Búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:00:18 (6244)

2004-04-14 14:00:18# 130. lþ. 96.2 fundur 744. mál: #A búnaður og húsnæði á varnarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru í þeim dúr sem ég átti von á. Það er augljóst mál að það eru miklar sviptingar frá einum tíma til annars í umfangi tækja og tóla af hálfu varnarliðsins suður á Keflavíkurflugvelli. Ég vil þess vegna í því ljósi spyrja hæstv. ráðherra hvort íslenskum yfirvöldum og þá ráðuneytinu sé um það tilkynnt frá einum tíma til annars hvernig hagað er fjölda þessara véla og ferðum þeirra að öðru leyti. Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að þær fréttir berist ekki fyrr en seint og um síðir og stundum sé ráðuneytið seinast allra til að frétta af því þegar vélar hafa farið eða eru komnar aftur.

Í annan stað vil ég árétta spurningu mína sem auðvitað hlýtur að vera lykilspurning. Ef litið er til meðaltalsumfangsins eins og hæstv. ráðherra lýsti því áðan, metur hann það sem svo að það séu trúverðugar varnir? Er með öðrum orðum ástandið eins og það er í dag sá lágmarksviðbúnaður sem íslensk yfirvöld miða við í viðræðum sem fram hafa farið og vonandi eiga eftir að fara fram við bandarísk yfirvöld? Eru hugsanlega einhver afsláttarkjör á því, einhver önnur samsetning sem íslensk yfirvöld hafa skilgreint með sjálfum sér og geta upplýst hér á hinu háa Alþingi?

Ég vil árétta það, herra forseti, í ljósi umræðu um þessi mál í dag og raunar á umliðnum vikum að það er engin meinbægni af minni hálfu eða Samf. þegar við sýnum þessum málum áhuga. Okkur er fullkomin alvara í því að reyna að tryggja með öllum tiltækum ráðum að hér séu lágmarksvarnir til staðar og við höfum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar boðið ríkisstjórninni upp á samstarf í þeim efnum, samstarf sem hefur verið hafnað.