Markaðssetning dilkakjöts erlendis

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:16:33 (6252)

2004-04-14 14:16:33# 130. lþ. 96.3 fundur 860. mál: #A markaðssetning dilkakjöts erlendis# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þá umræðu sem hefur átt sér stað. Umræðan færir einmitt heim sanninn um hversu mikilvægt er að þeir sem að þessum málum koma komi fram af trúverðugleika og að ráðherrar eða aðrir áhrifamenn sem um málin véla séu ekki með yfirlýsingar út og suður sem verða engum öðrum til tjóns en sauðfjárbændum og þessum útflutningi.

Ég vil ítreka að það er mjög alvarlegt þegar einstakir ráðherrar eins og hæstv. iðnrh. og aðstoðarmaður hennar og forustumenn í stjórnmálum tala niðrandi um atvinnuveg eins fram hefur komið.

Það er staðreynd að verið er að vinna gott starf í útflutningsmálum lambakjöts þó þar megi sjálfsagt enn betur gera. Menn geta deilt um markaðsstarf og útflutning á málefnalegum grunni en ekki með einhverjum sleggjudómum og ótímabærum yfirlýsingum. Sundrung og niðurboð milli innlendra aðila á mörkuðum er hættulegur þessum útflutningi sem öðrum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að aðkoma hæstv. utanrrh. verði með þeim hætti að hún stuðli frekar að og styrki þá einingu sem verið er að byggja upp að baki útflutningi á dilkakjöti og utanrrh. átti sig á að þessi mál eru a.m.k. enn á forræði landbrh. og að hæstv. utanrrh. beiti afli sínu sem formaður flokksins og setjist á samráðherra sína þannig að þeir séu ekki að skaða atvinnuveginn með ótímabærum yfirlýsingum. Varðandi 10 millj. kr. tel ég að best sé að ráðstafa þeim í nánu samráði og samkvæmt tillögum þeirra aðila sem vinna að markaðsmálum og framleiðslu í sauðfjárrækt. Ég dreg ekki í efa mikla vinnu og mikilvægi aðkomu utanrrn. en hún á bara að vera hluti af heildarvinnunni en ekki eitthvert nýtt spark út í loftið.