Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:17:57 (6277)

2004-04-14 15:17:57# 130. lþ. 96.8 fundur 253. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Samkvæmt 3. gr. laga um leikskóla fer menntmrn. með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Það gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lögin og reglugerðin mæla fyrir um. Í 6. gr. laganna segir að menntmrh. skuli að fengnum tillögum starfshóps menntmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga setja reglugerð um starfsemi leikskóla.

Það er mikilvægt að hafa í huga að skv. 7. gr. leikskólalaga skal bygging og rekstur leikskóla vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd laganna hver í sínu sveitarfélagi. Samkvæmt lögunum er þeim skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla. Í áðurnefndri reglugerð um starfsemi leikskóla er að finna nánari útfærslu á gæðaeftirliti ráðuneytisins með framkvæmd laganna. Þannig skal menntmrn. láta fara fram mat á a.m.k. einum leikskóla ár hvert. Matinu er ætlað að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga um leikskóla og reglugerðar um leikskóla og aðalnámskrá leikskólanna. Framkvæmd matsins fer fram með þeim hætti að menntmrn. velur leikskóla af handahófi og ræður utanaðkomandi úttektaraðila, yfirleitt tvo í senn, sem hafa menntun og reynslu af leikskólastarfi og gæðastjórnun. Úttektirnar miðast fyrst og fremst við að lagt sé mat á hvort starfsemi leikskólanna sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar og aðalnámskrá eins og áður segir.

Þegar skýrsla úttektaraðila liggur fyrir er hún send sveitarfélögum eða þeim aðila sem úttektin beinist að með bréfi um niðurstöður úttektarinnar og tilmælum um úrbætur eftir því sem við á. Ráðuneytinu ber síðan að fylgja því eftir að brugðist sé við tilmælum þess í kjölfar úttektar. Frá árinu 1998 til ársins 2003 hefur ráðuneytið látið gera úttekt á 12 leikskólum, eða að meðaltali tvær á ári.

Með samningi við Hagstofuna árið 1997 var Hagstofunni falið að afla tölulegra upplýsinga um skólamál. Þar kemur fram m.a. þegar litið er til leikskólastigsins, að frá og með árinu 1998 hefur upplýsinga verið aflað um fjölda barna á leikskólum, fjölda barna eftir aldri og kyni og fjölda barna sem njóta sérstaks stuðnings. Af upplýsingunum sem fyrir liggja um fjölda þeirra barna sem nutu sérstaks stuðnings í leikskólum á árunum 1998--2002 má sjá að á heildina litið hefur hlutfall þeirra hækkað úr 3,7% árið 1998 í 5,5% árið 2002. Öll árin njóta fleiri drengir en stúlkur stuðningsins. Þessar upplýsingar eru jafnframt greindar eftir aldri og búsetu barna og má sjá að þörfin fyrir sérstakan stuðning eykst eftir því sem börnin verða eldri.

Þá vil ég einnig benda á að starfandi er samráðsnefnd um leikskóla sem í eiga sæti fulltrúar frá ráðuneytinu, fulltrúi frá Félagi leikskólakennara, fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eflingu -- stéttarfélagi. Þessi nefnd er umræðu- og samstarfsvettvangur um ýmis fagleg málefni leikskólanna, vettvangur fyrir samráð og umræðu þar sem tekin eru fyrir einstök mál og ýmislegt fleira.

Í fyrirspurn hv. þm. er spurt hvernig eftirliti ráðuneytisins með framkvæmd laganna um leikskóla sé háttað þar sem kveðið er á um rétt fatlaðra barna til aðstoðar og þjálfunar innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga eins og getið er um í 15. gr.

Úttektin sem ráðuneytið hefur látið framkvæma endurspeglar ágætlega hvernig sveitarfélög uppfylla lög og reglugerðir um leikskóla og í tilviki þessarar fyrirspurnar hvernig sveitarfélög standa að þjónustu við fötluð börn. Úttektarskýrslur síðustu ára bera með sér að þau átta viðmið sem ráðuneytið setur úttektaraðilum að vinna út frá ná yfir ákvæði leikskólalaganna, reglugerð um starfsemi leikskóla og einnig markmiða í aðalnámskrá.

Framangreindar úttektir hafa ekki leitt í ljós sérstök vandamál tengd rétti fatlaðra barna til aðstoðar og þjálfunar innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga skv. 15. gr. laganna. Þessu til viðbótar eins og ég hef greint frá heldur Hagstofan einnig til haga tölum um fjölda barna sem njóta þessa sérstaka stuðnings.

Mér er einnig kunnugt um að hv. þm. og fyrirspyrjandi, Ögmundur Jónasson, hafi vakið athygli fyrrverandi menntmrh. á því á síðasta ári að óljóst væri um kostnaðarþætti og ábyrgð á kostnaði vegna framangreindrar 15. gr. leikskólalaganna. Hv. þm. er jafnframt kunnugt um álitsgerð frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem ráðuneytið hefur fengið afrit af, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögum beri ekki að greiða þann kostnað er hljótast kann af því að tryggja fötluðum börnum á leikskólaaldri handleiðslu sérfræðinga innan leikskólans. Leikskólalögin kveða ekki skýrt á um hverjum beri að greiða kostnaðinn sem hlýst af framkvæmd 15. gr. laganna, þ.e. kostnað vegna ferðar sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara og annarra sérfræðinga. Ég fæ ekki séð að eftirlitsheimildir ráðuneytisins um framkvæmd leikskólalaga dugi einar og sér til að ráðuneytið geti kveðið á um greiðsluskyldu vegna umrædds kostnaðar. Á hinn bóginn tel ég nauðsynlegt að þessi þáttur við framkvæmd leikskólalaga verði skoðaður sérstaklega í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga til að viðunandi niðurstaða fáist við þá kostnaðarþætti sem hér er deilt um. Ég mun beita mér sérstaklega fyrir því að svo verði gert. Við megum ekki byggja upp kerfi sem er ekki til fyrir fólkið.