Þjálfun fjölfatlaðra barna

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:44:17 (6262)

2004-04-14 14:44:17# 130. lþ. 96.4 fundur 251. mál: #A þjálfun fjölfatlaðra barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem hv. þm. bendir hér á að eftirlit með framkvæmd laganna er á herðum félmrn. og síst vil ég skjóta mér undan þeirri ábyrgð. Hins vegar er það svo að það er á verksviði sveitarfélaganna, með því að leikskólarnir eru á þeirra sviði, að veita þá þjónustu sem hér er um rætt og var nú m.a. gengið frá samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um það í lok árs 1996.

Ég tek hins vegar þessum ábendingum hv. þm. vel og mér finnst full ástæða til að fara yfir málið. Eins og við höfum báðir rakið í máli okkar, ég og hv. þm., hefur heldur þokast í rétta átt. Betur má ef duga skal. Og vissulega hlýtur það að vera eitt af forgangsverkefnum okkar að búa svo um hnútana að foreldrar fatlaðra barna þurfi ekki að flækja sig í flóknu neti kerfisins, nóg er víst samt.