt mál og það skulum við bara ræða með öðrum hætti síðar þegar hæstv. utanrrh. hefur fengið tóm til þess að kanna þá stöðu. En ég tel að þetta sé atburður sem þarf að skoða ákaflega vel í samskiptasögu ráðsins við Bandaríkin.

Hitt vil ég svo segja að ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra gæfi sér tóm, annaðhvort í þessu andsvari eða í ræðu sinni á eftir, til að svara ýmsum þeim spurningum og álitaefnum sem ég lagði fram varðandi almenna umræðu um öryggismál hér á landi. Mér finnst mjög skorta á að hæstv. ríkisstjórn ræði þetta við þingið og mér finnst skorta á að hún leggi fram stefnu í þessum efnum. Ég tel að það hafi skaðað samningsstöðu okkar gagnvart Bandaríkjunum sem bersýnilega eru farin að skynja það að íslensk stjórnvöld virðast hikandi við að leggja fram hvað þau sjálf telja ásættanlegt í þessari stöðu. Í öllu falli er það skoðun Samf. að Íslendingar eigi í vaxandi mæli að axla ábyrgð og verk sem hingað til hafa ekki að öllu leyti verið á þeirra höndum, eins og t.d. þann þátt sem ég nefndi varðandi eftirlit á höfunum. Þetta varðar frumöryggi þjóðarinnar. Við þurfum að hafa þetta á hreinu.

Ég spyr hæstv. utanrrh. vegna þess að ég veit að eitthvað hljóta menn að hafa rætt um þetta innan ríkisstjórnarinnar. Ég sé það t.d. á þeim upplýsingum sem hefur verið dreift um björgunarstöðina nýju sem er mjög jákvætt skref. Þarna hlýtur að vera einhvers konar áætlunarkerfi í gangi. En hvernig ætla menn að leysa þetta? Því að eitt liggur alveg fyrir og það er að þetta ætla Bandaríkjamenn ekki að gera fyrir okkur í framtíðinni.