Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:23:06 (6278)

2004-04-14 15:23:06# 130. lþ. 96.8 fundur 253. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er það í verkahring menntmrn. og hæstv. menntmrh. að hafa umsjón með því að farið sé að leikskólalögum. Hæstv. ráðherra vísar m.a. í 6. gr. laganna þar sem kveðið er á um þennan þátt málsins. Vandinn er hins vegar sá að hér hefur ekki að mínum dómi verið staðið að verki á þann hátt að niðurstöður séu í samræmi við veruleikann, það er alla vega mín tilfinning. Ef það er rétt sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að komið hafi í ljós við þessa athugun að ekki sé brotið á einstaklingum, að lögunum sá fullnægt gagnvart öllum einstaklingum, er það ekki rétt. Það hefur hins vegar verið að þokast í rétta átt, það er alveg rétt, en ég get nefnt einstaklinga sem njóta t.d. ekki talþjónustu í leikskólum í samræmi við lög. Það er ekki fyrr en alveg nýlega að sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar hafa verið að færa sig inn á leikskólana til þess að sinna börnunum.

Ég legg til að nú breyti menn svolítið vinnubrögðum. Í stað þess að gera einvörðungu úttekt á leikskólum eða tilteknum fjölda leikskóla verði gerð athugun á fötluðum börnum, hverjum og einum einstakling og spurt verði: Er verið að sinna þörfum þessa einstaklings? Fær hann talkennslu? Fær hann iðjuþjálfun? Fær hann sjúkraþjálfun innan veggja leikskólans eins og lög kveða á um?

Að öðru leyti fagna ég því að hæstv. ráðherra vilji taka af festu á þessum málum. Ég hvet til þess að hún beiti sér fyrir því í samvinnu við hæstv. félmrh. að allir hlutaðeigandi aðilar sem koma að þessum málum setjist yfir lausn þessara mála.