Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 20:34:58 (6218)

2004-04-06 20:34:58# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[20:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að unnið er að skýrslu um landgrunnsmálið. Hvort deilur verða um það mál milli ríkja er ekkert hægt að segja um á þessu stigi. Það sem er mikilvægast fyrir okkur er að safna gögnum og mæla þetta mjög nákvæmlega. Lögð var fram áætlun um það fyrir tveimur eða þremur árum og málið kynnt bæði á Alþingi og í utanrmn. Það er mikill kostnaður sem fylgir þessu og rannsóknirnar kosta nokkur hundruð milljónir. En síðan á grundvelli allra þeirra rannsókna og þeirrar skýrslu sem lögð verður fram munum við styrkja málstað okkar að mínu mati, og ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða í hagsmunagæslu okkar í hafréttarmálum og ekki bara að því er varðar fiskstofna heldur hugsanlegar auðlindir á landgrunninu öllu og einnig á Hatton Rockall-svæðinu.

Að því er varðar fiskverndarsvæðið Svalbarða er rétt að taka fram að ég hef verið þeirrar skoðunar að reyna ætti að ná niðurstöðu við Norðmenn og aðra með samningum. Hins vegar er alveg ljóst að þeir hafa t.d. engan rétt til þess á grundvelli Svalbarðasamningsins að takmarka síldveiðar okkar við Svalbarða og við höfum mótmælt því í hvert einasta skipti. Við teljum að það sé andstætt sáttmálanum, og það liggur alveg ljóst fyrir að ef Norðmenn ætla sér að fara út í ólögmætar aðgerðir á þessu svæði mun það hafa afleiðingar.