Þjónusta við varnarliðið

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:46:16 (6237)

2004-04-14 13:46:16# 130. lþ. 96.1 fundur 743. mál: #A þjónusta við varnarliðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör sem hér komu fram og eins þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Það kom mér reyndar ekki á óvart að hæstv. ráðherra skyldi fyrtast við það að spurt væri um varnarliðið. Það hefur verið venja hans. Þegar ég kem upp og spyr eitthvað um þau málefni sem tengjast varnarliðinu er því yfirleitt alltaf svarað á sama hátt og með sama þjóstinum.

Það er ekkert undarlegt þó að ég segi að mér þyki stjórnvöld ónæm fyrir ástandinu eins og það er. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eru búnir að reyna núna til margra mánaða að ná fundi hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. til að eiga við þá orðastað um það hvað sé í gangi uppi á flugvelli, hvers sé þar að vænta og hvort stjórnvöld séu á einhvern hátt að bregðast við því ástandi sem hugsanlega gæti þar skapast. Og við fáum ekki fund. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum fá ekki fund með hæstv. ráðherrum til að ræða þetta vegna þess að það er ekkert að frétta.

Í svari sem ég fékk um daginn frá hæstv. ráðherra varðandi fjölda erlendra borgara og hermanna á Keflavíkurflugvelli sagðist hann ekki geta svarað því hvað væri fram undan fyrr en hann lyki viðræðum við bandarísk stjórnvöld. Síðan kemur fram í skýrslu hans að þessar viðræður eru í raun og veru ekki komnar í gang. Miðað við þá tilfinningu sem við höfum þarna suður frá fyrir verktakamarkaðnum og því magni sem varnarliðið kaupir af þjónustu og þær upplýsingar sem hér hafa komið fram hlýtur næsta skoðun og næsta spurning að vera um það hvernig verktakamarkaðurinn hefur breyst, hve mikið af þessum störfum hafi í raun og veru flust frá Suðurnesjum. Það hlýtur að vera lítill vandi að sjá það vegna þess að varnarliðið hlýtur, eins og aðrir atvinnurekendur á Íslandi, að þurfa að skila verktakamiðum og við hljótum þá að geta séð hvernig þróunin hefur verið þar.