Búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 13:56:32 (6241)

2004-04-14 13:56:32# 130. lþ. 96.2 fundur 744. mál: #A búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að spyrja þessarar spurningar hér sem ég tel fulla nauðsyn á. Það er eðlilegt að spurt sé þar sem fréttir um það hvað er í gangi uppi á flugvelli varðandi flugvélaflotann hafa oft og tíðum verið á reiki. Mjög gott er að leita réttra upplýsinga og fá þær hér.

Þyrlurnar hafa misst eldsneytisvélina sem gat fylgt þeim á haf út og þar af leiðandi hefur langdrægni þessara björgunartækja minnkað verulega frá því sem var. Öryggi sjófarenda á fjarlægum miðum er þar af leiðandi ekki það sama og var meðan eldsneytisvélin var hér. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi heyrt eins og ég að viðbragðstími þyrlnanna hjá varnarliðinu hafi lengst verulega og jafnvel þegar óskað hefur verið eftir því að njóta þeirrar þjónustu hafi verið sagt frá því að það tæki allt upp í 45 mínútur að gera þær klárar.