Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:14:42 (6276)

2004-04-14 15:14:42# 130. lþ. 96.8 fundur 253. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég ber upp tvær spurningar til hæstv. menntmrh. og eru þær svohljóðandi:

1. Hvernig hefur verið háttað eftirliti ráðuneytisins með framkvæmd laga um leikskóla, nr. 78/1994, með sérstöku tilliti til 15. gr. laganna þar sem kveðið er á um rétt fatlaðra barna til aðstoðar og þjálfunar innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga?

2. Hefur þessu lagaákvæði verið fullnægt?

Til glöggvunar segir orðrétt í 15. gr. laga um leikskóla, með leyfi forseta:

,,Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.``

Í greinargerð með 15. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Þar er átt við þroskaþjálfa,`` --- það er vísað í hvaða sérfræðinga um er að ræða --- ,,iðjuþjálfa og aðra starfsmenn með sérþekkingu sem nýtist við uppeldi, umönnun og þjálfun.``

Í reglugerð með leikskólalögunum er nánar vikið að framkvæmd laganna. Þar kemur mjög skýrt fram, m.a. í greinargerð með 22. gr., að meginstefnan skuli vera sú að aðstoðin eða þjálfunin fari fram í leikskóla barnsins. Þetta er meginstefnan sem á að framfylgja.

Að mínu mati er ljóst að lagaákvæðinu er ekki fullnægt. Það hefur þokast í rétta átt og ber að sjálfsögðu að þakka það. Þó skulum við fara varlega í að þakka að landslögum sé framfylgt vegna þess að fötluð börn eiga að sjálfsögðu, eins og aðrir þegnar landsins, rétt á því að njóta lögboðinnar þjónustu sem þeim eigi að vera tryggð. Sama gildir um aðstandendur barnanna sem iðulega þurfa að leggja mikið á sig til þess að sinna börnum sínum. Maður undrast stundum hve lítið kerfið eða ýmsir angar þess talast við um lausn á sameiginlegum vanda því eitt sem háir málaflokknum er að hann heyrir undir mörg ráðuneyti og margir aðilar koma að málum og virðist oft skorta á að aðilarnir talist við.