Þjálfun fjölfatlaðra barna

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:34:48 (6259)

2004-04-14 14:34:48# 130. lþ. 96.4 fundur 251. mál: #A þjálfun fjölfatlaðra barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Spurningar mína til hæstv. félmrh. eru tvær og eru þær svohljóðandi:

1. Hvernig er háttað eftirlitsskyldu ráðuneytisins með fjölfötluðum börnum til sex ára aldurs með sérstakri skírskotun til almennrar þjálfunar, talkennslu, iðju- og sjúkraþjálfunar?

2. Er aðhald og eftirlit samræmt þegar um marga þjónustuaðila er að ræða?

Nú minnist ég þess að í upphafi ráðherraferils síns sagði hæstv. núv. félmrh. að hann vildi leggja sig sérstaklega fram um að auka aðstoð við fatlaða. Ég efast ekkert um góðan hug hans í því máli en eitt má hann vita að honum verður haldið við efnið. Sömuleiðis geri ég mér grein fyrir því að innan velferðarþjónustunnar er starfandi fólk sem er allt af vilja gert til þess að bæta þjónustuna þar sem þörf er á slíku. Staðreyndin er engu að síður sú að lögboðnum skyldum ríkis og sveitarfélaga er ekki fullnægt gagnvart fötluðu fólki og þá ekki heldur fötluðum börnum í leikskóla. Í lögum um málefni fatlaðra er skýrt kveðið á um að félmrh. fari með yfirstjórn málefna fatlaðra og eigi ráðuneyti hans að annast stefnumótun, gerð heildaráætlana og eftirlit með framkvæmd laganna. Varðandi leikskólabörnin er vísað til réttinda þeirra í 19. gr. laganna en þar segir, með leyfi forseta:

,,Fötluð börn skulu eiga rétt til leikskóladvalar á vegum sveitarfélaga og skal veita hana á almennum leikskólum með nauðsynlegri stuðningsþjónustu eða á sérhæfðum deildum, sbr. lög um leikskóla.``

Í lögum um leikskóla er þjónustan skilgreind í 15. gr. þeirra laga og reglugerð sem fylgir þeim lögum kveður mjög skýrt á um að fötluð börn eigi rétt á aðstoð þroskaþjálfa, iðjuþjálfa og annarra starfsmanna með sérþekkingu sem nýtist við uppeldi, umönnun og þjálfun. Í þeirri reglugerð er einnig kveðið á um það að sú þjónusta skuli fara fram, eftir því sem kostur er, innan veggja leikskólans.

Ég tók þetta mál upp fyrir rúmu ári síðan. Þá var annar félagsmálaráðherra sem tók allvel í málið en sagði að ýmsar brotalamir væru á því, tryggja þyrfti heildstæð vinnubrögð og samvinnu ólíkra stétta í þjónustunni. Það hefur að mínum dómi ekki tekist. Hann sagði einnig undir lok svars við fyrirspurnum mínum að endurskoða þyrfti hvort ekki væri unnt að veita þá þjónustu sem ég hef hér vikið að meira inni á leikskólunum en gert hefði verið. Það hefur örlítið þokast í þá átt, ég viðurkenni það, en landslögum hvað þetta snertir er ekki fullnægt. Það er staðreyndin. Hvað ætlar hæstv. félmrh. að grípa til bragðs til þess að tryggja að landslögum sé fullnægt?