Starfsumhverfi dagmæðra

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:32:49 (6258)

2004-04-14 14:32:49# 130. lþ. 96.5 fundur 731. mál: #A starfsumhverfi dagmæðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir mínar fyrir umræðuna og vegna framkomins álits hv. þm. Jóns Gunnarssonar varðandi aðkomu sveitarfélaganna að málinu hef ég, eins og kom fram í svari mínu áðan, óskað eftir því að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni fulltrúa sinn í þann starfshóp sem ég hef hér rakið að settur verður á fót. Auk þess hefur Samband sveitarfélaga fengið í hendur drög að þessari reglugerð til umfjöllunar og ég vænti þess að sjónarmið sveitarfélaganna komi fram í þeirri vinnu en það er ljóst að frekari framþróun í þessum efnum getur ráðist af afstöðu sveitarfélaganna. Það eru þau sem styrkja þessa starfsemi fjárhagslega og þau hafa hið formlega eftirlitshlutverk á sínum herðum. Auk þess er starfsemi sem þessi liður í heildarsamhengi í hverju sveitarfélagi í þjónustu við börn á þessum aldri.

Ég vil einnig geta þess, hæstv. forseti, að fulltrúar dagmæðra komu á minn fund og reifuðu sjónarmið sín í málinu. Fulltrúar þeirra munu, eins og ég gat um áðan, koma að þeirri vinnu sem fram undan er og ég vænti þess að þar muni skapast vettvangur til skoðanaskipta.

Ég vil, hæstv. forseti, ítreka að ekkert hefur verið ákveðið í þessum efnum en það upplegg sem fram kemur í reglugerðardrögunum sem send hafa verið til fulltrúa dagmæðra, Sambands sveitarfélaga og fleiri til umsagnar, þar sem reifaðar eru hugmyndir um fækkun barnanna úr fimm í fjögur, er fyrst og fremst sett fram með hagsmuni barnanna í huga. Það er engin ástæða, hæstv. forseti, til að draga nokkra fjöður yfir það. Hins vegar tel ég ástæðu til þess að fara vel yfir málið og við munum gera það á sumri komanda og vonandi komast að sameiginlegri niðurstöðu áður en haust rennur upp.