Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:05:02 (6246)

2004-04-14 14:05:02# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. utanrrh. um stuðning við markaðssetningu á dilkakjöti erlendis af hálfu ráðuneytisins:

1. Er ljóst hvernig því fé verður ráðstafað sem ráðuneytinu var veitt sérstaklega í fjárlögum fyrir árið 2004 ,,til að styðja við markaðssetningu dilkakjöts erlendis``? --- Það voru 10 millj. kr.

2. Eru fyrirhugaðar sérstakar mannaráðningar í þessu skyni?

Á undanförnum árum hefur verið unnið að sérstöku markaðsátaki við sölu á dilkakjöti erlendis. Hefur sá útflutningur farið vaxandi, úr 834 tonnum árið 1999 í um 2.254 tonn árið 2003. Tonnafjöldinn segir þó ekki alla söguna því að aukinn hluti er fluttur út hálf- eða fullunninn. Lögð hefur verið rík áhersla á að koma á samstöðu og samvinnu allra þeirra aðila sem koma að útflutningsmálum til að nýta sem best kraftana og ná sem bestum árangri. Það hefur verið unnið undir forustu markaðsráðs kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur sláturleyfishafa, Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda.

Ríkið hefur komið að stuðningi við markaðsstarfið og ímyndarsköpunina erlendis í gegnum landbrn. í sérstöku átaksverkefni sem kallað hefur verið ,,Áform`` sem fengið hefur 25 millj. kr. á ári á fjárlögum. Einungis hluti af því fjármagni fer til stuðnings markaðssetningar dilkakjöts en einnig er unnið að öflun markaða fyrir eldisfisk, ullarvöru og nú síðast skyrs og fleiri verkefni eru á vegum átaksins.

Að sjálfsögðu er innanlandsmarkaðurinn okkur mikilvægastur og því tel ég að þar megi margt mun betur gera, ekki síst gagnvart ferðamönnum sem koma til landsins. Engu að síður er útflutningur dilkakjöts mikilvægur. Hann skapar atvinnu, gjaldeyri og tryggir öruggt framboð innan lands.

Á fjárlögum þessa árs eru 10 millj. kr. veittar til utanrrn. til aðstoðar við markaðsetningu á dilkakjöti erlendis. Þetta var nokkuð umdeilt á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga og forsvarsmönnum bænda fannst óeðlilegt að veita öðru ráðuneyti fjármagn til sömu verkefna og landbrn. nú fer með en setti sig að sjálfsögðu ekki upp á móti því að fá aukið fjármagn til stuðnings við markaðsstarf. Þeir lögðu samt eindregna áherslu á að fjármagnið færi í sama feril og annað markaðssetningarstarf.

Á heimasíðu sinni 30. mars sl. brigslar Páll Magnússon, aðstoðarmaður ráðherra, þeim sem standa að útflutningi dilkakjöts um blekkingar og að gefa villandi upplýsingar, líkir útflutningi lambakjöts við nýju fötin keisarans. Hæstv. iðnrh. fer álíka háðulegum orðum um skoðun sína á útflutningi dilkakjöts í pistli sínum á þorra nýverið. Samtímis þessum harkalegu árásum kom í hádegisfréttum útvarps 30. mars sl. eftirfarandi frétt:

,,Utanríkisráðuneytið ákveður á næstunni hvernig verja skuli 10 milljónum króna sem fjárlög gera ráð fyrir að ráðuneytið verji til sölu á lambakjöti erlendis. Rætt hefur verið um að ráða Theodór Bjarnason, fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar, sem sölumann lambakjöts í Kaupmannahöfn. Hann er á biðlaunum sem forstjóri Byggðastofnunar.`` (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að hæstv. utanrrh. svari þessu.