Tónlistar- og ráðstefnuhús

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:36:51 (6284)

2004-04-14 15:36:51# 130. lþ. 96.9 fundur 799. mál: #A tónlistar- og ráðstefnuhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka efnið hér upp og ekki síður fyrir framlag hans til menningarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu með hinu glæsilega tónlistarhúsi í Kópavogi. Það er enginn efi að tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur mun skipta miklu máli fyrir vaxtarsprotann í atvinnulífinu í borginni, ferðaþjónustuna, ráðstefnuiðnaðinn og annað þess háttar og það verður ekki síður mikilvæg styrking miðborgar Reykjavíkur, höfuðborgarinnar sjálfrar. Ég vil þess vegna nota tækifærið og fagna því sérstaklega hversu einarðlega hæstv. menntmrh. hefur, ný í embætti, gengið fram í þessu máli. Það hefur lengi verið í undirbúningi. Samstarf ríkis og borgar hefur því miður á stundum gengið svona og svona. En framganga hæstv. menntmrh. og yfirlýsingar í tengslum við tónlistar- og ráðstefnuhús eru sérstakt fagnaðarefni. Hún hefur tekið eindregna afstöðu um að af þessari framkvæmd verði. Hún hefur hér nefnt fjárhæðir og tímasetningar. Við treystum því einfaldlega að hæstv. ráðherra fylgi þeim orðum sínum eftir og við megum njóta glæsilegrar uppbyggingar í miðborg Reykjavíkur í þágu menningar og mannlífs okkar allra.