Tónlistar- og ráðstefnuhús

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:30:27 (6281)

2004-04-14 15:30:27# 130. lþ. 96.9 fundur 799. mál: #A tónlistar- og ráðstefnuhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson spyr mig fjögurra spurninga.

,,1. Hvenær og hvar á að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús á höfuðborgarsvæðinu?``

Ég vil geta þess að undirbúningur er í fullum gangi eins og mönnum er fullkunnugt. Fyrirtækið Austurhöfn-TR ehf. var stofnað í apríl á síðasta ári. Tilgangur þess fyrirtækis er að láta byggja tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfn í Reykjavík í tengslum við byggingu og rekstur á hóteli á sama stað. Fyrir dyrum stendur að auglýsa forval vegna einkaframkvæmdarinnar og verða þátttakendur valdir á þessu vori og hefst þá útboðs- og samningaferli. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins lýkur útboðsferlinu með samningum á næsta ári og mun þá framkvæmd á byggingarstað hefjast á seinni hluta árs 2006 og ljúka í árslok 2008. Staðsetningin er við Austurhöfn í Reykjavík.

Síðan spyr hv. þm.: ,,Hvað er áætlað að slíkt hús kosti?``

Samkvæmt áætlunum sem Austurhöfn birti í júní 2003 er áætlað að verja til verkefnisins um 6.400 millj. kr. Ég er núna nýkomin af aðalfundi Austurhafnar-TR ehf. og þar kom fram að líklegt er að þessi tala komi til með að breytast m.a. út af þeim niðurstöðum sem Artec kemur til með að birta eða þeim niðurstöðum sem sá hópur kemur til með að birta fyrir stjórn Austurhafnar-TR ehf. innan tíðar. Þetta er sérfræðingahópur á vegum Austurhafnar sem er að fara yfir tæknimálin í tengslum við tónlistarhúsið. Hótelbyggingin fellur ekki undir þessar 6.400 millj. enda er reiknað með að hún verði fjármögnuð af einkaaðilum. Það er verið að endurmeta þessa áætlun og verður því lokið áður en útboðið sjálft fer fram. Eins og ég gat um áðan getur þessi tala að sjálfsögðu breyst eftir því hvernig tilboðin verða sem berast í einkaframkvæmdina sjálfa.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hve mikið leggur ríkissjóður til þessa verkefnis?``

Samkvæmt samningi ríkisins við Reykjavíkurborg frá apríl 2002 eru framlög ríkisins og Reykjavíkurborgar miðuð við framangreinda áætlun og greiðir ríkið 54% en Reykjavíkurborg 46%.

Að lokum spyr hv. þm.: ,,Er gert ráð fyrir að Íslenska óperan verði í tónlistarhúsinu og hvað mundi það kosta?``

Tónlistarhúsið verður þannig úr garði gert að þar megi flytja allar tegundir tónlistar, þar með talda óperutónlist. Húsið verður þó ekki gert fyrir leiksýningar eða uppfærslur á óperum sem krefjast mikils sviðsbúnaðar. Það á segja að við séum að tala um konsertuppfærslur af óperum. Gerð sviðs og hljómsveitargryfju er einmitt í athugun núna og er að því stefnt að aðstæður til flutnings á óperum í konsertuppfærslum verði eins og best verður á kosið án þess að gerð verði hliðar- eða baksvið eða annað sem tilheyrir óperuhúsum og mundi valda miklum kostnaðarauka.

Á síðasta ári voru gerðar athuganir á að skapa Íslensku óperunni aðstöðu í Borgarleikhúsinu. Í tengslum við það var lauslegt mat lagt á það hvaða kostnaðarauki væri því fylgjandi að stækka minnsta sal tónlistarhússins og koma þar upp óperuaðstöðu. Niðurstaðan var að húsið þyrfti að stækka um 4.600 fermetra og kostnaðaraukinn yrði tæpar 1.700 millj. kr. Þótti aðilum þessi tillaga ekki aðgengileg og höfum við ákveðið að halda áfram með verkefnið eins og um var samið milli ríkis og borgar.