Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:26:04 (6217)

2004-04-06 20:26:04# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:26]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil nú ekki sleppa endanum í þessari að mörgu leyti ágætu umræðu um utanríkis- og alþjóðamál sem farið hefur fram á hinu háa Alþingi í dag án þess að koma inn á einn mikilvægan málaflokk sem hefur legið með öllu óbættur hjá garði. Þetta eru að sjálfsögðu hafréttarmálin og hvalveiðar enda er mikilvægi auðlinda hafsins samofið íslenskum utanríkishagsmunum eins og segir í skýrslu hæstv. utanrrh. sem lögð var fyrir þingið í gærkvöldi.

Mig langar til að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. Í ræðu hæstv. utanrrh. kom fram að unnið er nú að greinargerð til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna til að styrkja tilkall okkar Íslendinga til landgrunnsins fyrir utan 200 sjómílur á Reykjaneshryggnum, á Hatton-Rockall svæðinu djúpt suður af Íslandi og í hinni svokölluðu Síldarsmugu sem er alþjóðlega hafsvæðið á milli Íslands, Svalbarða, Noregs og Færeyja.

Það gladdi mig að heyra hæstv. utanrrh. lýsa því hér yfir fyrr í dag að stefnt sé að því að mæla upp landgrunnsvæði Íslands utan 200 mílna og að þessu mikla verkefni eigi að vera lokið eftir um það bil tvö ár. Nú er að sjálfsögðu óljóst hver lending verður í þessu máli. En óttast utanrrh. að miklar deilur rísi við nágrannaþjóðirnar vegna landgrunnsréttinda og þá einkum í Síldarsmugunni og á Hatton-Rockall svæðinu? Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. að óformlegar viðræður fari nú fram um Hatton-Rockall svæðið á milli Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur.

Annað stórmál sem ég reyndar sakna að ekki skuli fá neina umfjöllun, hvorki í skýrslu hæstv. utanrrh. né í ræðu hans hér fyrr í dag, er deila okkar og fleiri við Norðmenn um hið svokallaða fiskverndarsvæði sem þeir ákváðu einhliða umhverfis Svalbarðaeyjaklasann árið 1977. Þetta svæði markast af 200 sjómílna lögsögu út frá grunnlínupunktum við þennan mikla eyjaklasa íshafsins, þ.e. Svalbarða. Á þessu gríðarlega hafsvæði sem er alls 830 þús. ferkílómetrar hafa Norðmenn tekið sér einhliða rétt til að stýra öllum fiskveiðum, úthluta þar einhliða kvótum eða sóknardögum til annarra ríkja og þykjast fara þar með lögsöguvald gegn erlendum skipum vegna meintra fiskveiðibrota þessara skipa. Nýleg reynsla okkar Íslendinga af einmitt því síðastnefnda virðist benda til þess að þeir telji sig ekki vera þar á mjög traustum ís, ef svo má segja. Þar á ég að sjálfsögðu við þegar þeir stóðu íslenskt skip, að því er virtist, að verki við alvarleg fiskveiðibrot við síldveiðar í júlí í fyrra á þessu svæði.

Herra forseti. Þarna eru mjög gjöful fiskimið og sennilega einnig olía og gas í hafsbotninum. Við Íslendingar höfum lengi efast um réttmæti þessa hjá Norðmönnum, þ.e. að þeir geti lýst yfir þessum yfirráðum á hinu svokallaða fiskverndarsvæði. Yfirráð Norðmanna á Svalbarða --- þá er ég að tala um fasta landið og út að fjórum mílum --- byggjast á hinum svokallaða Svalbarðasáttmála sem er alþjóðasamningur sem var gerður í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þar voru að verki 40 ríki. Þetta var árið 1920. Síðan þá hafa fleiri ríki skrifað undir þennan sáttmála og við Íslendingar gerðum það um miðbik síðasta áratugar. Einhliða yfirlýsing Norðmanna um að þeir áskildu sér rétt á þessu svokallaða fiskverndarsvæði er af öllum ríkjum sem eru aðilar að Svalbarðasáttmálanum talin brjóta í bága við einmitt þennan sáttmála frá 1920. Við Íslendingar erum þar í hópi.

[20:30]

Ég tel að hér sé stórmál á ferðinni því eins og ég sagði áðan eru þarna gríðarlegar auðlindir, bæði fiskstofnar og olía og sennilega einnig gas.

Við þekkjum svo sem óbilgirni Norðmanna í hafréttarmálum, ef óbilgirni skal kalla, það má kannski frekar kalla það dugnað og klókindi. Þeir hafa á margan hátt spilað vel úr sínum spilum, t.d. við Jan Mayen og einnig á Svalbarða og við fleiri tækifæri og hafa náð að koma ár sinni mjög vel fyrir borð í Norðurhöfum. Og það er ekki að sjá að við Íslendingar fáum neinn hljómgrunn hjá Norðmönnum þegar við reynum að benda á að við teljum að við eigum réttindi t.d. á hinu svokallaða Svalbarðasvæði. Það er margoft búið að reyna það en hefur ekkert gengið og hæstv. utanrrh. veit eflaust miklu meira um það en ég.

Gunnar G. Schram prófessor tók saman fyrir örfáum árum litla grein sem er á margan hátt ansi góð og athyglisverð og birtist í afmælisriti Þórs Vilhjálmssonar þegar hann varð sjötugur þann 9. júní árið 2000. Grein þessi heitir Deilur um fiskverndarsvæði við Svalbarða. Gunnar bendir á að Íslendingar hafi í raun og veru ekki nema fjóra valkosti til að ná lendingu í þessu máli og fá niðurstöðu í því. Þeir eru að málinu verði skotið til Alþjóðahafréttardómstólsins, Alþjóðadómstólsins í Haag, gerðardóms sem væri skipaður samkvæmt VII. viðauka Svalbarðasáttmálans eða að skipaður yrði sérstakur gerðardómur um málið.

Mig langar einmitt til að spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort það hafi verið hugleitt af ríkisstjórninni að reyna að fá einhvern botn í þetta mál. Ég minni á að Norðurlandaþjóðir hafa deilt um hafréttarmál í Norðurhöfum. Danir skutu deilum við Norðmenn um Jan Mayen-svæðið og hvernig draga ætti línu á milli Jan Mayen og Grænlands til Alþjóðadómstólsins. Það var deila sem átti rætur að rekja allt til ársins 1930, ef ég man rétt, og niðurstaða fékkst í því máli árið 1993 hjá Alþjóðadómstólnum í Haag.

Herra forseti. Ég sakna mjög skýrari stefnu íslenskra stjórnvalda í málinu og ég tel að menn eigi að tala skýrt og tæpitungulaust við Norðmenn í slíkum málum. Hæstv. utanrrh., sem bráðum verður forsrh. ef guð og góðar vættir og Sjálfstfl. lofa, ætti að mér finnst að geta sagt okkur svolítið meira um hvaða skoðanir hann hefur í málinu.

Annað mál, herra forseti, sem ég vil aðeins koma inn á eru hvalveiðarnar. Utanrrh. segir í ræðu sinni að aðild Íslands að Alþjóðhvalveiðiráðinu styrki stöðu Íslands í hvalveiðimálum, bæði frá þjóðréttarlegu og pólitísku sjónarmiði. Gott og vel. En er eitthvað að frétta af því máli? Nú er komið vor, stendur til að leyfa hvalveiðar á sumri komanda? Stendur hugsanlega til að leyfa veiðar á stórhvölum? Hyggst verðandi forsrh. Íslands beita sér fyrir því að stórhvalaveiðar verði hafnar að nýju? Þetta eru svona aðalmálin.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að ég hlakka til að sjá boðaða skýrslu sem utanrrn. virðist vera með í vinnslu varðandi hina svokölluðu norðaustursiglingaleið sem vonandi opnast ef sjór heldur áfram að hlýna og ísinn hverfur og menn geti þá jafnvel hafið kaupskipasiglingar til Asíu í gegnum Norður-Atlantshaf, annaðhvort í gegnum Beringssund eða í gegnum Hvítahaf norður fyrir víðerni Rússlands og Síberíu og áfram þá leið. Sú skýrsla er að mér skilst boðuð í haust og það verður afar fróðlegt að sjá hana.