Ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:56:03 (6267)

2004-04-14 14:56:03# 130. lþ. 96.6 fundur 604. mál: #A ráðgjafarnefnd við Hafrannsóknastofnun# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kom í svari hæstv. sjútvrh. að hafinn er undirbúningur að því að skipa ráðgjafarnefnd fyrir Hafrannsóknastofnun og er þess að vænta að honum ljúki fljótlega þannig að ráðgjafarnefnd verði komin til starfa innan skamms tíma.

Ég skal ekki segja um það hvort það fyrirkomulag sem er í lögunum sé endilega það besta. Það má vel vera að það fyrirkomulag sem ráðherra hefur stuðst við um ráðgjafarhópa eða starfshópa geti verið ágætt á sína vísu, en ég hallast þó að því að skynsamlegt sé að hafa ráðgjafarnefnd við stofnunina. Hún er nokkuð fjölmenn. Margir aðilar koma þar að og geta haft áhrif á verkefnaval og annað sem tengist starfsemi stofnunarinnar.

Herra forseti. Ef ráðherrar telja nauðsynlegt að breyta því sem er í lögum, það er greinilegt að það hefur orðið áherslubreyting í þessu við ríkisstjórnarskiptin 1991, og koma hlutum fyrir á annan veg en mælt er fyrir um í lögunum er nauðsynlegt að þeir snúi sér til þingsins með lagabreytingar eða frv. þar um. Það má ekki vera þannig, herra forseti, að ráðherrar framkvæmi ekki skýlaus ákvæði laganna vegna þess að þeir eru ekki endilega sammála þeim.

Ég minni á annað nýlegt dæmi sem var rætt í þingsölum fyrir skömmu sem varðar skipun stjórnar við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Það er skýlaust ákvæði í þeim lögum að skipa skuli stjórn við þá stofnun, en umboð stjórnarinnar sem síðast var skipuð rann út í nóvember 2002 og önnur hefur ekki verið skipuð. Ráðherrar verða auðvitað, herra forseti, að fara að lögum.