Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:14:07 (6250)

2004-04-14 14:14:07# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Sauðfjárframleiðslunni er mikill vandi á höndum. Gera þarf allt sem við kunnum og getum til þess að markaðssetja þær afurðir. Unnið hefur verið að því bæði á Bandaríkjamarkaði og einnig hefur útflutningur til Ítalíu verið að aukast. Við höfum einnig nokkra markaði á Norðurlöndum og í Færeyjum. Ég tel að við eigum að vinna að þessum málum áfram. Hvort það er rétta lausnin að ráða á sérstakan markaðsfulltrúa á vegum utanrrn. dreg ég mjög í efa, en hefði talið að eðlilegt væri að styrkja og efla þá markaðssetningu sem unnið hefur verið að hérlendis, m.a. af Bændasamtökunum á undanförnum árum, og sú lausn sé vænleg að auka það samstarf. En hvort gera á það með því að ráða sérstakan starfsmann dreg ég mjög í efa. Það tekur tíma að vinna að markaðssetningu dilkakjöts eins og annarri vöru og vonandi ber þetta meiri árangur en verið hefur.